Saturday, September 5, 2015

River rafting á Níl

Síðustu dögum höfum við varið á hosteli í bænum Jinja. Þessi bær er við Viktoríuvatn og upptök árinnar Níl. Við erum á backpacker hosteli með útsýni yfir ána og þessi staður er einfaldlega undurfagur.

Þegar við googluðum "visit uganda" kom river rafting á Níl upp á öllum listum. Við fórum í gær og mikið er ég ánægð með að Guðbjörg hafi drifið okkur af stað. Við lögðum af stað snemma í morgun. Hittum hópinn okkar sem samanstóð af mér og Guðbjörgu, banarískum systrum á sextugsaldri, indverskum strák og öðrum breskum á okkar aldri. Hresst lið. Með okkur var svo eldklár og endalaus fyndinn guide.

Við byrjuðum á að keyra neðar í Níl. Þar klæddumst við björgunarvestum og hjálmum og fórum útí ána. Til að byrja með gerðum við nokkrar æfingar í að detta, halda í bátinn, róa o.fl. Þaðan hófust siglingarnar sjálfar. Á litla gúmmíbátnum okkar óðum við af stað í alls kyns strauma og flúðir. Við héldum dauðahaldi í bátinn og ég var óskaplega þakklát fyrir björgunarvestið mitt og hjálminn. Adrenalínið stökk um frá toppi til táar og váts hvað þetta var gaman. Víkingagenin héldu okkur í öldunum og við náðum að halda bátnum uppi í gegnum öll herlegheitin. Við bættum þó stundum í og stukkum útí og leyfðum björgunarvestunum að vinna vinnuna sína og fljóta með okkur í gegnum strauminn. 

Á milli straumanna leit Níl út eins og stöðuvatn þar sem við róuðum niður ána í rólegheitum. Þá nutum við veðurblíðu og útsýnis, það var sól og fallegt veður. Áin var volg og notaleg að stökkva útí. Við horfðum á græna árbakkana og fallegan gróður beggja vegna árinnar, fylgdumst með öðrum raftbátum, kayökum og einstaka fiskibátum. Við sáum erni njóta lífsins á lítilli eyju í miðri ánni og ýmsa aðra fallega og furðulega fugla synda í ánni og fljúga um. Á seinni parti bátsferðarinnar fór þó að draga ský fyrir sólu og á lokaspretti siglingarinnar kom þessi úrhellisdemba. Ekta afrískt skýfall þar sem droparnir voru svo stórir og öflugir að það var sárt að fá þá framan í sig. Þá settum við hnakkann fyrir okkur og rérum eins og við áttum lífið að leysa að bakkanum. Og komumst þangað heil á húfi.


Ég er líka enn á lífi. Mamma og pabbi fengu ekki að vita af þessari för fyrr en núna. Guidinum fannst gaman að segja okkur ógnvænlegar krókódílasögur úr Níl á leiðinni og til að vera alveg safe ætlum við að taka ormalyf. Við drukkum ábyggilega einhverja lítra af Níl í dag, því það eru víst alls kyns fínerís snýkjudýr í ánni. Það fara samt tugir af fólki í riverrafting og á kayak í ánni á hverjum degi svo þetta getur ekki verið svo alvarlegt.Þetta var magnaður dagur. Mér finnst ekki skrýtið að þetta hafi verið á öllum topplistum og mun ekki gleyma honum.





Thursday, September 3, 2015

Púslkeppnin

Nú fyrir um 3 vikum síðan fékk ég sendingu frá Íslandi. Sendingin var frá Unni og Lillý og innihélt allskyns varning, meðal annars 24 stykkja púsluspil með hundamyndum. Við Guðbjörg undirbjuggum farangur okka vel fyrir ferðina með alls kyns dægrastyttingu með ýmsum hætti og meðal annars þessum spilastokk.

Frá Mwanza tókum við bát til Bukoba, sem er bær alveg við Úgönsku landamærin. Þetta var 12 tíma ferð frá 6 að kvöldi til 6 að morgni. Við höfðum hálfan bekk á móti hvor annarri og yndæla Úganska fjölskyldu með okkur á okkar bekkjum og næsta. Fjölskyldan samanstóð af foreldrum, 3 strákum um 6- 12 áraVið byrjuðum að spjalla og komumst að því að strákarnir litlu töluðu líka ensku, reiprennandi og stanslaust :P Eftir að haa spjallað dágóða stund og fylgst með lífinu við strendur Viktoríuvatn tók Guðbjörg upp púsluspilið fór að púsla með yngsta stráknum. Það gekk heldur hægt til að byrja með en hann var þó fljótur að læra. Hann virtist ekki hafa gert þetta áður. 
Púsluspilið vakti hins vegar athygli. Frændinn, sem var líklegast um þrítugt horfði á púslið girnaraugum og vildi prufa næst. Þegar maður á næsta borði sá að frændinn, sem var fullorðinn, fékk að prufa vildi hann líka vera með. Og þeir byrjuðu. Tveir saman með 24ra stykkja púsl og vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Prufuðu ótrúlegustu púslur saman, áttuðu sig ekkert á að það væri munur á hornpúslum, hliðarpúslum og miðjupúslum og voru svo klunnalegir í öllum fínhreyfingum að það var alveg fyndið. Við sáum að þetta gekk ekki neitt og ákváðum því að leiðbeina þeim aðeins. Við reyndum að segja þeim best væri að byrja með því að flokka púslin og gera rammann en þeir heyrðu ekkert í okkur því þeir voru gjörsamleg niðursokknir í leikinn. Við áttum fullt í fangi með að halda andliti og nutum þessarar sjónar. Maður um þrítugt í hvítri skyrtu og arabi um fertugt í arabakjól og með hatt sem hvorki heyrðu né sáu það sem var í kringum þá því þeir voru svo niðursokknir í eitt pínulítið hundapúsl.

Eftir dágóða stund en harlalítinn árangur náðu þeir betra sambandi við umheiminn og fóru nú að hlusta á hvernig best væri að haga leiknum. Þeir voru dálítið lengi að ná þessu en það kom þó. Og með nokkurri hjálp (litlu strákarnir voru að fylgjast með og náðu þessu miklu fyrr) þá kláraðist púslið! Þeir vildu prufa aftur og svo aftur og svo var komið kapp í þá og þeir vildu taka tímann. Fjórða tilraun tók rúmar 12 mínútur. Þá sögðu þeir okkur Guðbjörgu að prufa hvað við værum lengi. Hvorug okkar hafði púslað púslið o við fengum alveg frammistöðukvíðafiðrildi í magann áður en við byrjuðum efir að hafa hlegið svona að þeim púsla. En árangurinn lét ekki á sér standa. Við vorum rúma mínútu að klára púslið og skipverjar okkar horfðu á okkur eins og við værum að framkvæma töfrabrögð. 


Unnur og Lillý, þið hittuð í mark þarna ;) Skemmtilegur leikur sem heldur betur stytti okkur stundir í bátnum og vöktu upp margar spurningar og undrun.