Saturday, September 5, 2015

River rafting á Níl

Síðustu dögum höfum við varið á hosteli í bænum Jinja. Þessi bær er við Viktoríuvatn og upptök árinnar Níl. Við erum á backpacker hosteli með útsýni yfir ána og þessi staður er einfaldlega undurfagur.

Þegar við googluðum "visit uganda" kom river rafting á Níl upp á öllum listum. Við fórum í gær og mikið er ég ánægð með að Guðbjörg hafi drifið okkur af stað. Við lögðum af stað snemma í morgun. Hittum hópinn okkar sem samanstóð af mér og Guðbjörgu, banarískum systrum á sextugsaldri, indverskum strák og öðrum breskum á okkar aldri. Hresst lið. Með okkur var svo eldklár og endalaus fyndinn guide.

Við byrjuðum á að keyra neðar í Níl. Þar klæddumst við björgunarvestum og hjálmum og fórum útí ána. Til að byrja með gerðum við nokkrar æfingar í að detta, halda í bátinn, róa o.fl. Þaðan hófust siglingarnar sjálfar. Á litla gúmmíbátnum okkar óðum við af stað í alls kyns strauma og flúðir. Við héldum dauðahaldi í bátinn og ég var óskaplega þakklát fyrir björgunarvestið mitt og hjálminn. Adrenalínið stökk um frá toppi til táar og váts hvað þetta var gaman. Víkingagenin héldu okkur í öldunum og við náðum að halda bátnum uppi í gegnum öll herlegheitin. Við bættum þó stundum í og stukkum útí og leyfðum björgunarvestunum að vinna vinnuna sína og fljóta með okkur í gegnum strauminn. 

Á milli straumanna leit Níl út eins og stöðuvatn þar sem við róuðum niður ána í rólegheitum. Þá nutum við veðurblíðu og útsýnis, það var sól og fallegt veður. Áin var volg og notaleg að stökkva útí. Við horfðum á græna árbakkana og fallegan gróður beggja vegna árinnar, fylgdumst með öðrum raftbátum, kayökum og einstaka fiskibátum. Við sáum erni njóta lífsins á lítilli eyju í miðri ánni og ýmsa aðra fallega og furðulega fugla synda í ánni og fljúga um. Á seinni parti bátsferðarinnar fór þó að draga ský fyrir sólu og á lokaspretti siglingarinnar kom þessi úrhellisdemba. Ekta afrískt skýfall þar sem droparnir voru svo stórir og öflugir að það var sárt að fá þá framan í sig. Þá settum við hnakkann fyrir okkur og rérum eins og við áttum lífið að leysa að bakkanum. Og komumst þangað heil á húfi.


Ég er líka enn á lífi. Mamma og pabbi fengu ekki að vita af þessari för fyrr en núna. Guidinum fannst gaman að segja okkur ógnvænlegar krókódílasögur úr Níl á leiðinni og til að vera alveg safe ætlum við að taka ormalyf. Við drukkum ábyggilega einhverja lítra af Níl í dag, því það eru víst alls kyns fínerís snýkjudýr í ánni. Það fara samt tugir af fólki í riverrafting og á kayak í ánni á hverjum degi svo þetta getur ekki verið svo alvarlegt.Þetta var magnaður dagur. Mér finnst ekki skrýtið að þetta hafi verið á öllum topplistum og mun ekki gleyma honum.





1 comment: