Tuesday, March 31, 2015

Og þá kom steipiregn

Aðal rigningartímabilið hérna er í apríl en stendur frá miðjum mars fram í miðjan maí. Fyrstu vikuna mína hér var steikjandi sól og hiti en eftir það fóru skýin að láta sjá sig með stöku skúrum. Það var hins vegar í gærmorgunn sem fyrsta alvöru demban kom. Ég var sofandi en vaknaði við hljóðið og í fyrsta sinn síðan ég kom greip ég í lakið mitt (ekki dýnulakið, heldur hitt), og breiddi yfir mig. Það var samt svo notalegt að hlusta á rigninguna.

Það er orðið aðeins kaldara núna,fer niður í 20 stiga hita á nóttunni og loftið er rakara. Malarvegirnir sem ég labba í vinnuna eru eitt drullusvað á morgnanna en skárri á leiðinni heim því þá hafa þeir þornað nokkuð.

Nú fer í hönd mikill gróður- og uppskerutími. Það er komin gróðurlykt í loftið. Þessa vikuna hefur annar hver maður verið með garðverkfærið með sér í strætó. Mér hefur líka verið sagt að sumir ráði einfaldlega ekki við sig og borði rennblauta moldina af þakklæti og ánægju fyrir rigninguna. Ég labba í gegnum mikið landbúnaðarhérað á leið minni í vinnuna. Það var rétt farið að sjást í eitthvað grænt gægjast uppúr moldinni á föstudaginn. Það var orðið þónokkuð hærra þegar ég mætti á mánudaginn (í gær), búið að vaxa heilmikið þegar ég fór heim og þegar ég fór heim áðan voru maísgrösin orðin svona 10 cm há. 


Á rigningartímabilinu er algengara að rafmagnið detti út. Í gærmorgun var einmitt rafmagnslaust og þegar ég kom fram sagði mamma Rósa mér að "dada/systir" (vinnustelpan á heimilinu) væri farin út í búð að kaupa kol til að hita vatn. Ég reyndi að malda í móinn, dagðist ekki þurfa að fá te en það var ekki tekið til greina. Ég YRÐI að fá heitt te áður en ég færi út í þessum kulda. (kuldaskræfan ég var samt enn að stikna í stuttermabolnum). Í strætó á leiðinni í vinnuna voru margir klæddir peysum. Hins vegar var konan sem sat á móti mér í flísgalla með húfu og trefil. Ég þurfti að hafa mig alla við að halda andlitinu á mér alvarlegu.


Saturday, March 28, 2015

Þvottavélar og vestrænir spítalar

Ég velti stundum fyrir mér hvaða hugmyndir fólkið hérna hefur um Evrópubúa. Ég var að spjalla við mama Rósu um daginn og þá sagði hún beint út það sem ég hef oft á tilfinningunni: Stundum höldum við að hvítt fólk geti ekki gert neitt.

       Ég á mörg lítil dæmi um þetta, t.d. þegar ég er í vinnunni og ætla að vaska upp (það er vaskað              upp öðruvísi en heima), þá sér einhver að ég er klaufsk við verkið miðað við þau og diskurinn er        bara tekinn af mér og vaskaður upp fyrir mig.

Rétt áður en mama Rósa sagði þetta höfðum við verið að spjalla saman. Ég sagði henni að mér þætti gaman að elda og gerði mikið af því heima. Mama Rósa var alveg hissa á því að ég kynni að elda, spurði mig hvað ég eldaði og ég sagði henni að t.d. eldaði ég hrísgrjón og sósu/pottrétti rétt eins og hér. Þá sagði mama, já þá svona í hrísgrjónapotti/tæki? Nei sagði ég, bara rétt eins og þið hérna, í potti á eldavél. Ég bý líka til alls konar pottrétti með grænmeti og kjöti, bara eins og hér. Hún varð aldeilis hissa.

Fyrstu vikuna mína hér bjó einn frændi á heimilinu. Hann er í heimavistarskóla hér í bænum en af því að hann er var puttabrotinn og í gipsi þá mátti hann ekki vera á heimavistinni því hann gæti ekki unnið nein húsverk og ekki gert neitt. Mér fannst þetta heldur skrítið og sagði að hann gæti nú bara vel gert flest allt annað en kannski þvegið föt. Ég sagði að mamma mín gæti t.d. bara notað aðra hendina en hún gæti samt unnið flestöll húsverk, bara aðeins hægar. Mama Rósa skildi það vel, að einhent fólk í Evrópu gæti unnið öll húsverk því við værum með uppþvottavélar, þvottavélar og eftir því sem samræðurnar héldu áttaði ég mig á því að hennar hugmynd væri sú að hlutirnir gerðust einfaldlega að sjálfu sér í Evrópu. Ég reyndi að segja henni að þó við værum með þvottavélar þá þyrfti samt að hengja upp þvottinn eins og hér, strauja hann eins og hér og við þurfum að skola leirtauið, raða í uppþvottavélina og vaska upp allt það sem ekki má fara í vélina. Mama Rosa var ekki alveg að ná þessu. Húsverkin gerðust bara að sjálfu sér í Evrópu.

En við höfum spjallað meira. Ég hef sagt henni frá vinnunni minni hérna og vinnunni minni heima. Ég sagði henni að heima vinni ég með fólki sem hefði t.d. alzheimer eða fengið heilablóðfall. Ég sagði henni einnig að krabbamein væri ein helsta ástæða dauðsfalla á Íslandi og eitt af megin heilsufarsvandamálum þar. En það var eins og hún áttaði sig ekki á því að krabbamein eða aðrir sjúkdómar væru vandamál í vestrænum ríkjum. Við værum með svo mikið af sjúkrahúsum og læknum að það væri hægt að laga þetta allt saman. Rétt eins og við gengjum bara inn á spítalann og abrakadabra, þú ert læknuð!


Mörg húsverk hér eru tímafrekari en heima, samt ekki öll. Vandamál heilbrigðiskerfisins hér eru rosaleg og hakan á mér dettur niður á bringu þegar fólk segir mér frá stöðunni hérna. Það er samt líka alveg ofsalega áhugavert að heyra hugmyndir Tansaníubúa um lífið heima.

Friday, March 27, 2015

Bóndabrúnkan

Nú eru að verða komnar fjórar vikur síðan pabbi skundaði Reykjanesbrautina á gullvagninum góða, í átt að Keflavíkurflugvelli með mömmu í framsætinu, mig í aftursætinu og ferðatösku í skottinu. Það hafði lítið verið sofið nóttina áður enda frumburðurinn á leið til svörtustu Afríku. Ég held að mamma hafi spurt mig svona fjórum sinnum um morguninn hvort ég væri ekki örugglega með vegabréfið með mér, peningaveskið og bólusetningarskírteinið. Andrúmsloftið í bílnum var spennuþrungið en fullt tilhlökkunar. 
Þegar við vorum í þann mund að fara framhjá álverinur heyrist í mér úr aftursætinu: ,,Jeremías! Ég gleymdi brúnkukreminu mínu! "
Mamma, sem eins og áður sagði var frekar stressuð yfir þessu öllu var fljót til svars og sagði:,,Þú kaupir þér bara nýtt Arndís. Þetta verður bara allt í lagi, ég skal meira að segja láta þig fá pening fyrir því!"
Skömmu seinna heyrist í pabba: ,,Arndís, af hverju þarftu brúnkukrem í Afríku?"
Ég fór að skellihlæja og við öll þrjú.

Hér klæðist fólk fötum sem ná yfir axlirnar og niður fyrir hné. Ég er yfirleitt í munstróttum afríkubuxum, stuttermabol og sandölum. Fyrstu dagana fékk ég svakalegt stuttermabolafar og rosalegt tevufar á ristarnar. Þegar ég ætlaði að fara að jafna tanið út var hins vegar komið rigningartímabil og alltaf þegar ég ætla í sólbað er skýjað (það er eiginlega alltaf skýjað þessa dagana).

Ég er á leiðinni út í kvöld. Á túristastöðum, matsölustöðum og skemmtistöðum eru þessar siðferðisreglur um klæðnað frjálslegri. Ég er búin að hlakka mikið til að fara í eitthvað af sumarkjólunum sem ég kom með og var að máta áðan- þeir koma bara alveg hræðilega út með þessari bóndabrúnku.


Ég bjóst ekki við að segja þetta en: Ég er búin að vera þrjár vikur í Afríku og ég vildi að ég hefði tekið með mér brúnkukrem.

Thursday, March 26, 2015

Þarmasósan

Við gott tækifæri kem ég með nákvæmari lýsingu á tansanískum mat og matarhefðum. Í kvöldatinn hér er yfirleitt hrísgrjón, maísgrautur eða bananar (öðruvísi bananar) og svo er einhver sósa með sem er gerð úr grænmeti, kjöti eða baunum. Einstaka sinnum eru hins vegar kartöflur í matinn og það finnst mér afskaplega gott og hef sagt þeim að kartöflur séu maísgrauturinn okkar, við borðum þær á hverjum degi.

Í gær mætti ég heldur betur brosandi andliti þegar ég kom í kvöldmat. Mamman sagði "karibu Arndís!"(gjörðu svo vel!) We have your favourite for dinner! We have potatoes! Það var ég aldeilis ánægð með og fékk mér vel á diskinn. 

Með þessu var einhver kjötsósasem ég setti yfir en þegar ég fór að skoða kjötbitana litu þeir út eins og einhver rör miklu frekar en kjötbitar. Ég spurði hvað þetta væri og mér var sagt: "stomack from the cow". Svo borðaði ég þetta. Bragðaðist bara eins og allar aðrar kjötsósur hérna, bara seigara en kjötið.  Miðað við útlitið á þessu er ég helst á því að þetta hafi verið smáþarmar.


Kartöflur, avocado og þarmasósa- jájá.

Það sem tekur lengri tíma

Mín reynla af Tansaníubúum er sú að þeir meta tíma á allt annan hátt en vesturlandabúar. Hér er orðið pole pole (slow slow) notað yfir gjörsamlega allt eins og "þetta reddast" "engan æsing" eða "ég nenni því ekki núna". Tansaníubúar eru líka frekar óstundvísir og tíminn sem fer í að bíða eftir hinu og þessu getur oft verið mikill. Þetta er sérstaklega áhugavert að sjá í vinnunni þegar kennararnir loksins mæta í kennslustundirnar og komast þá að því að það eigi eftir að sækja stóla í kennslustofuna og gera forskrift í allar skriftarbækurnar. Fyrsta korterið fer í þetta og ja… heill bekkur af börnum með einhverfu eða athyglisbrest að bíða prúð á meðan, neee…. Þá fer heilmikill tími í að koma öllum aftur í sætin sín. En þá er samt nógur tími eftir. Jú, afríkubúar gefa sér góðan tíma í allt og kennslustundirnar eru örugglega þrisvar sinnum lengri en heima.

Í kennslustundunum þarf svo oftar en ekki að ydda alla blýantana. Yddarinn sem er í kennslustofunni minni er svona gamalt gríni með snúningssveif og algjört tryllitæki nema hvað hann er alveg úr sér slitinn svo það þarf eina manneskju til að halda yddaranum saman á meðan annar yddar. Það tekur svo heillangan tím að ydda því yddarinn er alveg bitlaus. Ég hef takmarkaða trú að á stofnunin sé of fátæk til að kaupa einn yddara, það framkvæmir það bara enginn.


Þetta tímalausa líf getur verið alveg dæmalaust en ég elska það samt líka.

Monday, March 23, 2015

Ný síða!

Velkomin á nýju bloggsíðuna mína :) Ég gafst upp á hinni, mér tókst eiginlega aldrei að opna hana og enn sjaldnar að copy- paste-a bloggin sem ég hafði skrifað. Vonandi gengur þessi betur!

Djammið og myrkrið.

22.3.15
Ég fór á djammið síðasta föstudag. Hér er hefð fyrir því að sjálfboðaliðarnir frá samtökunum úr bænum mínum fari saman á djammið á föstudagskvöldum. Ég vissi ekki af því um síðustu helgi (fyrstu helgina mína) og krakkarnir voru svo miður sín yfir því að ég fékk þónokkur sms frá hinum ýmsu krökkum til að láta mig vita. Og ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta. Hér er alla jafna ekki farið út eftir myrkur. Hér dimmir rétt fyrir kl. 19 á kvöldin og ég er alltaf komin heim tímanlega fyrir það. Ég hafði tvisvar áður farið út eftir myrkur en þá var ég í bæði skiptin með mömmu Rósu, fórum í bíl í heimsókn og aftur heim í bílnum. Sárafáir á ferli. 

Þar sem ég ætlaði út eftir myrkur þá varð ég að fara í leigubíl og ekki hvaða leigubíl sem er, ég var búin að fá símanúmer hjá nokkrum leigubílsstjórum sem voru öruggir og með sanngjarnt verð. Ég tók leigubíl á barinn, vel valinn leigubílastjóra af Sam, syninum sem var einnig búinn að samþykkja verð fyrirfram. Á barnum var margt um manninn, mikið stuð og mikið spjallað. Þaðan var ferðinni heitið á discotek. Leigubíll tekinn þangað. Þar héldum við hópinn á dansgólfinu/barnum en ef einhver þurfti á klósettið þá varð a.m.k. einn að koma með því þú fórst aðeins úr augnýn af dansgólfinu. Þegar ég ætlaði heim hringdi ein stelpan í vel valinn leigubílsstjóra. Hann keyrði mig heim, ég hringdi í Sam og bað hann um að opna hliðið fyrir mér. Ég þurfti aðeins að bíða eftir að hann kom og opnaði en leigubílsstjórinn fór ekki fyrr en hann sá að ég var kominn inn fyrir hliðið. Það var nánast enginn á ferli þarna um nóttina nema bara inni á stöðunum sjálfum. Hér fer bara enginn út eftir myrkur.

Mannréttindi

21.3.15
Það er svo margt skrýtið hérna. Ég vinn á endurhæfingarstofnun. Eitt af helstu markmiðum stofnunarinnar er að auka þekkingu almennings á fötlunum. Þau eru með alls konar verkefni í gangi. Um helgina er fótboltaleikur þar sem krakkar og starfsfólk keppir á móti fyrirtæki í bænum (fyrirtækið stefnir á að styrkja stofnunina). Meginmarkmið fótboltaleiksins er að kynna alla þá færni sem býr í einstaklingum með fötlun og hvað þau geta ef umhverfið og samfélagið styður þau. Dagur einhverfra verður haldinn með pompi og prakt í þarnæstu viku og stofnunin er með einn starfsmann í hálfu starfi við að fara inní skóla og aðrar stofnanir til að auka vitund fólks á fötlunum. Eftir rúma viku verður dagur einhverfu haldinn hátíðlegur í miðbænum. 
Það er sannarlega þörf á þessari vitundarvakningu. Hér er því trúað af mjög mörgum að ef það kemur fatlað barn inn í fjölskylduna þá sé komin bölvun í fjölskylduna. Í síðustu viku lagðist ég yfir skýrslur nokkurra barna sem ég kem til með að vinna með. Ég er næstum hætt að kippa mér upp við að lesa "faðir yfirgaf fjölskylduna þegar fötlun barnsins kom í ljós". Og stundum hafa mæður gert það líka. Bara látið sig hverfa og enginn veit neitt. Mér hefur líka verið sagt af fleira en einum að fatlað fólk sé læst inni á heimilum sínum því fjölskyldan vill ekki að þau sjáist. Fjölskyldan mín er með mann í vinnu sem er þroskaskertur. Hann er farinn heim þegar ég kem heim á daginn en hann er hérna á laugardögum. Ég hef aldrei séð hann koma inn í húsið og þegar ég borða hádegismat hér á laugardögum er alltaf byrjað á því að skammta á disk og fara með út til hans. Mér er sagt að honum finnist betra að borða einn en ég á erfitt með að trúa því.
Samkynhneygð er bönnuð hérna. Strákurinn sem er í fjölskyldunni spurði mig mikið útí hvernig þetta væri á Íslandi um daginn. Spurningarnar hans voru áhugaverðar, t.d. eins og: Ef strákur er hommi, langar hann þá í kærasta sem er strákur? En kærastinn, er hann þá líka samkynhneigður? Kyssast þeir? Alls konar svona spurningar. Hlutir sem mér finnst svo sjálfsagðir en auðvitað, ef þú þekkir þá ekki, ekki svo sjálfsagðir.
Í sjónvarpsfréttunum er rætt um albínóa nánast á hverjum degi og nú er ein algengasta sjónvarpsauglýsingin þannig að albínóar segja að þeir eigi rétt á lífi, öryggi og virðingu. Hér er alveg þónokkuð af albínóum. Í kringum Viktoríuvatn sem er hér rétt vestan við mig er meira af albínóum. Þar tíðkast að taka útlimi þeirra og nota í nornaseyði.


Það er svo margt skrýtið hérna. Eflaust eiga skoðanir mínar á ýmsu eftir að breytast á meðan veru minni stendur en ekki á þessu. Hvað þetta varðar er ég endalaust þakklát fyrir að vera Íslendingur.

Fjölskyldan sem ég bý hjá

Samtökin sem ég fór í gegnum buðu uppá tvo búsetumöguleika. Annars vegar að búa með fjölskyldu eða búa í húsi með öðrum sjálfboðaliðum frá sömu samtökum. Eftir þónokkrar vangaveltur ákvað ég að vera hjá fjölskyldu því mér fannst það einstakt tækifæri til að kynnast local líferni. Þessu fylgja kostir og gallar. Mér finnst þetta einstakt tækifæri til að kynnast nýjum hugsunarhætti og fjölskyldulífi. Ég hef þó reyndar alveg fundið fyrir því að ég er ekki jafn involveruð í félagslífinu og þeir sem búa með öðrum sjálfboðaliðum. Hingað til hefur samt verið alveg ótrúlega áhugavert að búa með fjölskyldunni. Hér fáið þið smá lýsingu á þeim og fjölskyldulífinu þeirra.


Mama Rosa er mamman á heimilinu. Pabbinn heitir George. Þau eiga fjögur börn, sá yngsti heitir Sam, hann er 19 ára og er sá eini sem býr enn heima. Svo er líka stelpa hérna (einhver frænka skilst mér) sem heitir Batuli en hún var ekki hérna fyrstu vikuna mína. Í síðustu viku bjó líka hér einn frændi sem er 18 ára en hann er farinn í skólann sinn aftur núna. Mamman og sonurinn tala góða ensku svo ég þekki þau best. Þau eru öll mjög yndæl og opin og það er gaman að spjalla við þau. Mamman kennir mmér líka Swahili. Ég er búin að fara með þeim í boð og heimsóknir og alls kyns spennandi. Ég kann vel við margt hérna, ekki spurning en það er ákaflega margt í heimilislífinu sem ég skil bara hreinlega ekkert í. Þá helst varðandi verkaskiptingu á heimilinu. Ég fæ t.d. eiginlega ekki að lyfta upp hendinni í heimilisstörfunum, sem mér finnst óþægilegt. Líður pínu eins og postulínsdúkku. Pabbinn er aldrei heima og borðar aldrei með okkur, ekki einu sinni þegar hann er heima. Mér finnst eins og frænkan og sonurinn fari hreinlega aldrei úr húsi til að hitta vini eða eitthvað. Alls konar skrítið.

Helgin

17.3.15
Fyrsta helgin mín hér var nú bara frekar róleg og afslöppuð. Á föstudaginn var ég tekin í kennslustund í afrískum dönsum af strákunum á heimilinu (syninum og frændanum). Það var mikið hlegið. Ég verð kannski búin að ná einhverju af þessu eftir ár…
Á laugardaginn fór ég í fjölskylduboð, fyrir-trúlofunarboð. Fjölskyldan mín er skyld stúlkunni og hér er hefð fyrir því að foreldrar/ættingjar mannsins sé boðið í boð til fjölskyldu konunnnar til að sjá hvernig þeim líst á og hvort eigi að samþykkja trúlofunina. Áður fyrr var einnig rætt um hversu margar kýr fengjust fyrir dótturina en það er sem betur fer ekkert þannig lengur. Bara partý og gaman gaman. Ég fékk alls konar góðan mat, þarna var búið að grilla alls konar fínerí eins og geitakjöt og kjúkling, elda hrísgrjón, bananasúpu og alls konar.


Á sunnudeginum lá leiðin í kirkju. Mér fannst ég nú verða að prufa það líka. Þangað mættu allir í sínu fínasta pússi og ég hafði gaman af því að skoða alla kjólana hjó konunum. Munstrin, litirnir, o þetta er svo flott. Þetta var lúthersk messa og að flestu leiti bara svipuð messunum heima fannst mér (ja ég skildi reyndar ekkert af því sem presturinn sagði svo ég get ekki alveg sagt til um það).  Það var svolítið önnur stemmning að vera svona hálf utandyra svo það var ekki jafn mikil þögn og í kirkjum heima, fólk sem vildi syndga kom upp að altarinu með pening og kirkjukórinn söng gospellög og svingaði sér létt með.

Strætó

Strætóarnir hérna heita Daladala og eru minibusar. Strætóferðirnar hérna eru eiginlega mesta afríku-adrenalinkickið sem ég fæ. Allir strætóar leggja af stað frá aðal strætisvagnastöðinni Ég þarf því að taka einn strætó niður í bæ og annan þaðan og í Gabriellas.  Strætóarnir fara ekki af stað fyrr en setið er í öllum sætum en á á leiðinni bætist fólk í. Einstaka sinnum eru strætóarnir fullir en yfirleitt er bara troðið og troðið. Fólk situr þétt, sest ofan á hvort annað og stendur hálf-upprétt. Þegar einhver ætlar út þurfa oftar en ekki tveir þrír að fara út úr strætó til að sá sem ætlar út komist.  Ég fer yfirleitt með bakpoka í vinnuna með vatnsflösku og fleiru í. Hann fær ekki að vera á bakinu á mér því það tekur allt of mikið pláss. Yfirleitt reyni ég að halda á honum einhvern veginn í annarri hendinni. Einn daginn hins vegar þurfti ég að taka tölvuna með í vinnuna. Ég var pínu stressuð yfir því og ætlaði að halda fast í töskuna. En strætóinn var stútfullur og kona sem sat fyrir framan mig greip töskuna og setti í kjöltu sér. Mér leist ekkert á þetta en gat engan veginn haldið á henni sjálf í þessum þrengslum. En það var nú kannski ekkert til að vera stressuð yfir. Næst þegar ég fór í strætó kom móðir með barn uppí troðfullan strætóinn. Mamman stóð við dyrnar en barnið var gripið af þeim sem voru inní strætónum fyrir og komið fyrir í hjá einhverjum af sitjandi farþegunum. Stundum kemur fólk með alla hrísgrjónauppskeruna sína meðferðis eða varadekk undir bílinn sinn sem þarf líka að koma fyrir. Í gær var einn með nokkrar gaggandi hænur með sér sem troðið var fyrir aftan öftustu strætóröðina.

Tveir starfsmenn eru í vagninum. Annars vegar bílstjórinn og hins vegar maður sem er aftaní. Hann stendur inni í bílnum en er eiginlega hálfur útum gluggann. Hans hlutverk er að fylgjast með hvort einhver sé að leita eftiri fari. Hann sér einnig um að safna strætófargjöldum og í leiðinni segir fólk honum hvar það vill stoppa til að ganga úr skugga um að það sé örugglega stoppað á þeirra stöð. Svo er vagnstjórinn með eitthvað svona klappsystem til að bílstjórinn viti hvenær hann eigi að stoppa og hvenær allir eru komnir inn og vagninn megi fara af stað. Ég þarf að fylgjast vel með því hvenær ég ætla út og rétt áður en ég kem að stöðinni minni þarf ég að kalla nafnið á henni til að það verði örugglega stoppað. Oft er mikill hávaði inní strætó en þá byrja alli hinir í strætónum að kalla frammí að það þurfi að stoppa næst. Ég lendi líka oft í því að vera ein af þeim sem stend hálf upprétt í strætó. Ég þakka mikið vel fyrir það að það eru þrjár hraðahindranir rétt áður en ég kem að stoppinu mínu í vinnuna. Þá fer ég að þekkja mig.

Það eru mismunadi leiðir sem strætóarnir fara en engin tímaplön. Þeir einfaldlega fara af stað þegar vagnarnir eru fullir.


Einn af fyrstu dögunum mínum gerði ég t.d. þau mistök að fara upp í strætó sem var næstum tómur. Hann fór af stað svona 40 mín seinna. 

Internetið, þvotturinn og harðfiskurinn

11.3.15
Þá kemur annar troðfullur af ævintýrum afríkudagur. Ég fékk að fara fyrr úr vinnunni til að komast í búð að kaupa mér internet fyrir lokun. Á leiðinni lenti ég í gæja sem vildi selja mér eitthvað. Hann elti mig um allt og beið fyrir utan internetbúðina á meðan ég var þar. Fólkið í búðinni varaði mig við honum þegar ég fór út, fannst hann frekar óhugnarlegur og sögðu mér að halda fast um veskið mitt. Ég gerði það og hann hélt áfram að elta mig. Mjög pirrandi og ég var orðin pínu smeyk við hann svo ég ákvað að bíða með að fara í bankann þar til á morgun.
Þegar ég kom heim virkaði internetið að sjálfsögðu ekki. Sama hvað ég reyndi og frændinn sem býr hér, reyndi. Ég var orðin alveg internet þyrst svo frændinn reddaði svona hot-spot interneti í gegnum símann sinn í smá stund. En þá datt rafmagnið út og þar með tölvan mín. Fuuu…
En allt í lagi. Ég fór út. Þar var mama Rosa að elda. (hér er eldað með kolum utandyra). Ég sagði henni eð mig langaði að þvo fötin mín. Hún lét mig fá fötu , bala, þvottaduft og sápu. Ég fór eitthvað að bjástra við að fylla fötuna af vatni og setti smá þvottaduft útí og svo nudda svona helstu “skítastaðina” eins og handarkrikana á bolunum ofl. Þá var heldur betur hlegið að mér. Mama Rosa og frænkan tóku málið í sínar hendur. Frænkan sýndi hvernig hlutirnir eru gerðir en mama Rosa eldaði og sagði til í þvottinum. Það átti að hafa vel af sápufroðu í fötunni og svo voru fötin nudduð og nudduð og nudduð, hver einasti blettur á flíkinni. Þær frænkurnar höfðu líka sterkar skoðanir á í hvaða röð fötin væru þvegin. Í endann voru þær stöllur alveg farnar að gúddera hvernig ég gerði þetta svo ég vonandi redda mér næst. Það var nú kannski alveg þörf á þessari kennslu því fötin voru grútskítug. Hér eru skrjáfaþurrir malarvegir og rykið þyrlast út um allt.
Á meðan ég og frænkan stóðum í þessum þvotti var mama Rosa að elda. Það var kominn alveg dásemdarylmur úr eldhúsinu, kókos- grænmetis-sósu- fínerí. Þegar ég var að ljúka við þvottinn minn kallaði mama Rosa: look Arndís, what we are having for dinner! … og á því augnabliki skellti hún öllum harðfisknum sem ég hafði gefið henni þegar ég kom, útí kókossósuna. Mér fannst það svakalega fyndið, sérstaklega af því að ég hafði sagt henni nokkrum sinnum að við borðuðum þennan fisk sem snakk, eintóman eða með smjöri.. Ég var löngu hætt að vera internetpirruð og harðfiskur í kóskossósu með hrísgrjónum er ljómandi gott.

Fyrsti dagurinn á Gabriellas centre.

10.3.2015
Þá var það fyrsti dagurinn í sjálfboðastarfinu. Strætóferðin úteftir er alveg kapítuli útaf fyrir sig. Nánari útlistingar seinna.
Ég ætla að byrja á því að segja aðeins frá Gabriellas rehabilitation centre, stofnuninni sem ég er sjálfboðaliði hjá svo fólk skilji betur komandi blogg. Þetta er endurhæfingarstöð fyrir börn með þroskafrávik/hegðunarvandamál. Börn sem þurfa líkamlega endurhæfingu eru yfirleitt beint á aðra endurhæfingarstöð í nágrenninu. Mikill meirihluti barnanna hafa einhverfu en það eru líka börn með alls konar s.s. downs-heilkenni og ADHD.
Flest börnin koma í endurhæfingu í 1-3 mánuði. Eftir að mat og viðtöl hafa verið framkvæmd er unnið í atriðum sem þarf að æfa s.s. félagsleg samskipti, sjálfstraust, námslegir þættir, eigin umsjá(klæða siga, matast ofl) og áhugamál/leikur. Fræðsla til foreldra er mikilvægur þáttur. Núna í þessari viku er t.d. therapy week en þá er foreldrum boðið að taka þátt í starfinu, sjá hvernig er unnið með börnunum og þeim ráðlagt hvernig þau geti haldið starfseminni áfram heima fyrir. Fyrir áhugasama bendi ég á heimasíðuna:
Þegar ég mætti í morgun tók Flora á móti mér sem er iðjuþjálfi og ég fylgdi henni fyrst um sinn. Hún byrjaði á að kynna mig fyrir fullt af börnum og láta mig fá fullt af skýrslum um þau. Fyrst fórum við í skynörvun með einu barni, þá voru teyjur með næsta barni og svo áhorfsmat með því þriðja. Allt fyrir hádegi. Ég sagði henni að ég væri orðin alveg rugluð á þessu öllu saman svo hún sagði mér bara að taka því rólega fyrstu dagana og fylgjast með starfseminni. Seinni partinn fékk ég bara að vera “fluga á vegg” þó ég hafi alls ekki verið það því börnin spáðu mikið í mér og spekúleruðu. Það var samt alveg nóg svona fyrsta daginn.
Í centerinu eru tvær hollenskar stelpur-dásemdarpíur í leikskólakennara-verknámi. Mikið var það nú gott og þær vildu glaðar leyfa mér að hanga utaní þeim allan daginn. Þær eru búnar að vera þar í mánuð og eiga fjóra eftir. Það var gott. Ég fór í bekk þar sem börn voru að læra stærðfræði, annan þar sem þau voru að læra litina, bursta-tennurnar kennslu, dans-session og leiktíma. Þegar ég kom heim fór ég bara strax inní herbergi því ég gat ekki meiri félagsleg samskipti í bili. Langaði líka að eiga minningar frá þessum fyrsta degi og skrifaði því þetta blogg sem mætir á veraldarvefinn þegar ég hef fengið nettengingu.

Fyrstu dagarnir.

Skrifað 9.3.2015
Það þymir eiginlega hálf yfir mig að skrifa blogg um síðustu daga. Það er svo ótrúlega margt sem ég hef að segja frá mínum fyrstu 2 1/2 degi í Tansaníu. Þetta blogg er semsagt skrifað á mánudagskvöldi, 9.3.2015 en mætir á veraldarvefinn þegar ég fæ mitt eigið internet.
Fyrst og fremst langar mig að segja að mér líst mjög vel á mig hér. Ég bý hjá fjölskyldu sem er með meirapróf í yndælisheitum og fjölskyldulífið hér er afslappað og vinalegt. Í dag fór ég í kynningarheimsókn í Gabriellas centre, þar sém ég kem til með að vera sjálfboðaliði á og ég er ofsalega spennt fyrir að hefja vinnuna mína þar á morgun. Seinni partinn í dag fór ég svo í sjálfboðaliðahitting og hitti nokkra sem eru í sama bæ og ég. Flott fólk.
Það er bara svo endalaust mikið af allskonar nýju og spennandi hérna. Í gær fór ég í gönguferð um göturnar í kringum húsið mitt og ég labbaði svo hægt að gamlar konur í síðpilsi og slitnum sandölum með 10 bananaknippi í bala á höfðinu tóku langt frammúr mér. Ég ráfaði bara um og þurfti að skoða allt og spekúlera í öllu. Þannig hef ég verið síðustu tvo daga. Moshi, þar sem ég bý er meira bær heldur en borg og þau svæði sem ég hef kannað eru dreifbýl. Í gönguferðinni minni voru öll hús með matjurtargarð og hænsnabúr fyrir utan hjá sér. Það var einhver úti við við öll húsin, annað hvort að bjástra við eitthvað eða bara úti að spjalla. Og allir sögðu: jambó (halló). Mjög vinalegt. Vinalegir og yndælir. Það er tvímælalaust mín fyrstu kynni af Tansaníubúum. Svo er heilmikið margt sem ég þarf að segja frá í smáskömmtum á næstunni: Fjölskyldan mín, Endurhæfingarstofnunin, Maturinn, Strætóferðir, Bæjarferðir. Allskonar, bíðið spennt ;)

Berlin-Frankfurt-Eþíópía-Tansanía

7.3.2015
Síðasti heili dagurinn í Berlín var enn einn ljúflingsdagurinn. Við dunduðum okkur heima frameftir og borðuðum morgunmat. Fórum á checkpoint Charlie (múrahliðið) en það var svo mikil rigning að við fórum bara á kaffihúsið fyrir utan og skoðuðum minna af minnisvarðanum. Þar spjölluðum við svo mikið að þegar við litum á klukkuna sáum við að leiðin lá í næstu kaffidrykkju. Var boðið í heldur betur notalegt kaffiboð til Valla og Álfheiðar með alls kyns kræsingum og skemmtilegu spjalli. Þá var stefnan tekinn í næsta mat, asískan smáréttastað sem við vorum búnar að ákveða að fara á og var rosalega góður. Og þar var spjallað meira. Svo fór ég heim á skype. Semsagt. minn síðasti möguleiki á að tala íslensku var nýttur til hins ýtrasta.
Dagurinn runninn upp, farardagur. Kristín var kvödd með rembingskossi og við tóku þrjú flug: 1 klst til Frankfurt, 7 klst næturflug til Eþíópíu og 2klst til Tansaníu. Allt gekk eins og í sögu. Ég fékk fiðrildi í magann þegar ég gekk inn í vél Ethiopian airlines í Frankfurt, flugfreyjur í þjóðbúningum og risastór flugvél, með sætaröð í miðjunni.
Þegar ég lenti í Tansaníu þurfti ég í alvöru að klípa mig til að vita að þetta væri í alvöru að gerast. Vegabréfsáritunin, sem ég var búin að mikla svo fyrir mér gekk eins og í sögu, ég var sótt á flugvöllinn og bara allt gekk upp. Svo var allt spennandi. Gróðurinn, fólkið, klæðnaðurinn, lyktin, hljóðin.
Nú sit ég heima hjá mama Rósu, sem ég kem til með að búa hjá og tveimur börnum hennar sem eru um tvítugt. Hér er rafmagn og rennandi vatn og bara nokkuð nútímalegt að mörgu leiti.
Þennan fyrsta dag svíf ég bara á bleiku skýi. Þó það verði pott þétt ekki þannig allan tímann þá vona ég bara að það haldi sig hér sem lengst :)

Stasiland


Stasisafnið var á efst á lista yfir staði sem mig langaði að skoða í Berlín. Eftir að hafa verið nýbúin að lesa bók með frásögnum stasimanna um lífið á tímum múrs og persónunjósna var ég harðákveðin í að þetta væri staður sem þyrfti að skoða. Kristín var ekki alveg á því að fara á annað safn, svona sérstaklega af því að ég byrjaði að ræða þetta mál þegar við vorum enn eiginlega andlausar eftir gyðingasafnið. Hún systir mín var þó sannur gestgjafi og við af stað á næsta safn. Ég lofaði öllu fögru og áður en við komum á safnið stoppuðum við í bakaríi til að kaupa okkur kaffi og helst allt sem okkur langaði í þar annað, svona til að halda litlunni góðri um stundarsakir á safninu. Og árangurinn lét ekki standa á sér. Við tókum safnið með trukki, lásum nánast áhvert einasta skilti, spáðum og spekúleruðum. Þremur tímum síðar var það ég sem þurfti að draga Kristínu út af safninu, komin með alveg nóg í bili. Tvímælalaust staður sem ég mæli með að fara á í Berlín.
Klósettferðin. Ég þurfti á klósettið á Stasisafninu. Kvennaklósettið var upptekið svo ég skellti mér á fatlaðra klósettið og Kristín beið fyrir utan. Þegar ég kom inná klósettið fékk ég hins vegar alveg hugljómun. Þetta var flottasta klósettaðgengi fyrir fatlaða sem ég hef séð. Eins og gefur að skilja tók ég mér góðan tíma þarna inni, þurfti m.a. að virða fyrir mér gólfplássið til að athafna sig á með tilliti til hjólastólanotkunar og prufa alla fítusana sem voru í boði, (s.s. framlenging á sturt-takkanum, bakstuðning á salerni og hallastillingu á snyrtispegli). Einnig tók ég myndavélina mína uppúr töskunni og myndaði salernið í hólf og gólf. Þegar ég kom loksins út fékk ég vandræðalegt augnarráð frá Kristínu, hún vildi drífa sig fram. Starfskona á safninu hafði séð mig fara inná klósettið og líkaði ekki að þetta klósett væri notað af þeim sem ekki þurfti sérstaklega á því að halda. Hún hafði víst hellt sig yfir Kristínu og staðið fyrir utan hurðina með hendur á mjöðmum að bíða eftir mér eiginlega alla klósettferðina. Ég var hins vegar svo lengi þarna inni að hún gafst upp á biðinni rétt áður en ég kom út og strunsaði aftur í miðasöluna. Þegar ég kom út sagði Kristín að ef ég hefði litið við hafi beðið mín dráps-augnarráð úr miðasölunni. Ég tók hins vegar ekkert eftir því, allt of einbeitt við að segja Kristínu frá klósettinu.
Þá var dagurinn ekki nema hálfnaður. Við fórum heim og fengum Valla og Álfheiði, vini Kristínar í heimsókn sem var afskaplega notalegt. Um kvöldið var okkur boðið í mat til Klöru, vinkonu Kristínar úr skólanum. Þar var þónokkur hópur vina og kunningja kominn saman og það var ljómandi gaman. Kvöldið var þó ungt enn og við systur yfirgáfum samkvæmið og fórum á pöbbarölt ásamt nokkrum vel völdum BerlínarÍslendingum. Vel heppnaður dagur í Berlín númer fjögur.

Ljúfur dagur í Berlín númer þrjú.

Ljúfur dagur í Berlín númer þrjú hófst að sjálfsögðu með því að sofa út og svoað borða morgunmat með öllu fíneríinu sem við keyptum í búðinni daginn áður. Við vorum með ýmsar hugmyndir um hvað skildi gera um daginn. Gyðingasafn, Tyrkjamarkaður og Ikea voru okkur efst í huga.
Þegar við komum út ákváðum við þó að labba einn hring í hverfinu í von um að við finndum nytjamarkað sem við höfðum heyrt af. Viti menn , nytjamarkaðurinn fannst og þar var m.a. nákvæmlega eins IKEA fataslá og við ætluðum okkur að kaupa seinna um daginn og ýmsar aðrar hillur sem voru eins og sniðnar inn í íbúðina.
Eftir húsgagnainnkaupin lá leið okkar á Gyðingasafnið. Þar var risastórt og mjög áhugavert. Einhvers staðar lásum við að það tæki klukkutíma að labba í gegnum safnið en það var ekki alveg þannig. Þegar við höfðum labbað um og skoðað í dágóðan tíma og einbeitingin var farin að fjara út urðum við ákaflega kaffiþyrstar, sérstaklega þar sem  við sáum að það vari kaffitería um miðbik safnsins. Við hröðuðum okkur áfram, komnar með kaffihúsakaffisbragðið alveg á tungubroddinn. Eftir mikla ranghala fundum við staðinn. Kaffisjálfsali útí horni og fjórir kollar. Vonbrigði. Við keyptum okkur nú samt kaffi þarna en nei. Kaffiduftið hafði eitthvað ruglast í rýminu því út kom heitt súkkulaði. Þá hættum við bara að vonbrigðunum, tilltum okkur á hænuprikin og drukkum heita súkkulaðið sposkar á svip
Næst fórum við á Tyrkjamarkað ssem er í hverfinu sem Kristín bjó í . Þar keyptum við alls konar fínerís mat sem við vildum með heim. Í lestinni á leiðinni heim voru öll sætin upptekin svo við Kristín stóðum. Þar stóð líka einn maður, samt alveg hinu megin á stand-svæðinu. Í fyrtsu beyjunni sem lestin tók, sem var alls ekki harkaleg, kastaðist maðurinn þvert yfir lestargólfið og beint á mig. Hann meiddi sig sem betur fer ekki en við systur vildum meina að þessi örugglega sextugi þýski róni hafi fallið fyrir mér ;)
Þegar heim var komið réðumst við ólmar í allan fína og spennandi tyrkjamatinn og röðuðum svo dóti í nýju húsgögnin sem við keyptum svo herbergið hennar er nú orðið mun búsældarlegra.

Súkkulaði og túristaleiðangur

3.3.2015
Degi eitt í Berlín er lokið. Markmiði eitt um að sofa út var fyllilega náð fyllilega.
Eftir letilegan morgunn lá leið okkar í könnunarleiðangur um hverfið. Kristín flutti í nýja íbúð daginn áður en ég kom hingað og við vildum finna búð í nágrenninu. Kvöldið áður höfðum við líka komist að því, okkur til nokkurra vonbrigðaað ekkert súkkuleði væri á heimilinu og vildum ólmar bæta úr því hallæri. Matvörubúðin fannst fljótt, og súkkulaðið líka en fyrsta ákskorun ferðarinnar var klárlega hvað ætti að velja í girnilegu konfekthafi. Það hafðist. Næst þurfti að velja ost og skinku til að eig með morgunmatnum og ekki var það auðveldara, grilljón nýjar tegundir.
Seinna um daginn fórum við í leiðangur um miðbæinn. Kristín sýndi mér skólann sinn og aðra staði í Berlín s.s., Brandenburgarhliðið; minnisvarða um látna gyðinga og aðaltorgið í Berlín, Alexanderplatz. Við enduðum svo á -aðeins of góðum- Kóreskum hamborgarastað og vorum svo dasaðar eftir matinn að við ákváðum að fara heim undir sæng, horfa á bíómynd og borða súkkulaðið langþráða. Sem við og gerðum.
Bless í bili

Berlín

1.3.2015
Ég er komin til Berlínar. Lífið er aðeins of ljúft hérna fyrsta kvöldið, með stútfullan maga af Kebab og nóg af sögum frá Kristínu að segja og heyra.
Ég er mjög feigin að vera lögð af stað. Og mjög gott að taka ferðina jöfnum, öruggum skrefum uppávið. Þar sem ég hef lítið sofið og lítið gert annað en að muna eftir mis-mikilvægum hlutum til að redda fyrir ferðina síðustu daga er gott ð því sé nú öllu lokið.
Nú taka við fjórir dagar í Berlín og númer eitt á lista er að sofa út á hverjum degi, númer tvö eru veitingastaðirnir12 sem okkur langar á þessa daga, númer þrjú erum túristastaðirnir grilljón sem við vorum búnar að detta til hugar að kanna. Þetta verður aldeilis ljúft!
Au wieder Zehen

Fyrsta bloggið

22.2.15
Fyrsta blogg AfríkuArndísar er að renna upp. Nú er vika í að ég yfirgefi Frónið fagra og fína. Ég var búin að lofa sjálfri mér, áramótaheitinu mínu, vinum og ættingjum að vera dugleg að láta vita af mér í ævintýraferðinni minni og mér fannst einfaldasta leiðin vera að útbúa bloggsíðu. Ég hef ætlað mér í sjálfboðastarf til Afríku í mörg ár og ég hef heldur betur notið góðs af því að lesa bloggsíður ókunnugs fólks sem hefur farið í svipaðar ferðir. Þær bloggsíður hafa drifið í mig kjarkinn að fara af stað og einnig hjálpað mér að ákveða hvernig ég vil haga minni ferð. Ég verð að viðurkenna að ég stíg þónokkur skref út fyrir þægindahringinn að hafa síðuna svona opna fyrir allt og öllum en einu sinni er allt fyrst og sjáum bara hvað setur.
-Fyrir þá sem ekki vita-  Þá er  ég á leið til Tansaníu í sjálfboðastarf á endurhæfingarstöð fyrir einhverf börn. Stefnan er tekin á að vera þar í eitt ár. Fyrst verður þó 5 daga stopp hjá Kristínu í Berlín.
Vika til stefnu og ég er enn tiltörulega heil á geði. Ég er reyndar farin að finna fyrir því að ég gleymi og tíni dótinu mínu útum allt. Sem ég eri venjulega en extra mikið þegar ég er stressuð. Ég er líka búin að panta mömmu næsta laugardag því ég get aldrei pakkað ofaní töskur fyrir ferðalög án sáluhjálpar. Annars er bara allt að smella held ég. Ég er nýbúin að fá tölvupóst frá fólkinu sem ætlar að sækja mig á flugvöllinn í Tansaníu og Kristín sendir mér daglega hugmyndir af nýjum og spennandi aktivitetum í Berlín. Mikill spenningur í gangi :)Bloggi eitt lokið.