Thursday, July 23, 2015

Hafmeyjudressið

Ég er að fara í send off partý á laugardaginn. Send off partý er boð sam haldið er til að senda brúðina til eiginmannsins. Brúðkaupið verður svo í ágúst. Miðað við lýsingar þá er þetta heljarinnar partý. Mama Rose hefur verið í undirbúningsnefnd. Síðustu vikur eru alltaf einhverjar konur í heimsókn á fundum til að gera og græja hitt og þetta. Mér skilst á þeim að þessi veisla sé ekki síður mikilvæg en brúðkaupið sjálft, í þessari veislu er meira af ættingjum brúðurinnar en í brúðkaupinu sjálfu verður meira af ættingjum brúðgumans. 

Ef þið leitið í fyrri bloggum, þá er ég nú þegar búin að taka þátt í pre engagement partýi og engagement partýi. Mér hefur þótt þessar veislur áhugaverðar og íburðamiklar en ekki sérstaklega skemmtilegar því jaaa… það tala allir bara swahili með smá kurteisistali við mig inná milli. Í seinna boðinu tók ég mig tak og dró eina frænkuna útá gólf að dansa við eitt eða tvö lög. Enn í dag þegar ég hitti ættingja er með heilsað sem hinn dansandi mzungu(hvíta stelpa). Hresst lið.

Þegar ég kom heim ígærkvöldi voru þrjár konur í heimsókn. Ég þekkti andlit tveggja, annars vegar hin tilvonandi brúður og hins vegar frænka í skipulagsnefndinni. Ég heilsaði gestunum og settist hjá þeim. Ég var ekki búin að sitja lengi þegar brúðurinn rétti mér kjól og sagði: Ég er búin að kaupa kjól handa þér fyrir send off partýið. Ég vil að þú verðir my maid. ??? Ha, hvað er það, ha ég í þennan kjól ??? 
Svo útskýrðu þær fyrir mér að ég verði ein af átta stelpum sem verða í eins kjólum og fylgja brúðurinni.
Ég tók kjólinn úr pokanum og virti hann fyrir mér. Hann er himinnblár með glimeri. Með hlýri öðru meginn. Skósíður. Þröngur niður að hnjám en þá verður hann víður með pífum og íburðamikill með klauf. Glæsilegur en minnti mig helst á hafmeyjubúning. Svo var mér tilkynnt um skipulag næstu daga: Í dag fer ég með mömmu Rósu að kaupa rauða háhæla, hlýralausan brjóstahaldara og svo til saumakonu að láta þrengja kjólinn minn svo hann verða alveg örugglega nógu þröngur. Á morgun verður dansæfing. Á laugardaginn verður dagskrá allan daginn: neglur, hárgreiðsla og örugglega make up líka. Eftir þónokkrar umræður um hvort ég þyrfti hárlengingu var ákveðið að það þyrfti ekki. 

Í gærkvöldi, þegar skipulagsnefndin var farin, brosti Mama Rose sínu breiðasta og sagðist vera búin að vita þetta alveg heil,heillengi, hún vildi bara ekki segja mér þetta fyrr því hún vildi að þetta yrði surprise. Mitt helsta hlutverk í boðinu verður því, að mér skilst, að dansa á eftir brúðinni þegar hún kemur inn í salinn, sitja við háborð í borðhaldinu og svo lofaði ég að brosa breitt og vera hress og skemmtileg allt kvöldið. Þetta verður eitthvað… ég er satt að segja mjög spennt en hef ekki hugmynd um hvað ég hef komið sjálfri mér útí…

                 
                                         Ég googlaði "send off Tanzania" og fékk þetta út...





Monday, July 20, 2015

Verslunarferð með eiginmanninum

Síðasta þriðjudag fór ég á Masaai markað. Hann Laisha, masaaiinn sem fór með okkur í þorpið sitt fór með okkur á markaðinn. 
Laura vinkona mín er mikil áhugamanneskja um markaði og útvegði okkur guide, hann Laisha til að koma með okkur á markaðinn.

Massai markaður er semsagt markaður þar sem aðallega fólk af masaai þjóðflokknum fer á, með alls konar varning sem hentar lífstíl þeirra.
Það var pínu flókið að komast þangað, alls tæplega þriggja tíma ferðalag í rútu og strætó. En við komumst þetta allt saman á endanum. Síðasta strætóferðin var frekar áhugaverð, því nær sem við komum markaðnum sáum við fólk vera að fara á eða af markaðnum. Allir fótgangand, með kýr í eftirdragi.

Á markaðnum fékkst ýmis masaaiavarningur:

Matur eins og hrísgrjón og grænmeti. Einnig fékkst kúafita í boxum. Ég var nú næstum búin að kaupa svoleiðis því mér finnst stundum vanta tólgarbragð í kleinurnar mínar… 

Shuka, sem er klæðnaðurinn sem masaaiar nota, köflótt efni í rauð- eða bláköflóttu sem  masaaiar binda utanum sig. Ég keypti mér svoleiðis til að taka með í teboð og lautarferðir heima, ætla m.a. að taka það með í pikknikk á lestarteinana á morgun :)

Perluskartgripir, sem masaaiar nota og ýmis konar matur líka. Masaaiunum fannst heilmikið til þess koma að hitta hvíta túrista (með veski) og hengdu á okkur alls kyns armbönd og ökklabönd til að selja okkur. Pínu yfirþyrmandi en ekta markaðsstemmning líka.

Masaaiasandalar. Masaaiar nota alveg fyndinn skóbúnað. Sandala búna til úr gömlum bíldekkjum. Ef þig vantaði sandala, þá stígur þú á dekkið og skósmiðurinn skar dekkið í mátulega stærð eftir fætinum. Síðan voru skornar gúmmíræmur úr dekjunum og festar á sólann til að búa til sandala. Orðið á götuni er á þá leið að engir skór endast eins vel og gúmmískórnir hjá masaaium.

Te. Masaaiar eru alltaf að borða einhver náttúrulyf. Hér í miðbænum í Moshi er fullt af masaaium með standa með alls konar heilsudufti frá hinum ýmsu jurtum. Á markaðnum var þónokkuð af slíkum duftsölum. Laisha ákvað að kaupa sér "te". Á tebásnum sem hann fór á voru fullir plastpokar af alls konar dufti, svona 50 plastpokar (innkaupapokar). Það sem tesalinn gerði þegar Laisha bað um te var að sækja sér enn einn innkaupapokann og setja eina lúku af hverri tegund ofaní. Eða baa einhvern slatta af alls konar jukki. Mjög ógirnilegt.

Kýr. Þegar við nálguðumst markaðinn í strætónum sáum við alltaf fleiri og fleiri massaia á leið á markaðinn með kýr í eftirdragi. Það ver til kaupa og sölu. Á markaðnum var risastórt svæði þar sem fólk var með kýrnar sínar til sölu. Við gengum um svæðið og ég þóttist ætla að versla mér kú. Flykktust að mér og buðu mér alls konar verð. Þegar mér fór að finnast það heldur fyndið fór ég að spyrja þá hvort ég gæti tekið þá með í strætó heim eða í flugvél. Hann hélt það sko aldeilis. Ekki málið. Við skemmtum okkur nú heilmikið við þessar ráðagerðir og reyndum líka að selja eina vinkonu okkar í hjónaband fyrir kýrnar.  Það fyndna var að masaaiarnir tóku svo alvarlega og voru alls ekkert á því að viði værum að grínast.


Ákaflega áhugaverð ferð og skemmtiegur dagur. Ýmislegt verslað. Jeremías hvernig ég á að koma því heim…. 

Sunday, July 12, 2015

Heimsóknarferð á spítalann og í háskólann.

Síðasta föstudag fóru ég, Laura og Emily (hinir sjálfboðaliðarnir á Gabriellas) í heimsóknarferð í KCMC. KCMC er aðal spítalinn hér í Moshi og í norður Tansaníu (sjá fyrra blogg). Við hliðina á honum er háskólinn í Moshi, sem einnig heitir KCMC. Antony, maður Brendu(yfirmanns Gabriellas) er kennari í skólanum og hann fór með okkur í skoðunarferð.

Við byrjuðum á að fara á spítalann, svo í háskólann. Við vorum kynntar fyrir fjöldanum öllum af fólki, iðjuþjálfurm og starfsfólki í endurhæfingunni á spítalanum, ýmsum kennurum, nemendum og yfirmönnum í háskólanum. Áhugaverður dagur. Mjög áhugaverður dagur. Ég mun stikla á stóru hér.

Við hittum alls konar mikilvægt fólk. Yfirmann iðjuþjálfadeildar háskólans, yfirmann tansaníska iðjuþjálfafélagsins og ýmsa fræga. Allir vildu gefa okkur netföng og símanúmar ef við hefðum einhverjar spurningar eftir heimsóknina. Annars. alls kyns áhugavert.

Eitt af þeim verkefnum sem eru öðruvísi á KCMC og heima er hvernig reynt að útvega fólki hjólastóla. Þegar það er gert er reynt að sérsmíða þá með innlendri framleiðslu, með eitt hjól framaná og tvö aftaná því hér eru malarvegir um allt og þröskuldar sem fólk þarf að komast yfir. Einnig þarf að finna styrktaraðila til að kaupa hjólastólinn (yfirleitt er leitað tiil kirkjunnar sem viðkomandi sækir eða neighbourhood-ið).

Á spítalanum var aðallega unnið með börn með CP og fullorðna með taugaskemmdir, ss. eftir heilaáfall eða slys. Mikilvægur hluti af endurhæfingunni er að kenna fjölskyldunni um fötlunina sem ættinginn er með og fara í heimsókn á heimilið hjá viðkomandi til að æfa hjólastólanotkun þar og ýmislegt fleira.

Eins og ég hef sagt áður eru fordómar fyrir einstaklingum með fötlun miklir hér. Þegar farið er í heimilisathuganir á Gabriella centre er mikilvægur hluti af heimsókninni að skoða hver viðhorf til fatlaða einstaklingsins er innan fjölskyldunnar og einnig innan samfélagsins. Ég spurði frekar útí þetta, þ.e. hvort fordómar væru gegn einstaklingum með fötlun og ef svo, hvernig væri unnið í þeim. Svarið fannst mér áhugavert og tvímælalaust það sem mér er efst í minni eftir daginn. En svarið var já, það eru fordómar gegn fötluðu fólki eru miklir og oft er þrautinni þyngra að finna uppá ættingjum eftir að það kemst í ljós að einstaklingurinn verður líklegast fatlaður ævilangt. Ef ættingjarnir finnast eru þeir líklegast ekki samvinnuþýðir.
Starfsfólkið á spítalanum var með ráð við því. Það sem þau gera er að hringja í kirkjuna sem viðkomandi sækir og biðja þau um að tala við fjölskylduna. Miðað við það sem iðjuþjálfinn sem kynnti okkur spítalann sagði okkur, þá verður fjölskyldan yfirleitt ljúf eins og lamb og afar samstarfsþýð eftir að kirkjan hefur talað við þau. Ég veit ekki hvort þau hringi í moskur líka en stundum hringja þau þó í bæjarstjórnina í þorpinu þeirra og biðja þau um að tala við fjölskyldu fatlaða einstaklingsins.
Í þessum heimilisathugunum er reynt að fá fulltrúa frá kirkjunni í nágrenninu eða bæjarstjórninni til að vera viðstödd. Það er gert til þess að auka samfélagsvitund á fötluninni, til að fá þorpið " í lið með sér". Það er einnig gert til að efla samfélagið (sveitarfélagið eða kirkjuna) til að safna pening fyrir hjólastól, hjólastólarömpum eða öðru sem gæti þurft.

Í háskólanum spjölluðum við við ýmislegt frægt fólk. Nemendur, kennara, deildarforseta, félagsformenn og bara nefndu það…
 Nemendurinir í iðjuþjálfuninni eru alls 19 og þeir voru að hafa áhyggjur af því að námið stæði ekki undir sér. Flestir nemendur eru á skólastyrk frá einkaspítölum og fara því að vinna á einkareknum spítölum að námi loknu. Í náminu er sérstaklega mikil áhersla lögð á börn. Ástæðan fyrir því er að það eru engan veginn nógu margar endurhæfingarstofnanir til að vinna með öllu því fólki sem þarf á að halda. Í langflestum tilfellum er forgangsraðað á þann hátt að börn gangi fyrir því þeirra er framtíðin. Mun minni áhersla er lögð á fullorðna. Þessu komst ég að þegar ég var hálf vonlaus í vinnunni eftir nokkrar vikur, fannst allir vita svo mikið um börn og barnaþroska en ég ekki neitt. 
Í heimsókninni hitti ég þó mann sem er að vinna að nýju verkefni. Að vinna með fólki með heilabilun. Mér skildist helst á honum að lítil sem engin þekking eða þjónusta á þessum málaflokki væri á svæðinu. Ég uppveðraðist öll og sagði þeim að þarna væri ég á heimavelli og ef það væri eitthvað sem ég gæti ráðlagt með, endilega hafa samband. Hann var líka spenntur og vildi endilega fá netfangið mitt :)

Mjög áhugaverður dagur og enn og aftur er ég endalaust þakklát fyrir tansaníska gestrisni sem ég fékk að upplifa í heimsókninni.

                                                              Háskólabyggingin í Moshi

Thursday, July 9, 2015

Jarðarför

Móðurbróðir mömmu Rósu, John Kisana var jarðaður í dag. Mama spurði mig í vikunni hvort ég hefði áhuga á að koma með í jarðarförina. Ég var tvístígandi, var ekki viss hvort mér þætti viðeigandi að koma með í jarðarför hjá manneskju sem ég þekkti ekki, bara til að sjá hvernig það er gert í Tansaníu. Fjölskyldan hvatti mig hins vegar til að oma með og þegar ég ræddi þetta í vinnunni vildu þau endilega gefa mér frí, fannst alveg frábært að ég ætlaði mér að verða alvöru Tansaníubúi og koma með í jarðarför. Það var líka tilfellið, jarðarförin var afar fjölmenn.  Allt nágrennið mætti og með mömmu Rósu komu tveir bílar af fólki (baba George, ég, mágkona mama Rose í hina áttina ofl). til að veita mama Rose styrk og samúð í jarðarförinni.

Jarðarförin var á heimili Johns sem var í um 40 mín keyrslu í burtu. Þar var búið að koma fyrir stólum og tjöldum í garðinum. Margir voru mættir og flestir voru klæddir kanga (afrískum efnissvuntum). Það fyrsta sem við gerðum var að fara inn í húsið. Þar var kistan og hún var opin. Það var gangvegur í kringum kistuna en svo var hringur af konum, öðru megin voru konurnar klæddar eins fjólubláum kjólum en hinu megin klæddar hvítum kjólum með fjólubláu skrauti. Þetta voru nánustu ættingjar (börn o.fl.).
        Þegar ég kom útúr húsinu fundum við okkur sæti. Þar sá ég að margar konur voru í sérstökum kjólum sem ég hafði ekki séð áður. Mér var sagt að nánir ættingjar klæddust þessum klæðum (t.d. systkinabörn o.fl.). Einnig voru margir klæddir bolum með mynd af hinum látna. Bolir sem voru útbúnir sérstaklega fyrir jarðarförina.
       Þegar athöfnin sjálf hófst var byrjað á því að loka kistunni og fara með hana útí garð þar sem athöfnin fór fram. Þá var jarðarförin, sem ég held að hafi verið nokkuð lík okkar. Ég skildi reyndar ekki hvað fór fram, eitthvað af athöfninni fór fram á Swahili en mest fór fram á Chagga tungumáli. Stundum sagði konan sem sat við hliðina á mér hvað var verið að tala um og mér skildist það vera í grófum dráttum sambland af minnigarorðum um hinn látna, guðs orði og tónlist. Reyndar enginn söngur. Athöfnin var löng, rúmir 3 tímar en mér var svo sagt að þetta hafi verið löng athöfn og fólk hafi kvartað undan því hvað presturinn hafi verið langorður.
       Í miðri athöfninni var kistan grafin. Hún var grafin fyrir framan heimilið, við hliðina á annarri gröf sem var þar fyrir. Þar var bæði farið með guðs orð og spiluð tónlist. Það sem vakti þó athygli mína var að það var gengið alveg frá gröfinni. Ættingjar fylltu gröfina, krossinn var tilbúinn og meira að segja var smíðaður rammi og þar var tilbúin steypa til að steypa fyrir ofan gröfina. Tónlist spiluð á meðan, um klukkutíma verk. Að því loknu gengu allir að leiðinu og lögðu á það rósir og fóru svo aftur í upphaflegu sætin sín því athöfnin hélt áfram.
       Að athöfninni lokinni var matur fyrir alla. Síðan var ferðinni heitið heim. 
       Athöfnin var öll tekin upp á myndband. Mér var sagt að það væri alltaf gert. Hér eru öll brúðkaup tekin upp og horft á þau aftur og aftur. Ég velti fyrir mér hvort það sé gert við jarðarfarir líka. Ég fann mig þó ekki í að taka myndir í athöfninni.

Það er margt sem ég velti fyrir mér eftir jarðarförina. Nánustu ættingjarnir, konurnar í hvítu og fjólubláu kjólunum grétu hástöfum á vissum tímapunktum í athöfninni. Aðallega þegar kistunni var lokað og hún borin út í garð fyrir athöfnina en einnig þegar kistan var borin til grafar. Mér fannst svo skrýtið að heyra einhvern gráta svona hátt. Ég held ég hafi aldrei heyrt neinn gráta svona hátt, bara séð það í sjónvarpinu. Mér fannst líka svo skrýtið hvað mér fannst einhvern veginn bara kveikt á on/off takka þegar kistunni var lyft upp og þær fóru að gráta. Ég fór líka að pæla- er grátur menningartengdur? Ég held að ég myndi aldrei þora að gráta svona hástöfum. Það eru allavega ekki mín náttúrulegu viðbrögð.
       Annað sem ég velti fyrir mér var klæðnaðurinn. Nánustu ættingjarnir voru allir í eins fötum og nánu ættingjarnir í eins fötum. Þessi klæði voru að mé skildist, sérstaklega keypt fyrir jarðarförina. Af hverju að forgangsraða peningunum sínum í sérstök klæði fyrir þessa einu athöfn þegar fólk virkilega hugsar tvisvar um hverja krónu sem það eyðir. 


Athöfnin var falleg og af þessari reynslu að dæma finnst mér tansaníubúar kveðja á virðulegan hátt.

Sunday, July 5, 2015

Ramadan

Eftir smá skriftapásu er ég "back on track" Held að andinn sé að koma yfir mig aftur. Mun halda áfram að segja sögur af lífinu mínu hérna. Mér finnst internetið heima hjá mér verða verra og verra, er eiginlega búin að gefast upp á að nota það og finnst miklu leiðinlegra að skrifa blogg sem ég get ekki sett beint inn. En jæja, ég reyni áfram.
Nú er ég farin að taka eftir því að ég er orðin ónæmari fyrir mörgu hérna, eða farið að finnast ótrúlegustu hlutir venjulegir. Fyrst núna, eftir fjóra mánuði. En það er alls konar nýtt ennþá samt. Pott þétt nóg af alls konar til að blogga um.

Nú er Ramadan í gangi. Mér finnst ég hafa heyrt einhvers staðar að hér í Moshi væru trúarhlutföllin tæplega 60% kristnir og 40% múslimar, svo einhver fleiri trúarbrögð. Það er eitthvað af veitingastöðum lokaðir núna og einhverjir götusalar eru með lokað líka. Á sumum svæðum í Tansaníu hef ég heyrt að það sé varla hægt að fá mat frá sólarupprás til sólarlags þennan mánuð en þannig er það sem betur fer ekki hér.

Eitt sjálfboðahúsið er niðri í bæ, mitt á milli tveggja moska. Eftir lýsingum krakkanna sem búa þar heyrist söngur og trúarköll næstum allan daginn úr báðum moskunum. Þau byrjuðu að telja niður til loka Ramadan strax fyrsta daginn.


Það skemmtilega við Ramadhan er hins vegar það að þá er matarmarkaður á hverju kvöldi. Um hálftíma fyrir myrkur fyllist aðal matarmarkaður bæarinns (þar sem aðallega fæst mais, grænmeti, ávextir og baunir) af fólki með alls konar góðgæti eins og brauð, grillað kjöt, ávaxtadjús, mandazi og sambusa (tansanískar útgáfur af kleinum og vorrúllum), kleinuhringjum og bara alls konar. Eftir að fólk klárar sólsetursbænir fer það út á markaðinn og oftar en ekki borðar það saman þar. Ég er búin að fara einu sinni á markaðinn og keypti mér alls konar fínerí. Hrísgrjónabrauð, steiktar kartöflur, sætabrauð. Ljómandi gott alveg. Það var samt næstum allt á markaðnum djúpsteikt svo ég veit ekki hvort ég gæti borðað þetta á hverju kvöldi í heilan mánuð eins og Tansaníubúi. En ef ég væri ekki búin að borða í rúma tólf tíma þá kannski myndi það virka.