Thursday, June 18, 2015

17. júní

Nýji uppáhalds staðurinn minn í Moshi eru lestarteinarnir. Það er lestarstöð og lestarteinar í gegnum bæinn en hér ganga þó engar lestar. Lestarteinarnir eru einfaldlega autt svæði í miðjum bænum. Það er nú allt orðið grasi gróið og engan veginn fært fyrir lestar að komast yfir teinana lengur. Við gömlu lestarteinana er bar. Nýjasta nýtt hjá okkur er nú að setjast í grasið með varning af barnum. Við fáum alltaf einhvern félagsskap af fólki sem labbar framhjá auk þess sem tveir flækingshundar mæta alltaf í samkvæmið. Oftar en ekki rekur einhver geitahjörðina sína framhjá og toppurinn yfir i-ið eru svo heiðskýrir dagar, því þá blasir mount Kilimanjaro beint við.


Um daginn var ákveðið að gera enn meira úr járnbrautarhittingnum. Ákveðið var að halda pikknikk. Við mættum með kanga-rnar okkar (afrísku efnis-svunturnar okkar, nauðsyn hvers afríkubúa) breiddum úr þeim, settumst í hring og gæddum okkur á alls kyns fíneríi. Sumir höfðu eldað, aðrir bakað og enn aðrir fjárfest í kökum eða ávöxtum. Kili var ekki í spariskapi þann daginn en það skipti minnstu í svona góðra vina hópi. Að sjálfsögðu fengum við auka félagsskap hundanna tveggja, geitahjarðar og nokkurra barna úr nágrenninu. Ótrúlega notalegur eftirmiðdagur.

Í gær, 17. júní ákvað ég að halda uppá daginn á þessum nýja uppáhalds stað. Ég bjó til kleinur og dró fram harðfiskinn sem mér var sendur um daginn. Tanja og Max komu svo með mér niður að lestarteinum þar sem við nutum eftirmiðdagssólarinnar, ég reyndi að rifja upp það sem ég mundi um sjálfstæði íslendinga og söng þjóðsönginn fyrir þau. Ég dásamaði landið mitt hægri vinstri og þau eru meira að segja orðin funheit fyrir að koma í heimsókn. Jebbs, það má á 17. júní vera ekta Íslendingur með föðurlandsdásemdir á háu stigi.  Til hamingju með gærdaginn.

Zanzibar 3

Við hittum ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki í ferðinni. Fyrst og fremst var hún Anna bara besti hugsanlegi ferðafélaginn. 

Annan daginn okkar fórum við í kryddferðina. Í ferðinni hittum við Júlíu, þýska stelpu sem var ein á ferðalagi. Hún var með svipuð ferðaplön og við svo hún slóst í hópinn og við gistum á sama hosteli og ferðuðumst saman næstu daga.

Við fórum í kvöldsiglingu og hittum japana sem hafði búið í Tansaníu í tvö ár. Við töluðum meiri swahili við hann en ensku. Það voru skemmtilegar kringumstæður, að tala swahili við japana. Í siglingunni var líka enskur strákur, einn á ferð, sem var hress og skemmtilegur. 

Við hittum fullt af beach boys á ströndinni og þar sem við vorum að ferðast á low season voru fáir túristar og þeir reyndu alveg hægri vinstri að selja okkur ferðir og skartgripi, já eða bara höfðu gaman af að spjalla við okkur. Oft fannst mér þetta reyndar pirrandi því mig langaði að lesa bókina mína eða dorma í sólinni og hlusta á sjávarniðinn. Hins vegar æfðist ég heilmikið í swahili á þessum samræðum. 

Við hittum bandarískan strák. Hann sat einn að drekka bjór á borðinu við hliðina á okkur eitt kvöldið og þegar hann heyrði samræðurnar okkar kom hann yfir, kynnti sig, sagðist vera að ferðast einn og hafa fundist samræðurnar okkar áhugaverðar. Seinna um kvöldið sagði hann okkur að hann ætti afmæli, splæsti á línuna og sagðist hafi langað að gera eitthvað skemmtilegt á afmælisdaginn sinn. Þetta var líka hress og skemmtilegur strákur og váts hvað mér fannst hann mikill töffari að þora þessu.

Ég hitti hana Grétu, vinkonu Lillýar og fimm aðra Íslendinga. Það var mjög gaman að geta talað íslensku eitt kvöld.

Á hostelinu okkar snæddum við morgunverð með ísraelskri stelpu sem bjó í Suður Afríku og búin að ferðast um alla álfuna. Við sama málsverð ræddum við við palestínska stelpu sem vann á vegum alþjóða rauða krossins í Jemen. Þær höfðu heldur betur frá mörgu að segja.


Svo var eyjan svo lítil að við hittum sama fólkið aftur og aftur og aftur. Fólkið úr flugvélinni, fólkið úr snorklferðinni eða bara hvað það var sem við gerðum. Það var voða gaman.

Zanzibar 2

Zanzibar er eyja rétt fyrir utan Tansaníu, tekur 1-2 tíma í ferju frá næstu höfn en við flugum. Anna, vinkona mín var búin að ákveða að fara þangað og ég ákvað að skella mér með. Þetta er einn aðal ferðamannastaðurinn hér. 
Zanzibar er afar áhugaverð eyja. Hún var hluti af Oman fyrir einhverjum öldum síðan sem varð til þess að enn í dag er arabískt yfirbragð yfir öllu. Íbúarnir þar eru múslímar og miðbærinn í borginni á eyjunni eru steinhús og þröngar görtur þar á milli. Konur ganga um með blæju eða búrku, meira að segja pínulitlar stelpur og margir karlar voru með arabahatta. Þar fer aldeilis ekki á milli mála hvenær kallað er til mosku og fólk streymir að. Eyjan var líka mikilvæg miðstöð verslunar með krydd og þræla um langt skeið. 

Í ferðinni gerðum við alls konar skemmtilegt. Ekki nóg með að eyjan hafi spennandi mannlíf, þá eru líka fallegar sandstrendur allan hringinn. Við gerðum alls konar skemmtilegt í ferðinni:

  • Við fórum í kryddferð. Þá fórum við í kryddskóg og okkur sýnd kaniltré, túrmerikplanta, vanilluplanta, múskat og bara alls konar. Mjög áhugavert að kynnast því að krydd sé meira en duft í stauk.
  • Við fórum að snorkla. Það kom hellidemba á leiðinni, ferðin varð tveimur tímum lengri því það var svo vont í sjóinn og við vorum lengur á leiðinni að kóralrifinu. Snorklið var flott. Það urðu samt meira og minna allir sjóveikir og ég varð fegnust þegar ég kom í land.
  • Við syntum með höfrungum.  Við ferðuðumst um á mótorbát, útbúin böðkum og snorklgleruagum, ferðuðumst um á mótorbát og þegar við vorum nálægt höfrungunum var kallað jump,jump! Við stukkum ofaní og  syntum um með þeim, fórum svo aftur upp í bátinn og eltum þá uppi.Stundum leið mér eins og þeir væru komnir svo nálægt að mér fannst það hálf óþægilegt. Svakalegt.
  • Við leigðum okkur hjól. Vörðum heilum degi í hjólaferð milli mangó- og bananatrjáa, skoðuðum risastóran helli og gamlar rústir.
  • Við fórum útí eyju með risastórum skjaldbökum Skjaldbökurnar vöppuðu um allt og voru meira en til í að hitta okkur. Við fengum að klappa þeim, klóra þeim á hnakkanum og þeim fannst það ekkert leiðinlegt.
  • Við borðuðum endalaust mikið af góðum sjávarréttum. Omminomminomm! Humar, alls konar fiskur og fínerí. Nokkra daga hlé frá maísgraut og baunasósu var orðið kærkomið.



Svo, Zanzibar er algjörlega málið, Ofboðslega margt skemmtilegt í boði.

Morgnarnir byrjuðu á morgunverð á ströndinni...

Sunday, June 14, 2015

Zanzibar

Af mér er allt gott að frétta. Það er bara góðs viti að ég hafi ekki bloggað leeengi lengi. Ég fór nefnilega í ferðalag til Zanzibar. Zanzibar er eyja sem hluti af Tansaníu. Það þyrmir pínu yfir mig við tilhugsunina um að blogga. Ég hef frá allt of mörgu að segja. Ég fór með Önnu, bandarískri vinkonu minni og ferðin var hreint og beint yndisleg. Við vorum þar í 10 daga og ég kom heim síðasta sunnudag. 
Síðan þá hefur margt verið í gangi. Farangurinn minn var gjörsamlega allur í sandi svo ég hef tekið vikuna í að þvo dótið mitt og fötin. Ég er búin að vera nógu lengi í afríku núna til að vera búin að læra að taka mér góðan tíma í alla hluti svo ég hef látið eitt verkefnið taka við af öðru í rólegheitum þessa vikuna. 

En ég er semsagt enn hér, heil á húfi og brosandi ánægð. Ég hef ekki þurft að vera einmana því ég hef haft "félagsskap" hringorms sem situr sem fastast á rassinum á mér en hann á nú samt að fara á nokkrum vikum ef ég er dugleg að bera krem á hann.


Ég var ekki alveg á því að nenna aftur í hversdagslífið þegar ég kom aftur en þegar ég mætti á svæðið var það svo yndislegt. Fjölskyldan mín tók á móti mér faðmandi og brosandi. Það var líka svogaman að koma aftur í vinnuna því það var búið að halda svo vel áfram með verkefnin sem ég er hluti af að ég trúði varla mínum eigin augum hvað hlutirnir virkuðu vel. Ég er búin að vera alveg full af eldmóði þessa vikuna og oft vera fram eftir að vinna að hinu og þessu. Ég mun svo bæta við ferðabloggum á næstunni, markmiðið um 10 blogg á mánuði skal standa. Þau gætu komið mörg í einum rykk því netið er bara ekki að gera sig hérna… EN ég hef enn 17 daga…
Hér erum við vinkonurnar í kryddferð, nánari útlistingar í næsta bloggi