Saturday, September 5, 2015

River rafting á Níl

Síðustu dögum höfum við varið á hosteli í bænum Jinja. Þessi bær er við Viktoríuvatn og upptök árinnar Níl. Við erum á backpacker hosteli með útsýni yfir ána og þessi staður er einfaldlega undurfagur.

Þegar við googluðum "visit uganda" kom river rafting á Níl upp á öllum listum. Við fórum í gær og mikið er ég ánægð með að Guðbjörg hafi drifið okkur af stað. Við lögðum af stað snemma í morgun. Hittum hópinn okkar sem samanstóð af mér og Guðbjörgu, banarískum systrum á sextugsaldri, indverskum strák og öðrum breskum á okkar aldri. Hresst lið. Með okkur var svo eldklár og endalaus fyndinn guide.

Við byrjuðum á að keyra neðar í Níl. Þar klæddumst við björgunarvestum og hjálmum og fórum útí ána. Til að byrja með gerðum við nokkrar æfingar í að detta, halda í bátinn, róa o.fl. Þaðan hófust siglingarnar sjálfar. Á litla gúmmíbátnum okkar óðum við af stað í alls kyns strauma og flúðir. Við héldum dauðahaldi í bátinn og ég var óskaplega þakklát fyrir björgunarvestið mitt og hjálminn. Adrenalínið stökk um frá toppi til táar og váts hvað þetta var gaman. Víkingagenin héldu okkur í öldunum og við náðum að halda bátnum uppi í gegnum öll herlegheitin. Við bættum þó stundum í og stukkum útí og leyfðum björgunarvestunum að vinna vinnuna sína og fljóta með okkur í gegnum strauminn. 

Á milli straumanna leit Níl út eins og stöðuvatn þar sem við róuðum niður ána í rólegheitum. Þá nutum við veðurblíðu og útsýnis, það var sól og fallegt veður. Áin var volg og notaleg að stökkva útí. Við horfðum á græna árbakkana og fallegan gróður beggja vegna árinnar, fylgdumst með öðrum raftbátum, kayökum og einstaka fiskibátum. Við sáum erni njóta lífsins á lítilli eyju í miðri ánni og ýmsa aðra fallega og furðulega fugla synda í ánni og fljúga um. Á seinni parti bátsferðarinnar fór þó að draga ský fyrir sólu og á lokaspretti siglingarinnar kom þessi úrhellisdemba. Ekta afrískt skýfall þar sem droparnir voru svo stórir og öflugir að það var sárt að fá þá framan í sig. Þá settum við hnakkann fyrir okkur og rérum eins og við áttum lífið að leysa að bakkanum. Og komumst þangað heil á húfi.


Ég er líka enn á lífi. Mamma og pabbi fengu ekki að vita af þessari för fyrr en núna. Guidinum fannst gaman að segja okkur ógnvænlegar krókódílasögur úr Níl á leiðinni og til að vera alveg safe ætlum við að taka ormalyf. Við drukkum ábyggilega einhverja lítra af Níl í dag, því það eru víst alls kyns fínerís snýkjudýr í ánni. Það fara samt tugir af fólki í riverrafting og á kayak í ánni á hverjum degi svo þetta getur ekki verið svo alvarlegt.Þetta var magnaður dagur. Mér finnst ekki skrýtið að þetta hafi verið á öllum topplistum og mun ekki gleyma honum.





Thursday, September 3, 2015

Púslkeppnin

Nú fyrir um 3 vikum síðan fékk ég sendingu frá Íslandi. Sendingin var frá Unni og Lillý og innihélt allskyns varning, meðal annars 24 stykkja púsluspil með hundamyndum. Við Guðbjörg undirbjuggum farangur okka vel fyrir ferðina með alls kyns dægrastyttingu með ýmsum hætti og meðal annars þessum spilastokk.

Frá Mwanza tókum við bát til Bukoba, sem er bær alveg við Úgönsku landamærin. Þetta var 12 tíma ferð frá 6 að kvöldi til 6 að morgni. Við höfðum hálfan bekk á móti hvor annarri og yndæla Úganska fjölskyldu með okkur á okkar bekkjum og næsta. Fjölskyldan samanstóð af foreldrum, 3 strákum um 6- 12 áraVið byrjuðum að spjalla og komumst að því að strákarnir litlu töluðu líka ensku, reiprennandi og stanslaust :P Eftir að haa spjallað dágóða stund og fylgst með lífinu við strendur Viktoríuvatn tók Guðbjörg upp púsluspilið fór að púsla með yngsta stráknum. Það gekk heldur hægt til að byrja með en hann var þó fljótur að læra. Hann virtist ekki hafa gert þetta áður. 
Púsluspilið vakti hins vegar athygli. Frændinn, sem var líklegast um þrítugt horfði á púslið girnaraugum og vildi prufa næst. Þegar maður á næsta borði sá að frændinn, sem var fullorðinn, fékk að prufa vildi hann líka vera með. Og þeir byrjuðu. Tveir saman með 24ra stykkja púsl og vissu ekkert hvað þeir voru að gera. Prufuðu ótrúlegustu púslur saman, áttuðu sig ekkert á að það væri munur á hornpúslum, hliðarpúslum og miðjupúslum og voru svo klunnalegir í öllum fínhreyfingum að það var alveg fyndið. Við sáum að þetta gekk ekki neitt og ákváðum því að leiðbeina þeim aðeins. Við reyndum að segja þeim best væri að byrja með því að flokka púslin og gera rammann en þeir heyrðu ekkert í okkur því þeir voru gjörsamleg niðursokknir í leikinn. Við áttum fullt í fangi með að halda andliti og nutum þessarar sjónar. Maður um þrítugt í hvítri skyrtu og arabi um fertugt í arabakjól og með hatt sem hvorki heyrðu né sáu það sem var í kringum þá því þeir voru svo niðursokknir í eitt pínulítið hundapúsl.

Eftir dágóða stund en harlalítinn árangur náðu þeir betra sambandi við umheiminn og fóru nú að hlusta á hvernig best væri að haga leiknum. Þeir voru dálítið lengi að ná þessu en það kom þó. Og með nokkurri hjálp (litlu strákarnir voru að fylgjast með og náðu þessu miklu fyrr) þá kláraðist púslið! Þeir vildu prufa aftur og svo aftur og svo var komið kapp í þá og þeir vildu taka tímann. Fjórða tilraun tók rúmar 12 mínútur. Þá sögðu þeir okkur Guðbjörgu að prufa hvað við værum lengi. Hvorug okkar hafði púslað púslið o við fengum alveg frammistöðukvíðafiðrildi í magann áður en við byrjuðum efir að hafa hlegið svona að þeim púsla. En árangurinn lét ekki á sér standa. Við vorum rúma mínútu að klára púslið og skipverjar okkar horfðu á okkur eins og við værum að framkvæma töfrabrögð. 


Unnur og Lillý, þið hittuð í mark þarna ;) Skemmtilegur leikur sem heldur betur stytti okkur stundir í bátnum og vöktu upp margar spurningar og undrun.

Saturday, August 29, 2015

Mwanza

Vinsamlegast skoðið póstana tvo hér á undan fyrst...

Nú er ferðalagið hafið! Við erum komnar á fyrsta stopp, borgina Mwanza við Viktoríuvatn. Fyrsti dagurinn var rútuferð, 14 tímar. Áhugaverð rútuferð. Þetta voru 14 tímar og mér var ekkert farið að leiðast þegar við komum á leiðarenda. Það er svo mikill þeytingur búinn að vera á okkur síðustu daga að ég naut þess að vera kominn með bakpokann í skottið, to-do listann í ruslið og sitja svo ein með sjálfri mér, láta hugann reyka um allt og ekki neitt og þurfa ekki að gera neitt. Síminn minn var meira að segja batteryslaus svo þetta ver 100% afslöppun. Svo 14 tímar í gær þar sem ég dormaði í hitamollu og horfði út um gluggann. Hluta leiðarinnar hafði ég keyrt áður en þá á regntímabilinu. Nú er hins vegar farið að vora og gróðurinn farinn að þorna. Landslagið var allt öðruvísi og önnur upplifun að keyra um svæðið.
Ég fæ ekki nóg af því að horfa út um gluggann á bílferðum hér. Mismunandi húsgerðir eftir landssvæðum, mismunandi klæðnaður og alltaf svo áhugavert að hugsa til lífshátta fólks sem búa í litlum kofum lengst úti á landi með búhjarðirnar sínar. Ekkert gróðrland nema tré á stangli, ekkert rafmagn, ekkert símasamband. Það kom mér á óvart hversu strjábílt var á leiðinni og bæjirnir sem við stoppuðum í, sem eru merktir nokkuð skilmerkilega á landakort voru í raun litlir. Vegurinn, á milli tveggja af stærstu borga Tansaníu var ein akrein í hvora átt og ekki nema einstaka bíll á ferð. Nú áttaði ég mig einnig á hvað mama Rose átti við þegar hún sagði að héruðin Kilimanjaro og Arusha, sem ég bý á og næsta við, eru hvað þróuðustu svæði Tansaníu. 
 
Við pöntuðum okkur eitthvað hótel á netinu áður en við fórum til að vera með öruggan næturstað. Við fengum leigubílstjóra til að keyra okkur á hótelið, sem er lengst útí ég veit ekki hvar. Ferðalagið var ævintýralegt og oft týnst á leiðinni og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna þegar við vorum búnar að keyra í korter á holóttum vegum og greinilega komin þónokkuð útúr aðal borginni. En leigubílstórinn var traustur maður og varkár bílstjóri, svo þetta reddaðist allt. Við erum einu gestirnir, enda að okkur sýnist, bara rétt verið að klára að byggja hótelið. Hér er stjanað við okkur eins og prinsessur. Við fengum internetraoderinn bara með okkur inn í herbergi og í morgun var búið að búa til alveg svakalegan morgunverð, bara fyrir okkur 2 sem við fengum inní herbergi. Þjónustustúlkan er líka algjört krútt. Líklega svona tvítug. Ábyggilega nýbyrjuð að vinna hérna og vill gera sitt allra besta.. Hún hneigir sig í hvert sinn sem hún hittir okkur eða kemur með eitthvað til okkar og stekkur af stað ef við pöntum eitthvað eða ef hún man eftir einhverju sem okkur gæti hugsanlega vantað.


Nú sit ég hér afvelta eftir morgunmatinn og nýt rólega prinsessulífsins. Plan dagsins er að finna og panta ferju til Úganda, skoða Mwanza, "the rock city" og vonandi gæða sér á fiski úr Viktoríuvatni. Þangað til næst…

Ferðalagið góða

Skrifað 26.8. Bara lengi á leiðinni hér inná...

Þetta blessaða ferðalag hefur heldur betur verið lengi í fæðingu. Okkur fannst eiginlega bara allt spennandi og vissum ekkert hvert við vildum fara. Eftir miklar spekúlasjónir ákváðum við að fara til Eþíópíu. Eftir að hafa gúgglað Eþíópíu í drasl og orðnar hryllilega spenntar fyrir ferðinni komumst við að því að væri heljarinnar mál að fá vegabréfsáritun þangað og við værum orðnar og seinar miðað við að við ætluðum að  fara þangað nú í lok ágúst. Ísland alveg sér á báti með þetta vesen, minnir að öll norðurlöndin og bara öll lönd í Evrópu gætu fengið visa on arrival á flugvellinum. En ekki Íslendingar. Sem betur fer vorum við ekki búnar að bóka flug. Áttuðum okkur á þessu rétt áður en við pöntuðum. 

Við héldum áfram að spá og spekúlera. Fengum mjög misvísandi upplýsingar um hvort væri hægt að fá visa on arrival í Úganda eða ekki. Að lokum sendum við tölvupóst á sendiráðið og var sagt að við gætum fengið visa on arrival. Eins gott að það standi! En ég veit ekki, í versta falli þurfum við að snúa við og finna okkur eitthvað að skoða í Tansaníu. Við ætlum svo að enda ferðina hér í Moshi, þar sem við ætlum að ganga uppá Kilimanjaro. Ég er alveg stressaðri en allt fyrir þeirri ferð. Flestir fá háfjallaveiki á leiðinni upp en svo er misjafnt hversu slæm hún er, hvort fólk nái upp á topp eða ekki. Ég hef líka ekki hreyft mig neitt síðasta árið, fæ harðsperrunr við að ganga upp stigann heima hjá mér. Þetta verður eitthvað.


Ég stoppa svo þrjá daga í Svíþjóð á leiðinni heim þar sem uppáhalds Stokkhólamrbúarnir mínir verða heimsóttir. Hlakka líka mikið til þess.

Moshi dögum fækkar

Skrifað 25.8. Gleymdi að setja það inn….

Hún Guðbjörg Lára, vinkona mín er að koma á eftir. Við ætlum í ferðalag saman í rumar 3 vikur. Síðan held ég heim en hún ætlar að fara á Gabriella centre og gerast sjálfboðaliði þar. 
Síðustu  daga hef ég verið í því að panta ferðir fyrir okkur, panta flug heim og skipuleggja hvenær ég get sagt bless við alla. 

Ég hef líka verið að reyna að klára verkefnin sem ég tók að mér í Gabriella centre, eða að minssta kosti verið að reyna að skila þeim þannig af mér að hægt sé að halda verkefnunum áfram eða taka upp þráðinn að nýju þegar tækifæri gefst. 


Ég er eiginlega búin að vera hálf lítil í mér í mér, búin að skypa mömmu í tíma og ótíma, verið með hnút í maganum og það þarf ekkert til að ég stressist uppúr öllu veldi. En það er bara part of programmet. Það væri ekkert fútt í þessu ef það væri ekki smá áskorun ot tilfinningadrama. Er líka óskaplega spennt fyrir komandi dögum! Svooo ef ég kemst í að skrifa næstu daga, þá verða það verðablogg :)

Tuesday, August 18, 2015

Samfélagsfræðsla

Nú er miðannafrí í skólanum. Krakkarnir eru í fríi og við höfum því meira verið í því að skipuleggja ýmislegt og líka farið í heimilisathuganir og sinnt ýmsum verkefnum

Í dag fór ég ásamt Mde, iðjuþjálfanum á Gabriella cenntre, í skóla um 40 mínútna keyrslu frá bænum mínum. Þetta er verkefni sem er kallað outreach og gengur útá að veita fræðslu og aðstoð í samfélaginu um fatlanir og námsörðugleika.
Í þeim skóla voru um 270 nemendur. Í skólanum var einnig deild fyrir börn með special needs. Það var hús með tveimur skólastofum, 18 nemendum og einum kennara.  Hún Doris. sérkennarinn tók á móti okkur. Um 15 börn voru mætt í skólann í dag og foreldrar flestra þeirra líka. Það sem við gerðum var að meta börnin, þau unnu ýmis verkefni og við fylgdumst með hvernig þeim gekk að fara eftir fyrirmælum, einbeita sér, leysa verkefnin ofl. ofl. Mde tóok einnig viðtöl við foreldra.
Í lok heimsóknarinnar var svo talað um áframhaldandi samstarf og hvað matstækin okkar leiddu í ljós. Við vildum fá tvö börn á námskeið hjá okkur og einnig vildum við skoða möguleikann á að byrja verkefni í skólanum þar sem börn læra garðyrkju. Þetta voru allavega hugmyndir frá okkur.

Það var áhugavert að koma í venjulegan skóla í einn dag. Þó ég sé búin að vera hér í næstum hálft ár eru enn hlutir sem mér finnst skrýtnir og koma mér á óvart.
Einn kennari með átján börn með sérþarfir. Og enginn annar að starfa við það sama í sveitinni svo hún þarf bara að treysta á sjálfa sig. Ég dáist að þrautsegjunni í henni.
Á leiðinni áttaði Mde sig á því að hún hafði gleymt tómum blöðum til að láta börnin skrifa á. Ég sagði: Þau hljóta að eiga blöð í skólanum. En hún sagði: Nei, öruglega ekki. Við redduðum okkur því við vorum með of mörg matsblöð og gátum því látið börnin skrifa aftan á þau. Annars sá ég einn bunka af svona 10 stílabókum í sérdeildinni, engin tóm blöð.
Á leiðinni sagði Mde mér líka að hún myndi kynna okkur sem nema. Það væri til að komast hjá því að starfsfólk skólans ætlaðist til þess að við, eða sérstaklega ég sem hvít manneskja, væri komin til að gefa skólanum gjafir eða styrkja þau.
Þegar Tansaníubúar vilja vera gestrisnir bjóða þeir uppá gos. Sérkennarinn var búinn að fara í verslunarferð og kaupa gos handa okkur. Líka skólastjórinn. Ég tók út gosskammtinn minn fyrir næstu daga í dag.
Tansaníubúar eru gestrisnir og hlýir. Það er bara þannig.
Í heimsóknum vill fólk yfirleitt alltaf taka af þér töskuna og halda á henni fyrir þig. Taka hana um leið og þau heilsa þér og þegar sest er niður leggja þau hana á öruggan stað. Þegar þú ferð halda þau á henni þar til leiðir skiljast. Nú vorum við tvær í dag, Ég og Mde. Doris tók töskuna mína og kallaði svo á eitt barnið til að halda á töskunni hennar Mde. Við fengum því fylgd tveggja alla leið á rútustöðina.


Áhugaverður og skemmtilegur dagur.

Sunday, August 16, 2015

Húsverkin mín í Afríku


Ég er flutt. Flutti í sjálfboðahús fyrir þremur vikum. Lífið á nýja staðnum er afar ljúft. Ég bý með einni stelpu í íbúð og á hæðinni fyrir neðan okkur er hús með tveimur stelpum í.  Svolítið eins og að vera bara hálfan daginn í Afríku og hinn helminginn lifandi venjulegu stúdentalífi. Ég er með internet í íbúðinni og ji hvað það er ávanabindandi. En gaman líka. Er að gúggla hvert sé gaman að ferðast í Afríku… úff… það er of margt spennandi. Mamma Rósa og fjölskylda eru enn á sama stað og ég heimsæki þau öðru hvoru. Þau eru svo yndisleg en sjálfboðahúsalífið er doltið meira stuð.

Annars hef ég líka verið að prufa mig áfram í uppskriftum og eldamennsku. Það var alveg ástæða fyrir því að ég ferðaðist Íslandið okkar á enda fyrir nokkrum árum til að læra að elda og þrífa. Ég elska að fá að gera það sjálf. Fannst alveg vera tekið fram yfir hendurnar á mér að fá ekki að gera það hjá Mömmu Rósu. Nú er ég í miklum baunasósuæfingum. Æfingarnar ganga ljómandi vel, en ég er of kryddforvitin fyrir hina hefðbundnu tansanísku matargerð. Ég þurfti að prufa karrýbaunir og alls konar. Það var samt mjög gott. Svo skemmir ekki fyrir að hún Kaija, stelpan sem ég bý með og er algjör draumur finnst allt gott sem ég elda.
Næsta mál á dagskrá er maíssúpa með baunum og að sjálfsögðu hinn eini sanni Ugali! (Maísgrauturinn sem er borðaður í öll mál hérna). Tansaníubúar alveg missa andlitið þegar ég segi þeim að ég hafi eldað þetta sjálf. Að ég, hvít stelpa, kunni að elda og ég kunni meira að segja að sjóða hrísgrjón án þess að nota rice cooker. Tansaníubúar halda því fram að í Evrópu og Ameríku sjóði allir hrísgrjón í rice cooker og eigi einfaldlega sér vélar til að elda allt saman.

Ég fæ líka að þrífa. Á laugardögum kemur maður til að þrífa hjá okkur. (Hér er nauðsynlegt að ráða einhvern til að þrífa fyrir sig ef þú hefur efni á því, annars telur fólk þig stuðla að atvinnuleysi). Hann vinur minn kemur á laugardags "morgnum". Hann mætir með fötu af vatni og eina tusku. Og svo byrjar hann. Þrífur þá vaska sem honum dettur til hugar þann daginn og þvær gluggakistur eða borðbekki sem er drasl á. Svona af því að þá getur hann skammast yfir því að þar sé drasl sem við þurfum að fjarlægja áður en hann getur þrifið. Í gærmorgunn var kústurinn okkar inni á baðherbergi og við fengum aldeilis að heyra það að við ættum að biðja leigusalann okkar um að lána okkur moppu ef við vildum þrífa baðherbergisgólfið. Ekki kústinn. Það besta var þó  að sjá hann þrífa klósettið, sem ég fylgdis laumulega með einn laugardaginn. Þá tók hann dolluna undan klósettburstanum, fyllti hana af vatni, og skvetti svo yfir klósettið. Að því loknu tók hann tuskuna góðu, sem hann var búinn að skúra gólfið í hálfri íbúðinni með, og strauk yfir klósettið. Eftir þetta tók hann tuskuna og skúraði restina af íbúðinni.

Þegar hann er farinn á laugardögum förum við til stelpnanna á neðri hæðinni og biðjum um að fá lánað hreinsispreyið þeirra til að fara yfir klósettið aftur. 


Sumt fólk er bara skrautlegra en annað og hann gerir það svo sannarlega að verkum að helgin mín byrjar á smá hlátri og brosi útí annað. Og ég fæ þá líka ástæðu til að þrífa pínu sjálf.