Sunday, August 16, 2015

Húsverkin mín í Afríku


Ég er flutt. Flutti í sjálfboðahús fyrir þremur vikum. Lífið á nýja staðnum er afar ljúft. Ég bý með einni stelpu í íbúð og á hæðinni fyrir neðan okkur er hús með tveimur stelpum í.  Svolítið eins og að vera bara hálfan daginn í Afríku og hinn helminginn lifandi venjulegu stúdentalífi. Ég er með internet í íbúðinni og ji hvað það er ávanabindandi. En gaman líka. Er að gúggla hvert sé gaman að ferðast í Afríku… úff… það er of margt spennandi. Mamma Rósa og fjölskylda eru enn á sama stað og ég heimsæki þau öðru hvoru. Þau eru svo yndisleg en sjálfboðahúsalífið er doltið meira stuð.

Annars hef ég líka verið að prufa mig áfram í uppskriftum og eldamennsku. Það var alveg ástæða fyrir því að ég ferðaðist Íslandið okkar á enda fyrir nokkrum árum til að læra að elda og þrífa. Ég elska að fá að gera það sjálf. Fannst alveg vera tekið fram yfir hendurnar á mér að fá ekki að gera það hjá Mömmu Rósu. Nú er ég í miklum baunasósuæfingum. Æfingarnar ganga ljómandi vel, en ég er of kryddforvitin fyrir hina hefðbundnu tansanísku matargerð. Ég þurfti að prufa karrýbaunir og alls konar. Það var samt mjög gott. Svo skemmir ekki fyrir að hún Kaija, stelpan sem ég bý með og er algjör draumur finnst allt gott sem ég elda.
Næsta mál á dagskrá er maíssúpa með baunum og að sjálfsögðu hinn eini sanni Ugali! (Maísgrauturinn sem er borðaður í öll mál hérna). Tansaníubúar alveg missa andlitið þegar ég segi þeim að ég hafi eldað þetta sjálf. Að ég, hvít stelpa, kunni að elda og ég kunni meira að segja að sjóða hrísgrjón án þess að nota rice cooker. Tansaníubúar halda því fram að í Evrópu og Ameríku sjóði allir hrísgrjón í rice cooker og eigi einfaldlega sér vélar til að elda allt saman.

Ég fæ líka að þrífa. Á laugardögum kemur maður til að þrífa hjá okkur. (Hér er nauðsynlegt að ráða einhvern til að þrífa fyrir sig ef þú hefur efni á því, annars telur fólk þig stuðla að atvinnuleysi). Hann vinur minn kemur á laugardags "morgnum". Hann mætir með fötu af vatni og eina tusku. Og svo byrjar hann. Þrífur þá vaska sem honum dettur til hugar þann daginn og þvær gluggakistur eða borðbekki sem er drasl á. Svona af því að þá getur hann skammast yfir því að þar sé drasl sem við þurfum að fjarlægja áður en hann getur þrifið. Í gærmorgunn var kústurinn okkar inni á baðherbergi og við fengum aldeilis að heyra það að við ættum að biðja leigusalann okkar um að lána okkur moppu ef við vildum þrífa baðherbergisgólfið. Ekki kústinn. Það besta var þó  að sjá hann þrífa klósettið, sem ég fylgdis laumulega með einn laugardaginn. Þá tók hann dolluna undan klósettburstanum, fyllti hana af vatni, og skvetti svo yfir klósettið. Að því loknu tók hann tuskuna góðu, sem hann var búinn að skúra gólfið í hálfri íbúðinni með, og strauk yfir klósettið. Eftir þetta tók hann tuskuna og skúraði restina af íbúðinni.

Þegar hann er farinn á laugardögum förum við til stelpnanna á neðri hæðinni og biðjum um að fá lánað hreinsispreyið þeirra til að fara yfir klósettið aftur. 


Sumt fólk er bara skrautlegra en annað og hann gerir það svo sannarlega að verkum að helgin mín byrjar á smá hlátri og brosi útí annað. Og ég fæ þá líka ástæðu til að þrífa pínu sjálf.

5 comments:

  1. Hahahahahah ég dó úr hlátri! ! Þyrfti að panta þennann í þrifin

    ReplyDelete
  2. Hahahahahah ég dó úr hlátri! ! Þyrfti að panta þennann í þrifin

    ReplyDelete
  3. Fyndið að fólk haldi að það noti allir rice cooker í Evrópu (:

    ReplyDelete
    Replies
    1. Það er rosa áhugavert hvað fólk verður sjúklega hissa þegar ég segi því að ég kunni að elda...

      Delete