Nú er miðannafrí í skólanum. Krakkarnir eru í fríi og við höfum því meira verið í því að skipuleggja ýmislegt og líka farið í heimilisathuganir og sinnt ýmsum verkefnum
Í dag fór ég ásamt Mde, iðjuþjálfanum á Gabriella cenntre, í skóla um 40 mínútna keyrslu frá bænum mínum. Þetta er verkefni sem er kallað outreach og gengur útá að veita fræðslu og aðstoð í samfélaginu um fatlanir og námsörðugleika.
Í þeim skóla voru um 270 nemendur. Í skólanum var einnig deild fyrir börn með special needs. Það var hús með tveimur skólastofum, 18 nemendum og einum kennara. Hún Doris. sérkennarinn tók á móti okkur. Um 15 börn voru mætt í skólann í dag og foreldrar flestra þeirra líka. Það sem við gerðum var að meta börnin, þau unnu ýmis verkefni og við fylgdumst með hvernig þeim gekk að fara eftir fyrirmælum, einbeita sér, leysa verkefnin ofl. ofl. Mde tóok einnig viðtöl við foreldra.
Í lok heimsóknarinnar var svo talað um áframhaldandi samstarf og hvað matstækin okkar leiddu í ljós. Við vildum fá tvö börn á námskeið hjá okkur og einnig vildum við skoða möguleikann á að byrja verkefni í skólanum þar sem börn læra garðyrkju. Þetta voru allavega hugmyndir frá okkur.
Það var áhugavert að koma í venjulegan skóla í einn dag. Þó ég sé búin að vera hér í næstum hálft ár eru enn hlutir sem mér finnst skrýtnir og koma mér á óvart.
Einn kennari með átján börn með sérþarfir. Og enginn annar að starfa við það sama í sveitinni svo hún þarf bara að treysta á sjálfa sig. Ég dáist að þrautsegjunni í henni.
Á leiðinni áttaði Mde sig á því að hún hafði gleymt tómum blöðum til að láta börnin skrifa á. Ég sagði: Þau hljóta að eiga blöð í skólanum. En hún sagði: Nei, öruglega ekki. Við redduðum okkur því við vorum með of mörg matsblöð og gátum því látið börnin skrifa aftan á þau. Annars sá ég einn bunka af svona 10 stílabókum í sérdeildinni, engin tóm blöð.
Á leiðinni sagði Mde mér líka að hún myndi kynna okkur sem nema. Það væri til að komast hjá því að starfsfólk skólans ætlaðist til þess að við, eða sérstaklega ég sem hvít manneskja, væri komin til að gefa skólanum gjafir eða styrkja þau.
Þegar Tansaníubúar vilja vera gestrisnir bjóða þeir uppá gos. Sérkennarinn var búinn að fara í verslunarferð og kaupa gos handa okkur. Líka skólastjórinn. Ég tók út gosskammtinn minn fyrir næstu daga í dag.
Tansaníubúar eru gestrisnir og hlýir. Það er bara þannig.
Í heimsóknum vill fólk yfirleitt alltaf taka af þér töskuna og halda á henni fyrir þig. Taka hana um leið og þau heilsa þér og þegar sest er niður leggja þau hana á öruggan stað. Þegar þú ferð halda þau á henni þar til leiðir skiljast. Nú vorum við tvær í dag, Ég og Mde. Doris tók töskuna mína og kallaði svo á eitt barnið til að halda á töskunni hennar Mde. Við fengum því fylgd tveggja alla leið á rútustöðina.
Áhugaverður og skemmtilegur dagur.
No comments:
Post a Comment