Thursday, June 18, 2015

Zanzibar 3

Við hittum ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki í ferðinni. Fyrst og fremst var hún Anna bara besti hugsanlegi ferðafélaginn. 

Annan daginn okkar fórum við í kryddferðina. Í ferðinni hittum við Júlíu, þýska stelpu sem var ein á ferðalagi. Hún var með svipuð ferðaplön og við svo hún slóst í hópinn og við gistum á sama hosteli og ferðuðumst saman næstu daga.

Við fórum í kvöldsiglingu og hittum japana sem hafði búið í Tansaníu í tvö ár. Við töluðum meiri swahili við hann en ensku. Það voru skemmtilegar kringumstæður, að tala swahili við japana. Í siglingunni var líka enskur strákur, einn á ferð, sem var hress og skemmtilegur. 

Við hittum fullt af beach boys á ströndinni og þar sem við vorum að ferðast á low season voru fáir túristar og þeir reyndu alveg hægri vinstri að selja okkur ferðir og skartgripi, já eða bara höfðu gaman af að spjalla við okkur. Oft fannst mér þetta reyndar pirrandi því mig langaði að lesa bókina mína eða dorma í sólinni og hlusta á sjávarniðinn. Hins vegar æfðist ég heilmikið í swahili á þessum samræðum. 

Við hittum bandarískan strák. Hann sat einn að drekka bjór á borðinu við hliðina á okkur eitt kvöldið og þegar hann heyrði samræðurnar okkar kom hann yfir, kynnti sig, sagðist vera að ferðast einn og hafa fundist samræðurnar okkar áhugaverðar. Seinna um kvöldið sagði hann okkur að hann ætti afmæli, splæsti á línuna og sagðist hafi langað að gera eitthvað skemmtilegt á afmælisdaginn sinn. Þetta var líka hress og skemmtilegur strákur og váts hvað mér fannst hann mikill töffari að þora þessu.

Ég hitti hana Grétu, vinkonu Lillýar og fimm aðra Íslendinga. Það var mjög gaman að geta talað íslensku eitt kvöld.

Á hostelinu okkar snæddum við morgunverð með ísraelskri stelpu sem bjó í Suður Afríku og búin að ferðast um alla álfuna. Við sama málsverð ræddum við við palestínska stelpu sem vann á vegum alþjóða rauða krossins í Jemen. Þær höfðu heldur betur frá mörgu að segja.


Svo var eyjan svo lítil að við hittum sama fólkið aftur og aftur og aftur. Fólkið úr flugvélinni, fólkið úr snorklferðinni eða bara hvað það var sem við gerðum. Það var voða gaman.

No comments:

Post a Comment