Nýji uppáhalds staðurinn minn í Moshi eru lestarteinarnir. Það er lestarstöð og lestarteinar í gegnum bæinn en hér ganga þó engar lestar. Lestarteinarnir eru einfaldlega autt svæði í miðjum bænum. Það er nú allt orðið grasi gróið og engan veginn fært fyrir lestar að komast yfir teinana lengur. Við gömlu lestarteinana er bar. Nýjasta nýtt hjá okkur er nú að setjast í grasið með varning af barnum. Við fáum alltaf einhvern félagsskap af fólki sem labbar framhjá auk þess sem tveir flækingshundar mæta alltaf í samkvæmið. Oftar en ekki rekur einhver geitahjörðina sína framhjá og toppurinn yfir i-ið eru svo heiðskýrir dagar, því þá blasir mount Kilimanjaro beint við.
Um daginn var ákveðið að gera enn meira úr járnbrautarhittingnum. Ákveðið var að halda pikknikk. Við mættum með kanga-rnar okkar (afrísku efnis-svunturnar okkar, nauðsyn hvers afríkubúa) breiddum úr þeim, settumst í hring og gæddum okkur á alls kyns fíneríi. Sumir höfðu eldað, aðrir bakað og enn aðrir fjárfest í kökum eða ávöxtum. Kili var ekki í spariskapi þann daginn en það skipti minnstu í svona góðra vina hópi. Að sjálfsögðu fengum við auka félagsskap hundanna tveggja, geitahjarðar og nokkurra barna úr nágrenninu. Ótrúlega notalegur eftirmiðdagur.
Í gær, 17. júní ákvað ég að halda uppá daginn á þessum nýja uppáhalds stað. Ég bjó til kleinur og dró fram harðfiskinn sem mér var sendur um daginn. Tanja og Max komu svo með mér niður að lestarteinum þar sem við nutum eftirmiðdagssólarinnar, ég reyndi að rifja upp það sem ég mundi um sjálfstæði íslendinga og söng þjóðsönginn fyrir þau. Ég dásamaði landið mitt hægri vinstri og þau eru meira að segja orðin funheit fyrir að koma í heimsókn. Jebbs, það má á 17. júní vera ekta Íslendingur með föðurlandsdásemdir á háu stigi. Til hamingju með gærdaginn.
No comments:
Post a Comment