Sunday, July 5, 2015

Ramadan

Eftir smá skriftapásu er ég "back on track" Held að andinn sé að koma yfir mig aftur. Mun halda áfram að segja sögur af lífinu mínu hérna. Mér finnst internetið heima hjá mér verða verra og verra, er eiginlega búin að gefast upp á að nota það og finnst miklu leiðinlegra að skrifa blogg sem ég get ekki sett beint inn. En jæja, ég reyni áfram.
Nú er ég farin að taka eftir því að ég er orðin ónæmari fyrir mörgu hérna, eða farið að finnast ótrúlegustu hlutir venjulegir. Fyrst núna, eftir fjóra mánuði. En það er alls konar nýtt ennþá samt. Pott þétt nóg af alls konar til að blogga um.

Nú er Ramadan í gangi. Mér finnst ég hafa heyrt einhvers staðar að hér í Moshi væru trúarhlutföllin tæplega 60% kristnir og 40% múslimar, svo einhver fleiri trúarbrögð. Það er eitthvað af veitingastöðum lokaðir núna og einhverjir götusalar eru með lokað líka. Á sumum svæðum í Tansaníu hef ég heyrt að það sé varla hægt að fá mat frá sólarupprás til sólarlags þennan mánuð en þannig er það sem betur fer ekki hér.

Eitt sjálfboðahúsið er niðri í bæ, mitt á milli tveggja moska. Eftir lýsingum krakkanna sem búa þar heyrist söngur og trúarköll næstum allan daginn úr báðum moskunum. Þau byrjuðu að telja niður til loka Ramadan strax fyrsta daginn.


Það skemmtilega við Ramadhan er hins vegar það að þá er matarmarkaður á hverju kvöldi. Um hálftíma fyrir myrkur fyllist aðal matarmarkaður bæarinns (þar sem aðallega fæst mais, grænmeti, ávextir og baunir) af fólki með alls konar góðgæti eins og brauð, grillað kjöt, ávaxtadjús, mandazi og sambusa (tansanískar útgáfur af kleinum og vorrúllum), kleinuhringjum og bara alls konar. Eftir að fólk klárar sólsetursbænir fer það út á markaðinn og oftar en ekki borðar það saman þar. Ég er búin að fara einu sinni á markaðinn og keypti mér alls konar fínerí. Hrísgrjónabrauð, steiktar kartöflur, sætabrauð. Ljómandi gott alveg. Það var samt næstum allt á markaðnum djúpsteikt svo ég veit ekki hvort ég gæti borðað þetta á hverju kvöldi í heilan mánuð eins og Tansaníubúi. En ef ég væri ekki búin að borða í rúma tólf tíma þá kannski myndi það virka.

No comments:

Post a Comment