Monday, July 20, 2015

Verslunarferð með eiginmanninum

Síðasta þriðjudag fór ég á Masaai markað. Hann Laisha, masaaiinn sem fór með okkur í þorpið sitt fór með okkur á markaðinn. 
Laura vinkona mín er mikil áhugamanneskja um markaði og útvegði okkur guide, hann Laisha til að koma með okkur á markaðinn.

Massai markaður er semsagt markaður þar sem aðallega fólk af masaai þjóðflokknum fer á, með alls konar varning sem hentar lífstíl þeirra.
Það var pínu flókið að komast þangað, alls tæplega þriggja tíma ferðalag í rútu og strætó. En við komumst þetta allt saman á endanum. Síðasta strætóferðin var frekar áhugaverð, því nær sem við komum markaðnum sáum við fólk vera að fara á eða af markaðnum. Allir fótgangand, með kýr í eftirdragi.

Á markaðnum fékkst ýmis masaaiavarningur:

Matur eins og hrísgrjón og grænmeti. Einnig fékkst kúafita í boxum. Ég var nú næstum búin að kaupa svoleiðis því mér finnst stundum vanta tólgarbragð í kleinurnar mínar… 

Shuka, sem er klæðnaðurinn sem masaaiar nota, köflótt efni í rauð- eða bláköflóttu sem  masaaiar binda utanum sig. Ég keypti mér svoleiðis til að taka með í teboð og lautarferðir heima, ætla m.a. að taka það með í pikknikk á lestarteinana á morgun :)

Perluskartgripir, sem masaaiar nota og ýmis konar matur líka. Masaaiunum fannst heilmikið til þess koma að hitta hvíta túrista (með veski) og hengdu á okkur alls kyns armbönd og ökklabönd til að selja okkur. Pínu yfirþyrmandi en ekta markaðsstemmning líka.

Masaaiasandalar. Masaaiar nota alveg fyndinn skóbúnað. Sandala búna til úr gömlum bíldekkjum. Ef þig vantaði sandala, þá stígur þú á dekkið og skósmiðurinn skar dekkið í mátulega stærð eftir fætinum. Síðan voru skornar gúmmíræmur úr dekjunum og festar á sólann til að búa til sandala. Orðið á götuni er á þá leið að engir skór endast eins vel og gúmmískórnir hjá masaaium.

Te. Masaaiar eru alltaf að borða einhver náttúrulyf. Hér í miðbænum í Moshi er fullt af masaaium með standa með alls konar heilsudufti frá hinum ýmsu jurtum. Á markaðnum var þónokkuð af slíkum duftsölum. Laisha ákvað að kaupa sér "te". Á tebásnum sem hann fór á voru fullir plastpokar af alls konar dufti, svona 50 plastpokar (innkaupapokar). Það sem tesalinn gerði þegar Laisha bað um te var að sækja sér enn einn innkaupapokann og setja eina lúku af hverri tegund ofaní. Eða baa einhvern slatta af alls konar jukki. Mjög ógirnilegt.

Kýr. Þegar við nálguðumst markaðinn í strætónum sáum við alltaf fleiri og fleiri massaia á leið á markaðinn með kýr í eftirdragi. Það ver til kaupa og sölu. Á markaðnum var risastórt svæði þar sem fólk var með kýrnar sínar til sölu. Við gengum um svæðið og ég þóttist ætla að versla mér kú. Flykktust að mér og buðu mér alls konar verð. Þegar mér fór að finnast það heldur fyndið fór ég að spyrja þá hvort ég gæti tekið þá með í strætó heim eða í flugvél. Hann hélt það sko aldeilis. Ekki málið. Við skemmtum okkur nú heilmikið við þessar ráðagerðir og reyndum líka að selja eina vinkonu okkar í hjónaband fyrir kýrnar.  Það fyndna var að masaaiarnir tóku svo alvarlega og voru alls ekkert á því að viði værum að grínast.


Ákaflega áhugaverð ferð og skemmtiegur dagur. Ýmislegt verslað. Jeremías hvernig ég á að koma því heim…. 

No comments:

Post a Comment