Thursday, July 9, 2015

Jarðarför

Móðurbróðir mömmu Rósu, John Kisana var jarðaður í dag. Mama spurði mig í vikunni hvort ég hefði áhuga á að koma með í jarðarförina. Ég var tvístígandi, var ekki viss hvort mér þætti viðeigandi að koma með í jarðarför hjá manneskju sem ég þekkti ekki, bara til að sjá hvernig það er gert í Tansaníu. Fjölskyldan hvatti mig hins vegar til að oma með og þegar ég ræddi þetta í vinnunni vildu þau endilega gefa mér frí, fannst alveg frábært að ég ætlaði mér að verða alvöru Tansaníubúi og koma með í jarðarför. Það var líka tilfellið, jarðarförin var afar fjölmenn.  Allt nágrennið mætti og með mömmu Rósu komu tveir bílar af fólki (baba George, ég, mágkona mama Rose í hina áttina ofl). til að veita mama Rose styrk og samúð í jarðarförinni.

Jarðarförin var á heimili Johns sem var í um 40 mín keyrslu í burtu. Þar var búið að koma fyrir stólum og tjöldum í garðinum. Margir voru mættir og flestir voru klæddir kanga (afrískum efnissvuntum). Það fyrsta sem við gerðum var að fara inn í húsið. Þar var kistan og hún var opin. Það var gangvegur í kringum kistuna en svo var hringur af konum, öðru megin voru konurnar klæddar eins fjólubláum kjólum en hinu megin klæddar hvítum kjólum með fjólubláu skrauti. Þetta voru nánustu ættingjar (börn o.fl.).
        Þegar ég kom útúr húsinu fundum við okkur sæti. Þar sá ég að margar konur voru í sérstökum kjólum sem ég hafði ekki séð áður. Mér var sagt að nánir ættingjar klæddust þessum klæðum (t.d. systkinabörn o.fl.). Einnig voru margir klæddir bolum með mynd af hinum látna. Bolir sem voru útbúnir sérstaklega fyrir jarðarförina.
       Þegar athöfnin sjálf hófst var byrjað á því að loka kistunni og fara með hana útí garð þar sem athöfnin fór fram. Þá var jarðarförin, sem ég held að hafi verið nokkuð lík okkar. Ég skildi reyndar ekki hvað fór fram, eitthvað af athöfninni fór fram á Swahili en mest fór fram á Chagga tungumáli. Stundum sagði konan sem sat við hliðina á mér hvað var verið að tala um og mér skildist það vera í grófum dráttum sambland af minnigarorðum um hinn látna, guðs orði og tónlist. Reyndar enginn söngur. Athöfnin var löng, rúmir 3 tímar en mér var svo sagt að þetta hafi verið löng athöfn og fólk hafi kvartað undan því hvað presturinn hafi verið langorður.
       Í miðri athöfninni var kistan grafin. Hún var grafin fyrir framan heimilið, við hliðina á annarri gröf sem var þar fyrir. Þar var bæði farið með guðs orð og spiluð tónlist. Það sem vakti þó athygli mína var að það var gengið alveg frá gröfinni. Ættingjar fylltu gröfina, krossinn var tilbúinn og meira að segja var smíðaður rammi og þar var tilbúin steypa til að steypa fyrir ofan gröfina. Tónlist spiluð á meðan, um klukkutíma verk. Að því loknu gengu allir að leiðinu og lögðu á það rósir og fóru svo aftur í upphaflegu sætin sín því athöfnin hélt áfram.
       Að athöfninni lokinni var matur fyrir alla. Síðan var ferðinni heitið heim. 
       Athöfnin var öll tekin upp á myndband. Mér var sagt að það væri alltaf gert. Hér eru öll brúðkaup tekin upp og horft á þau aftur og aftur. Ég velti fyrir mér hvort það sé gert við jarðarfarir líka. Ég fann mig þó ekki í að taka myndir í athöfninni.

Það er margt sem ég velti fyrir mér eftir jarðarförina. Nánustu ættingjarnir, konurnar í hvítu og fjólubláu kjólunum grétu hástöfum á vissum tímapunktum í athöfninni. Aðallega þegar kistunni var lokað og hún borin út í garð fyrir athöfnina en einnig þegar kistan var borin til grafar. Mér fannst svo skrýtið að heyra einhvern gráta svona hátt. Ég held ég hafi aldrei heyrt neinn gráta svona hátt, bara séð það í sjónvarpinu. Mér fannst líka svo skrýtið hvað mér fannst einhvern veginn bara kveikt á on/off takka þegar kistunni var lyft upp og þær fóru að gráta. Ég fór líka að pæla- er grátur menningartengdur? Ég held að ég myndi aldrei þora að gráta svona hástöfum. Það eru allavega ekki mín náttúrulegu viðbrögð.
       Annað sem ég velti fyrir mér var klæðnaðurinn. Nánustu ættingjarnir voru allir í eins fötum og nánu ættingjarnir í eins fötum. Þessi klæði voru að mé skildist, sérstaklega keypt fyrir jarðarförina. Af hverju að forgangsraða peningunum sínum í sérstök klæði fyrir þessa einu athöfn þegar fólk virkilega hugsar tvisvar um hverja krónu sem það eyðir. 


Athöfnin var falleg og af þessari reynslu að dæma finnst mér tansaníubúar kveðja á virðulegan hátt.

No comments:

Post a Comment