Sunday, July 12, 2015

Heimsóknarferð á spítalann og í háskólann.

Síðasta föstudag fóru ég, Laura og Emily (hinir sjálfboðaliðarnir á Gabriellas) í heimsóknarferð í KCMC. KCMC er aðal spítalinn hér í Moshi og í norður Tansaníu (sjá fyrra blogg). Við hliðina á honum er háskólinn í Moshi, sem einnig heitir KCMC. Antony, maður Brendu(yfirmanns Gabriellas) er kennari í skólanum og hann fór með okkur í skoðunarferð.

Við byrjuðum á að fara á spítalann, svo í háskólann. Við vorum kynntar fyrir fjöldanum öllum af fólki, iðjuþjálfurm og starfsfólki í endurhæfingunni á spítalanum, ýmsum kennurum, nemendum og yfirmönnum í háskólanum. Áhugaverður dagur. Mjög áhugaverður dagur. Ég mun stikla á stóru hér.

Við hittum alls konar mikilvægt fólk. Yfirmann iðjuþjálfadeildar háskólans, yfirmann tansaníska iðjuþjálfafélagsins og ýmsa fræga. Allir vildu gefa okkur netföng og símanúmar ef við hefðum einhverjar spurningar eftir heimsóknina. Annars. alls kyns áhugavert.

Eitt af þeim verkefnum sem eru öðruvísi á KCMC og heima er hvernig reynt að útvega fólki hjólastóla. Þegar það er gert er reynt að sérsmíða þá með innlendri framleiðslu, með eitt hjól framaná og tvö aftaná því hér eru malarvegir um allt og þröskuldar sem fólk þarf að komast yfir. Einnig þarf að finna styrktaraðila til að kaupa hjólastólinn (yfirleitt er leitað tiil kirkjunnar sem viðkomandi sækir eða neighbourhood-ið).

Á spítalanum var aðallega unnið með börn með CP og fullorðna með taugaskemmdir, ss. eftir heilaáfall eða slys. Mikilvægur hluti af endurhæfingunni er að kenna fjölskyldunni um fötlunina sem ættinginn er með og fara í heimsókn á heimilið hjá viðkomandi til að æfa hjólastólanotkun þar og ýmislegt fleira.

Eins og ég hef sagt áður eru fordómar fyrir einstaklingum með fötlun miklir hér. Þegar farið er í heimilisathuganir á Gabriella centre er mikilvægur hluti af heimsókninni að skoða hver viðhorf til fatlaða einstaklingsins er innan fjölskyldunnar og einnig innan samfélagsins. Ég spurði frekar útí þetta, þ.e. hvort fordómar væru gegn einstaklingum með fötlun og ef svo, hvernig væri unnið í þeim. Svarið fannst mér áhugavert og tvímælalaust það sem mér er efst í minni eftir daginn. En svarið var já, það eru fordómar gegn fötluðu fólki eru miklir og oft er þrautinni þyngra að finna uppá ættingjum eftir að það kemst í ljós að einstaklingurinn verður líklegast fatlaður ævilangt. Ef ættingjarnir finnast eru þeir líklegast ekki samvinnuþýðir.
Starfsfólkið á spítalanum var með ráð við því. Það sem þau gera er að hringja í kirkjuna sem viðkomandi sækir og biðja þau um að tala við fjölskylduna. Miðað við það sem iðjuþjálfinn sem kynnti okkur spítalann sagði okkur, þá verður fjölskyldan yfirleitt ljúf eins og lamb og afar samstarfsþýð eftir að kirkjan hefur talað við þau. Ég veit ekki hvort þau hringi í moskur líka en stundum hringja þau þó í bæjarstjórnina í þorpinu þeirra og biðja þau um að tala við fjölskyldu fatlaða einstaklingsins.
Í þessum heimilisathugunum er reynt að fá fulltrúa frá kirkjunni í nágrenninu eða bæjarstjórninni til að vera viðstödd. Það er gert til þess að auka samfélagsvitund á fötluninni, til að fá þorpið " í lið með sér". Það er einnig gert til að efla samfélagið (sveitarfélagið eða kirkjuna) til að safna pening fyrir hjólastól, hjólastólarömpum eða öðru sem gæti þurft.

Í háskólanum spjölluðum við við ýmislegt frægt fólk. Nemendur, kennara, deildarforseta, félagsformenn og bara nefndu það…
 Nemendurinir í iðjuþjálfuninni eru alls 19 og þeir voru að hafa áhyggjur af því að námið stæði ekki undir sér. Flestir nemendur eru á skólastyrk frá einkaspítölum og fara því að vinna á einkareknum spítölum að námi loknu. Í náminu er sérstaklega mikil áhersla lögð á börn. Ástæðan fyrir því er að það eru engan veginn nógu margar endurhæfingarstofnanir til að vinna með öllu því fólki sem þarf á að halda. Í langflestum tilfellum er forgangsraðað á þann hátt að börn gangi fyrir því þeirra er framtíðin. Mun minni áhersla er lögð á fullorðna. Þessu komst ég að þegar ég var hálf vonlaus í vinnunni eftir nokkrar vikur, fannst allir vita svo mikið um börn og barnaþroska en ég ekki neitt. 
Í heimsókninni hitti ég þó mann sem er að vinna að nýju verkefni. Að vinna með fólki með heilabilun. Mér skildist helst á honum að lítil sem engin þekking eða þjónusta á þessum málaflokki væri á svæðinu. Ég uppveðraðist öll og sagði þeim að þarna væri ég á heimavelli og ef það væri eitthvað sem ég gæti ráðlagt með, endilega hafa samband. Hann var líka spenntur og vildi endilega fá netfangið mitt :)

Mjög áhugaverður dagur og enn og aftur er ég endalaust þakklát fyrir tansaníska gestrisni sem ég fékk að upplifa í heimsókninni.

                                                              Háskólabyggingin í Moshi

3 comments:

  1. Ég misskildi "Mikilvægur hluti af endurhæfingunni er að kenna fjölskyldunni um fötlunina" illilega :D

    ReplyDelete
  2. aaa já! hahahaha! upplýsa hefði kannski verið betra orð í þessu tilfelli...

    ReplyDelete