Saturday, August 29, 2015

Mwanza

Vinsamlegast skoðið póstana tvo hér á undan fyrst...

Nú er ferðalagið hafið! Við erum komnar á fyrsta stopp, borgina Mwanza við Viktoríuvatn. Fyrsti dagurinn var rútuferð, 14 tímar. Áhugaverð rútuferð. Þetta voru 14 tímar og mér var ekkert farið að leiðast þegar við komum á leiðarenda. Það er svo mikill þeytingur búinn að vera á okkur síðustu daga að ég naut þess að vera kominn með bakpokann í skottið, to-do listann í ruslið og sitja svo ein með sjálfri mér, láta hugann reyka um allt og ekki neitt og þurfa ekki að gera neitt. Síminn minn var meira að segja batteryslaus svo þetta ver 100% afslöppun. Svo 14 tímar í gær þar sem ég dormaði í hitamollu og horfði út um gluggann. Hluta leiðarinnar hafði ég keyrt áður en þá á regntímabilinu. Nú er hins vegar farið að vora og gróðurinn farinn að þorna. Landslagið var allt öðruvísi og önnur upplifun að keyra um svæðið.
Ég fæ ekki nóg af því að horfa út um gluggann á bílferðum hér. Mismunandi húsgerðir eftir landssvæðum, mismunandi klæðnaður og alltaf svo áhugavert að hugsa til lífshátta fólks sem búa í litlum kofum lengst úti á landi með búhjarðirnar sínar. Ekkert gróðrland nema tré á stangli, ekkert rafmagn, ekkert símasamband. Það kom mér á óvart hversu strjábílt var á leiðinni og bæjirnir sem við stoppuðum í, sem eru merktir nokkuð skilmerkilega á landakort voru í raun litlir. Vegurinn, á milli tveggja af stærstu borga Tansaníu var ein akrein í hvora átt og ekki nema einstaka bíll á ferð. Nú áttaði ég mig einnig á hvað mama Rose átti við þegar hún sagði að héruðin Kilimanjaro og Arusha, sem ég bý á og næsta við, eru hvað þróuðustu svæði Tansaníu. 
 
Við pöntuðum okkur eitthvað hótel á netinu áður en við fórum til að vera með öruggan næturstað. Við fengum leigubílstjóra til að keyra okkur á hótelið, sem er lengst útí ég veit ekki hvar. Ferðalagið var ævintýralegt og oft týnst á leiðinni og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna þegar við vorum búnar að keyra í korter á holóttum vegum og greinilega komin þónokkuð útúr aðal borginni. En leigubílstórinn var traustur maður og varkár bílstjóri, svo þetta reddaðist allt. Við erum einu gestirnir, enda að okkur sýnist, bara rétt verið að klára að byggja hótelið. Hér er stjanað við okkur eins og prinsessur. Við fengum internetraoderinn bara með okkur inn í herbergi og í morgun var búið að búa til alveg svakalegan morgunverð, bara fyrir okkur 2 sem við fengum inní herbergi. Þjónustustúlkan er líka algjört krútt. Líklega svona tvítug. Ábyggilega nýbyrjuð að vinna hérna og vill gera sitt allra besta.. Hún hneigir sig í hvert sinn sem hún hittir okkur eða kemur með eitthvað til okkar og stekkur af stað ef við pöntum eitthvað eða ef hún man eftir einhverju sem okkur gæti hugsanlega vantað.


Nú sit ég hér afvelta eftir morgunmatinn og nýt rólega prinsessulífsins. Plan dagsins er að finna og panta ferju til Úganda, skoða Mwanza, "the rock city" og vonandi gæða sér á fiski úr Viktoríuvatni. Þangað til næst…

Ferðalagið góða

Skrifað 26.8. Bara lengi á leiðinni hér inná...

Þetta blessaða ferðalag hefur heldur betur verið lengi í fæðingu. Okkur fannst eiginlega bara allt spennandi og vissum ekkert hvert við vildum fara. Eftir miklar spekúlasjónir ákváðum við að fara til Eþíópíu. Eftir að hafa gúgglað Eþíópíu í drasl og orðnar hryllilega spenntar fyrir ferðinni komumst við að því að væri heljarinnar mál að fá vegabréfsáritun þangað og við værum orðnar og seinar miðað við að við ætluðum að  fara þangað nú í lok ágúst. Ísland alveg sér á báti með þetta vesen, minnir að öll norðurlöndin og bara öll lönd í Evrópu gætu fengið visa on arrival á flugvellinum. En ekki Íslendingar. Sem betur fer vorum við ekki búnar að bóka flug. Áttuðum okkur á þessu rétt áður en við pöntuðum. 

Við héldum áfram að spá og spekúlera. Fengum mjög misvísandi upplýsingar um hvort væri hægt að fá visa on arrival í Úganda eða ekki. Að lokum sendum við tölvupóst á sendiráðið og var sagt að við gætum fengið visa on arrival. Eins gott að það standi! En ég veit ekki, í versta falli þurfum við að snúa við og finna okkur eitthvað að skoða í Tansaníu. Við ætlum svo að enda ferðina hér í Moshi, þar sem við ætlum að ganga uppá Kilimanjaro. Ég er alveg stressaðri en allt fyrir þeirri ferð. Flestir fá háfjallaveiki á leiðinni upp en svo er misjafnt hversu slæm hún er, hvort fólk nái upp á topp eða ekki. Ég hef líka ekki hreyft mig neitt síðasta árið, fæ harðsperrunr við að ganga upp stigann heima hjá mér. Þetta verður eitthvað.


Ég stoppa svo þrjá daga í Svíþjóð á leiðinni heim þar sem uppáhalds Stokkhólamrbúarnir mínir verða heimsóttir. Hlakka líka mikið til þess.

Moshi dögum fækkar

Skrifað 25.8. Gleymdi að setja það inn….

Hún Guðbjörg Lára, vinkona mín er að koma á eftir. Við ætlum í ferðalag saman í rumar 3 vikur. Síðan held ég heim en hún ætlar að fara á Gabriella centre og gerast sjálfboðaliði þar. 
Síðustu  daga hef ég verið í því að panta ferðir fyrir okkur, panta flug heim og skipuleggja hvenær ég get sagt bless við alla. 

Ég hef líka verið að reyna að klára verkefnin sem ég tók að mér í Gabriella centre, eða að minssta kosti verið að reyna að skila þeim þannig af mér að hægt sé að halda verkefnunum áfram eða taka upp þráðinn að nýju þegar tækifæri gefst. 


Ég er eiginlega búin að vera hálf lítil í mér í mér, búin að skypa mömmu í tíma og ótíma, verið með hnút í maganum og það þarf ekkert til að ég stressist uppúr öllu veldi. En það er bara part of programmet. Það væri ekkert fútt í þessu ef það væri ekki smá áskorun ot tilfinningadrama. Er líka óskaplega spennt fyrir komandi dögum! Svooo ef ég kemst í að skrifa næstu daga, þá verða það verðablogg :)

Tuesday, August 18, 2015

Samfélagsfræðsla

Nú er miðannafrí í skólanum. Krakkarnir eru í fríi og við höfum því meira verið í því að skipuleggja ýmislegt og líka farið í heimilisathuganir og sinnt ýmsum verkefnum

Í dag fór ég ásamt Mde, iðjuþjálfanum á Gabriella cenntre, í skóla um 40 mínútna keyrslu frá bænum mínum. Þetta er verkefni sem er kallað outreach og gengur útá að veita fræðslu og aðstoð í samfélaginu um fatlanir og námsörðugleika.
Í þeim skóla voru um 270 nemendur. Í skólanum var einnig deild fyrir börn með special needs. Það var hús með tveimur skólastofum, 18 nemendum og einum kennara.  Hún Doris. sérkennarinn tók á móti okkur. Um 15 börn voru mætt í skólann í dag og foreldrar flestra þeirra líka. Það sem við gerðum var að meta börnin, þau unnu ýmis verkefni og við fylgdumst með hvernig þeim gekk að fara eftir fyrirmælum, einbeita sér, leysa verkefnin ofl. ofl. Mde tóok einnig viðtöl við foreldra.
Í lok heimsóknarinnar var svo talað um áframhaldandi samstarf og hvað matstækin okkar leiddu í ljós. Við vildum fá tvö börn á námskeið hjá okkur og einnig vildum við skoða möguleikann á að byrja verkefni í skólanum þar sem börn læra garðyrkju. Þetta voru allavega hugmyndir frá okkur.

Það var áhugavert að koma í venjulegan skóla í einn dag. Þó ég sé búin að vera hér í næstum hálft ár eru enn hlutir sem mér finnst skrýtnir og koma mér á óvart.
Einn kennari með átján börn með sérþarfir. Og enginn annar að starfa við það sama í sveitinni svo hún þarf bara að treysta á sjálfa sig. Ég dáist að þrautsegjunni í henni.
Á leiðinni áttaði Mde sig á því að hún hafði gleymt tómum blöðum til að láta börnin skrifa á. Ég sagði: Þau hljóta að eiga blöð í skólanum. En hún sagði: Nei, öruglega ekki. Við redduðum okkur því við vorum með of mörg matsblöð og gátum því látið börnin skrifa aftan á þau. Annars sá ég einn bunka af svona 10 stílabókum í sérdeildinni, engin tóm blöð.
Á leiðinni sagði Mde mér líka að hún myndi kynna okkur sem nema. Það væri til að komast hjá því að starfsfólk skólans ætlaðist til þess að við, eða sérstaklega ég sem hvít manneskja, væri komin til að gefa skólanum gjafir eða styrkja þau.
Þegar Tansaníubúar vilja vera gestrisnir bjóða þeir uppá gos. Sérkennarinn var búinn að fara í verslunarferð og kaupa gos handa okkur. Líka skólastjórinn. Ég tók út gosskammtinn minn fyrir næstu daga í dag.
Tansaníubúar eru gestrisnir og hlýir. Það er bara þannig.
Í heimsóknum vill fólk yfirleitt alltaf taka af þér töskuna og halda á henni fyrir þig. Taka hana um leið og þau heilsa þér og þegar sest er niður leggja þau hana á öruggan stað. Þegar þú ferð halda þau á henni þar til leiðir skiljast. Nú vorum við tvær í dag, Ég og Mde. Doris tók töskuna mína og kallaði svo á eitt barnið til að halda á töskunni hennar Mde. Við fengum því fylgd tveggja alla leið á rútustöðina.


Áhugaverður og skemmtilegur dagur.

Sunday, August 16, 2015

Húsverkin mín í Afríku


Ég er flutt. Flutti í sjálfboðahús fyrir þremur vikum. Lífið á nýja staðnum er afar ljúft. Ég bý með einni stelpu í íbúð og á hæðinni fyrir neðan okkur er hús með tveimur stelpum í.  Svolítið eins og að vera bara hálfan daginn í Afríku og hinn helminginn lifandi venjulegu stúdentalífi. Ég er með internet í íbúðinni og ji hvað það er ávanabindandi. En gaman líka. Er að gúggla hvert sé gaman að ferðast í Afríku… úff… það er of margt spennandi. Mamma Rósa og fjölskylda eru enn á sama stað og ég heimsæki þau öðru hvoru. Þau eru svo yndisleg en sjálfboðahúsalífið er doltið meira stuð.

Annars hef ég líka verið að prufa mig áfram í uppskriftum og eldamennsku. Það var alveg ástæða fyrir því að ég ferðaðist Íslandið okkar á enda fyrir nokkrum árum til að læra að elda og þrífa. Ég elska að fá að gera það sjálf. Fannst alveg vera tekið fram yfir hendurnar á mér að fá ekki að gera það hjá Mömmu Rósu. Nú er ég í miklum baunasósuæfingum. Æfingarnar ganga ljómandi vel, en ég er of kryddforvitin fyrir hina hefðbundnu tansanísku matargerð. Ég þurfti að prufa karrýbaunir og alls konar. Það var samt mjög gott. Svo skemmir ekki fyrir að hún Kaija, stelpan sem ég bý með og er algjör draumur finnst allt gott sem ég elda.
Næsta mál á dagskrá er maíssúpa með baunum og að sjálfsögðu hinn eini sanni Ugali! (Maísgrauturinn sem er borðaður í öll mál hérna). Tansaníubúar alveg missa andlitið þegar ég segi þeim að ég hafi eldað þetta sjálf. Að ég, hvít stelpa, kunni að elda og ég kunni meira að segja að sjóða hrísgrjón án þess að nota rice cooker. Tansaníubúar halda því fram að í Evrópu og Ameríku sjóði allir hrísgrjón í rice cooker og eigi einfaldlega sér vélar til að elda allt saman.

Ég fæ líka að þrífa. Á laugardögum kemur maður til að þrífa hjá okkur. (Hér er nauðsynlegt að ráða einhvern til að þrífa fyrir sig ef þú hefur efni á því, annars telur fólk þig stuðla að atvinnuleysi). Hann vinur minn kemur á laugardags "morgnum". Hann mætir með fötu af vatni og eina tusku. Og svo byrjar hann. Þrífur þá vaska sem honum dettur til hugar þann daginn og þvær gluggakistur eða borðbekki sem er drasl á. Svona af því að þá getur hann skammast yfir því að þar sé drasl sem við þurfum að fjarlægja áður en hann getur þrifið. Í gærmorgunn var kústurinn okkar inni á baðherbergi og við fengum aldeilis að heyra það að við ættum að biðja leigusalann okkar um að lána okkur moppu ef við vildum þrífa baðherbergisgólfið. Ekki kústinn. Það besta var þó  að sjá hann þrífa klósettið, sem ég fylgdis laumulega með einn laugardaginn. Þá tók hann dolluna undan klósettburstanum, fyllti hana af vatni, og skvetti svo yfir klósettið. Að því loknu tók hann tuskuna góðu, sem hann var búinn að skúra gólfið í hálfri íbúðinni með, og strauk yfir klósettið. Eftir þetta tók hann tuskuna og skúraði restina af íbúðinni.

Þegar hann er farinn á laugardögum förum við til stelpnanna á neðri hæðinni og biðjum um að fá lánað hreinsispreyið þeirra til að fara yfir klósettið aftur. 


Sumt fólk er bara skrautlegra en annað og hann gerir það svo sannarlega að verkum að helgin mín byrjar á smá hlátri og brosi útí annað. Og ég fæ þá líka ástæðu til að þrífa pínu sjálf.

Thursday, August 13, 2015

Glansskór, glimmerkjóll og blóm í hárið

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hef ég eiginlega ekki nennt að blogga um þetta blessaða send off partý fyrr en núna því ja, það er meira skemmtilegt að sega frá því heldur en partýið var sjálft. Það reyndi eiginlega bara verulega á þolinmæði og taugar. Full hárgreiðslustofa af yfirstressuðum píum í heilan dag kallandi og hrópandi eitthvað á Swahili. Það var doltið mikið. Brosa og dilla sér í takt við tónlistina í horninu á sviðinu megnið af partýinu (sem var 7 tíma langt). 

Allavega. Partýið var á laugardegi.
Ég fór fyrr heim úr vinnunni á fimmtudeginum. Mun fyrr heim. Ég þurfti að fara með mömmu Rose að kaupa skó fyrir partýið. Við meyarnar áttum að vera í rauðum hælum. Ég hef bara hreint ekki farið inní fatabúðir hér í bænum, hef lítið séð af fíneríi sem heillaði mig. Enda er fatastíllinn hér allt öðruvísi. Ég fíla hann alltaf meira og meira og á aldeilis eftir að sakna litanna og munstranna í klæðnaði hér. 
Í skóbúnaði, sérstaklega spariskóbúnaði eru glansskór í tísku. Mama Rose hitti mig í bænum uppúr hádegi og við fórum búð úr búð að leyta. Búðirnar voru alveg stórkostlegar, fullar af glanshælum. Við þurftum að fara í þónokkrar búðir því búðirnar voru litlar og allar með vörur úr faatabúðum í Evrópu sem höfðu ekki selst (úr Söru, Clarks og svona eitthvað sem ég kannaðist við).  Svo ef mér leist á skó voru þeir yfirleitt bara til í tveimur tilfallandi stærðum.   En markmiðið tókst: Rauðir og nógu þægilegir og passlegir til að endast út partýið. Skórnir voru með demantaskrauti. Frænkan, sem á þessum tímapunkti hafði bæst í málið fannst nauðsynlegt að leita að demantaarmbandi í stíl við demantana á stólnum en ég náði að tala hana frá því.

Seinni partinn fór ég svo til klæðskerans að láta þrengja kjólinn minn. Mama Rose kom með mér. Ég hef farið þangað áður með henni að láta laga einhver föt. Vanalega er þetta the "taylor" or "sowing lady". Nú var þetta "the designer" Hjá klæðskeranum mátaði ég kjólinn og svo var ég mæld. Daginn eftir þegar ég sótti kjólinn smellpassaði hann. Leit út bara alveg eins og prinsessa :P

Á laugardagsmorgninum þegar ég vaknaði var dóttirin í fjölskyldunni, Neema komin heim (hún býr í borg nokkuð langt í burtu og ég hef bara hitt hana einu sinni áður). Við tók tveggja tíma dansæfing. Það var bara hresst og skemmtilegt. Ég fékk líka að við myndum labba inn og dansa þennan dans á meðan. Frekar hresst og skemmtilegt.

Þegar dansæfingunni var lokið kom mama Rose til mín rosa stressuð. Nú yrði ég að koma útí bíl, við værum að fara í greiðsluna. Ég henti dótinu mínu í poka og hljóp út. Þetta var klukkan 12. Partýið átti að byrja klukkan 6. Hárgreiðslustofan var troðfull af fólki og þar fengum við að hanga í marga tíma. Ekki að það væri verið að gera neitt í hárið á mér, nei. Bara tansaníska leiðin. Ekki skipuleggja sig heldur segja öllum að koma á sama tíma og bíða svo bara, Úff það reyndi svei mér á þolinmæðina. Ég fékk samt fínar neglur, fékk einhvern maska framan í mig sem var látinn bíða í 3 tíma. Þessi undraverða hárgreiðsla sem ég beið eftir í 5 1/2 tíma var smá hárolía og plastblóm fest með spennu. Make-upið var af sama metnaði, tók eina mínútu og konan sem málaði horfið varla á mig á meðan hún tróð einhverjum tilviljanakenndum farða framan í mig. Ég var þá orðin heldur betur pirruð á þessari þjónustu hjá þeim. Sat sem fastast í make up stólnum og sagðist vilja augnskugga. Ég fékk augnskugga, frekar ljótan. Sagðist vilja maskara og lét alla hárgreiðslustofuna snúast í kringum mig til að finna maskara. Ég eiginlega pínu naut þess að láta alla snúast í kringum mig að leita að þessum eina maskara. Þau sáu það langar leiðir hvað ég var orðin pirruð á þjónustunni þeirra og þau máttu alveg dansa aðeins í kringum mig. 

Klukkan 6 fórum við af stað. 8 stelpur í eins kjólum, rauðum skóm og með rautt blóm í hárinu. Keyrðum af stað í skreyttum bíl með slaufum og borðum. Á eftir brúðarmeyjarbílnum og á eftir okkur var pallbíll með lúðrasveit sem spilaði hátíðarmarsa. Við byrjuðum á að aka um aðalgötur bæjarinns en þaðan var ferðinni heitið í myndatöku. Við tókum dágóðan tíma í alls konar myndir af okkur þar sem við vorum raðaðar upp í alls konar litaraðir fyrir framan einhvern gosbrunn með brúðina í miðjunni. Allar héldum við á hvítum rósum og áttum ýmist að veifa þeim til hægri eða vinstri, fram eða aftur. Við vorum rétt hjá einhverju hóteli með fullt af túristum sem flykktust að að taka myndir. Nú held ég að svona 20 asíubúar eigi mynd af mér í glimmerkjólnum.


Þá var það partýið sjálft. Jeremías hvað það var stórt og íburðamikið. Við mættum að sjálfsögðu með stæl, dönsuðum okkur inná svæðið af mikilli innlifun. Þar á eftir komu brúðurinn og hjálparvinkona hennar. Á meðan stóðum við svo á sviðinu, dönsuðum eða dilluðum okkur útí horni í takt við tónlistina. Athöfnin/borðhaldið tók um 6-7 tíma. Eitthvað var um ræður en meira og minna gekk dagskráin útá það að hinir og þessir ættingjar brúðurinnar komu uppá svið og ættingjar mannsins komu svo dansandi inná sviðið til með efni eða teppi til að "klæða" fjölskylduna áður en dóttirin færi í burtu. Þegar búið var að breiða efnið yfir herðarnar á konunum var það okkar brúðarmeyjanna að sækja efnin og brjóta þau saman. Þetta gekk á vel og lengi, á einum tímapunkti stóðu allri í partýinu upp til að skála við okkur og bara alls konar fullt af skemmtilegu hopp og hí og trallalí. Ég borðaði geitainnyflasúpu (mjög vond en forrétturinn sem alltaf er boðið uppá í veislum) og svo aalls konar góðan mat. Kartöflur, geitakjöt, pulsur, ananas. Omminomm. Borðhaldinu lauk svo um kl. 2 um nóttina...

Bæti við myn við tækifæri...