Vinsamlegast skoðið póstana tvo hér á undan fyrst...
Nú er ferðalagið hafið! Við erum komnar á fyrsta stopp, borgina Mwanza við Viktoríuvatn. Fyrsti dagurinn var rútuferð, 14 tímar. Áhugaverð rútuferð. Þetta voru 14 tímar og mér var ekkert farið að leiðast þegar við komum á leiðarenda. Það er svo mikill þeytingur búinn að vera á okkur síðustu daga að ég naut þess að vera kominn með bakpokann í skottið, to-do listann í ruslið og sitja svo ein með sjálfri mér, láta hugann reyka um allt og ekki neitt og þurfa ekki að gera neitt. Síminn minn var meira að segja batteryslaus svo þetta ver 100% afslöppun. Svo 14 tímar í gær þar sem ég dormaði í hitamollu og horfði út um gluggann. Hluta leiðarinnar hafði ég keyrt áður en þá á regntímabilinu. Nú er hins vegar farið að vora og gróðurinn farinn að þorna. Landslagið var allt öðruvísi og önnur upplifun að keyra um svæðið.
Ég fæ ekki nóg af því að horfa út um gluggann á bílferðum hér. Mismunandi húsgerðir eftir landssvæðum, mismunandi klæðnaður og alltaf svo áhugavert að hugsa til lífshátta fólks sem búa í litlum kofum lengst úti á landi með búhjarðirnar sínar. Ekkert gróðrland nema tré á stangli, ekkert rafmagn, ekkert símasamband. Það kom mér á óvart hversu strjábílt var á leiðinni og bæjirnir sem við stoppuðum í, sem eru merktir nokkuð skilmerkilega á landakort voru í raun litlir. Vegurinn, á milli tveggja af stærstu borga Tansaníu var ein akrein í hvora átt og ekki nema einstaka bíll á ferð. Nú áttaði ég mig einnig á hvað mama Rose átti við þegar hún sagði að héruðin Kilimanjaro og Arusha, sem ég bý á og næsta við, eru hvað þróuðustu svæði Tansaníu.
Við pöntuðum okkur eitthvað hótel á netinu áður en við fórum til að vera með öruggan næturstað. Við fengum leigubílstjóra til að keyra okkur á hótelið, sem er lengst útí ég veit ekki hvar. Ferðalagið var ævintýralegt og oft týnst á leiðinni og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna þegar við vorum búnar að keyra í korter á holóttum vegum og greinilega komin þónokkuð útúr aðal borginni. En leigubílstórinn var traustur maður og varkár bílstjóri, svo þetta reddaðist allt. Við erum einu gestirnir, enda að okkur sýnist, bara rétt verið að klára að byggja hótelið. Hér er stjanað við okkur eins og prinsessur. Við fengum internetraoderinn bara með okkur inn í herbergi og í morgun var búið að búa til alveg svakalegan morgunverð, bara fyrir okkur 2 sem við fengum inní herbergi. Þjónustustúlkan er líka algjört krútt. Líklega svona tvítug. Ábyggilega nýbyrjuð að vinna hérna og vill gera sitt allra besta.. Hún hneigir sig í hvert sinn sem hún hittir okkur eða kemur með eitthvað til okkar og stekkur af stað ef við pöntum eitthvað eða ef hún man eftir einhverju sem okkur gæti hugsanlega vantað.
Nú sit ég hér afvelta eftir morgunmatinn og nýt rólega prinsessulífsins. Plan dagsins er að finna og panta ferju til Úganda, skoða Mwanza, "the rock city" og vonandi gæða sér á fiski úr Viktoríuvatni. Þangað til næst…