Thursday, April 30, 2015

Styttist í ferðahelgi

Ég er að fara í Masaaia þorp á eftir. Við erum að fara sex saman: Ég, Tanja og Max (frá World Unite, samtökunum mínum), Eva og Marlou (hollensku stelpurnar sem eru líka í Gabriella center) og Anna, sem er sjálfboðaliði á sama stað og Tanja.

Niðurtalning hefur verið í gangi alla vikuna í Gabriella center og spenningurinn er mikill. Masaaiar eru semsagt frumbyggjar sem búa hér á svæðinu. Þeir klæðast rauðum teppum, búa í moldarhúsum og veiða sér til matar. Fjölkvæni er leyft í þessum þjóðflokki og umskurður beggja kynja er framkvæmdur með mikilli viðhöfn og seremóníu. Skora á ykkur að lesa um þetta á Wikipediu (http://en.wikipedia.org/wiki/Maasai_people). 

Okkur til heiðurs verður slátrað geit. Þetta var aukapakki sem við gátum keypt og ég var eiginlega í fararbroddi með að bæta honum við. Þar sem ég hef gert nokkuð úr því að vera ekta íslenskur víkingur sem borðar lambahjörtu og sauma lamba-maga saman, fylli þá af blóði, elda og borða… þá er ég dauðhrædd um að þurfa að standa undir nafni þarna og borða ég veit ekki hvaða hluta af geitinni.


Þetta verður áhugavert, bíðið bara spennt eftir bloggi í næstu viku...

Wednesday, April 29, 2015

Hrísgrjónaakrar go bananaskógur

Ég er búin að hjóla vítt og breitt um nágrennið síðan ég fjárfesti í hjólinu mínu og yfirleitt veitir Sam mér félagsskap. Einn daginn hjóluðum við alla leið að KCMC, aðal spítalanum í norður Tansaníu og það var dágáður hjólatúr. Hjólið mitt virkar. Ég segi ekki meira. Hér eru menn útum allt með poka af verkfærum og varahlutum sem hægt er að fara til ef eitthvað bjátar að hjólinu. Ég er nú þegar búin að fara tvisvar (vegna tvenns konar pedalavanamála) og það er ekkert athugavert við það miðað við 10 daga notkun.

Síðasta laugardag fór ég heldur betur spennandi hjólaferð. Ég var búin að mæla mér mót við Rhamadan aftur, strákinn sem ég fór með í hjólaferð daginn sem ég keypti hjólið mitt. Við hófum ferðina heima hjá honum þar sem ég hitti mömmu hans, systu, systurson og nokkra nágranna. Hann var alveg pott þétt búinn að boða koma mína í heimsókn áður en ég kom. Ég hrósaði tansanískum bönunum í hástert síðast þegar við hittumst og þar af leiðandi var mér réttur diskur kúgfullur af bönunum. Ég sló um mig með orðunum sem ég kann á swahili, sem vakti mikla lukku.

Þá lögðum við af stað. Við hjóluðum í gegnum hverfið hans en svo var hann með fullt af stöðum í huga: við enduðum í allsherjar landbúnaðarferð. Hann sýndi mér hrísgrónaakra. Þeir voru á floti í vatni. Handan hrísgrjónaakurstins var bananaskógur með öpum og þangað var ferðinni heitið. Við lyftum upp hjólunum okkar og byrjuðum að ganga eftir örmjóum, upphækkuðum stígum hrísgrjónaakursins með hjólin okkar. Við fórum líka yfir nokkrar "brýr" sem voru 1 trjádrumbur. En drullan og vatnið jókst bara og jókst  og okkur var ráðlagt af hrísgrjónabóndunum að snúa við, þetta yrði enn verra, svo við snérum við. Næst hjóluðum við milli mangó- og bananatrjáa, sáum ástaraldinstré og fórum að litlu vatni þar sem konur voru að þvo einhvers konar fræ og leggja til þerris. Þwim fannst mikið til myndavélarinnar minnar koma og vildu að ég tæki margar myndir af mér og þeim. 

Að öllu þessu loknu vorum við aftur komin heim til Ramadhans. Mamma hans var búin að elda fyrir okkur og tók ekki annað í mál en að ég borðaði hjá þeim. Ég kom inn til þeirra, þar sem þau buggu í tveggja herbergja húsi (stofa og svefnherbergi). Allir veggir voru þaktir í coca cola veggspjöldum. Mér fannst það pínu spes og spurði Ramadhan útí það. Hann sagði mér að honum hafi áskotnast Coca cola veggspjöld í gegnum gömlu vinnuna sína. Ég sá reyndar að bakvið veggspjöldin var bara einangrunin í húsinu, hrísgrjónapokar. Ég hugsa að þeim hafin fundist stofan snyrtilegri svona.


Ótrúlega áhugaverð hjólaferð númer tvö. Rhamadan og fjölskylda alveg endalaust yndæl eins og Tansaníubúum er lagið.

Thursday, April 23, 2015

Það sem af er viku

Nemendurnir í Gabriella center eru enn í milliannafríi. Fyrstu tvær vikurnar voru notaðar í undirbúning. Þessi vika var hins vera Therapy vika. Við vorum með 10 börn sem komu til að vera í viku í endurhæfingu. Með hverju barni kom móðir, systir eða care taker sem fylgir barninu yfir vikuna, fær fræðslu um fötlun barnsins og fylgir barninu í öllu því prógrammi sem það tekur þátt í til þess að læra hvernig æfingar/meðhöndlun/íhlutun er ráðlögð.

Börnin voru eins misjöfn og þau voru mörg. Í venjulegri viku eru um 80 börn í skólanum en núna voru þau 10. Það varð til þess að starfsfólkið, sérstaklega Brenda, forstöðukonan hefur gefið sér góðan tíma í að útskýra fyrir okkur allt sem er í gangi hjá börnunum, kenna og sýna. Ég er búin að læra heilmikið um alls kyns námsörðugleika, sjónskynjunarerfiðleika, hegðunarvandamál, hreyfingavandamál, lömun eða bara nefndu það. Mér hefur hálf liðið eins og höfuðið á mér væri að springa eftir daginn þegar ég hef komið heim og reynt að lesa krot dagsins yfir og skrifa það samviskusamlega niður til að gleyma því ekki.


Það er átakanlegt að hitta 10 ára barn sem er búið að vera 4 ár í skóla en kann hvorki að skrifa nafnið sitt eða leggja saman tvo og tvo. Hér er einn kennari með 50 börn í venjulegum skólum og ekki hægt að sinna hverju barni fyrir sig. Ég er líka búin að vinna með barn sem lítur út fyrir að vera 4ra ára, hegðar sér eins og 4ra ára en kemst svo að því að barnið er 12 ára. Það hefur aldrei farið í skóla, setið iðjulaust meira og minna alla sína ævi og sáralitla örvun fengið. Fötlunarfordómar koma sterkir þarna inn en þó foreldrar vilji gera meira fyrir börnin sín þá vita þau bara ekki hvernig á að vinna með barnið eða að þau geti leitað sér aðstoðar (Aðstoð er líka alls ekki möguleg fyrir alla). Það er líka gleðilegt að sjá börnin mæta nú með ættingjum sínum í von um breytingar og betri tíma.

Monday, April 20, 2015

Haninn

Þá er það partur 2 síðasta laugardag. Hér er hægt að kaupa lifandi hænur á markaðnum. Það er líka hægt að kaupa tilbúna frysta kjúklinga í súpermarkaðnum og það er yfirleitt gert. Um síðustu helgi ákváðum við, eftir minni bón að kaupa lifandi hænu og elda hana. Mér fannst mikið til þess koma og flestir sem ég umgengst vissu af þessu komandi verkefni mínu. Ég og Sam fórum því í eftirmiðdaginn til bónda í hverfinu, til vinkonu mömmu Rósu sem vissi af komu okkar. Hún var búin að velja handa okkur þennan myndar hana sem við gripum um vængina og röltum með heim.

Þegar heim var komið tók næsta verkefni við. Aflífa hanann (sem Sam gerði) dýfa honum svo í sjóðandi vatn og reita fjaðrirnar af. Ég var vel undirbúin, var búin að kaupa mér hanska. Þegar ég tók þá upp var mikið hlegið en ég sagðist vera með sár á puttanum og VERÐA að nota hanska. Svo var hafist handa við af-fiðrunina. Lyktin af dýrinu var ekki góð.

Næst var að hluta hanann og að sjálfsögðu, eins og sönnum Tansaníubúm sæmir, var allt nýtt (þarmasósusagan um daginn var ekki einsdæmi). Að vísu var tekið innan úr maganum (það sem enn var ómelt). Haninn var svo soðinn vel og lengi, þar á eftir var hann matreiddur með grænmeti og hrísgrjónum. Ég hafði mjög takmarkaða list á kjúklingnum, þar sem blóðlyktin fyllti enn öll mín vit. Ég smakkaði hann þó og hafði mig í að borða magann úr dýrinu líka. Sam sat við hliðina á mér, veifði hausnum á hananum framan í mig, mér til takmarkaðrar ánægju, og borðaði hann með bestu lyst. 

Í gær borðuðum við afganga, þá var matarlystin komin og fannst mér kjúklingurinn mun betri. Hafði mig meira að segja í að naga eina klóna.


                                           Mynd frá hænubúinu (haninn okkar er ekki hér)



                                                                         Bon appétit!
                                           

Sunday, April 19, 2015

Hjólaferðin

Ég átti mjög skemmtilegan dag í gær. Hér kemur partur eitt.
Ég byrjaði daginn á að fara niður í bæ að hitta Marlou og Evu, hollensku stelpunum sem eru í verknámi á sama stað og ég er. Við þurftum að prenta og plasta nokkur blöð. Þegar því var lokið var ég búin að ákveða að láta verða af langþrárðu ætlunarverki. Að kaupa mér reiðhjól
Eina hjólabúðin sem ég vissi um er í hinum enda bæjarinns. Ég lagði af stað en á leiðinni hitti ég flycatcher sem ég tala stundum við (mann sem selur safariferðir). Ég sagði honum að ég ætlaði mér ekki að kaupa ferð á Kilimanjaro í dag því ég ætlaði mér að kaupa mér hjól. Ekki málið, hann vildi sýna mér hvar ég gæti keypt hjól og selt það aftur þegar ég færi. Við af stað og vinur hans með. Ég hélt að hann væri með búð einhversstaðar rétt hjá í huga en nei, hann var greinilega á leið í búðina sem ég ætlaði í. Svo við röltum saman af stað, þeir voru ágætis félagsskapur á göngunni. 

Þá komum við á markaðinn. Vinurinn staðnæmdist fyrir framan einn básinn og sagði: Þetta er besti staðurinn, skælbrosandi. Ég leit á básinn, eins og eitt spurningamerki. Básinn var fullur af töskum. Ég leit heldur undrandi á þá og sagði: I´m looking for a bike. Vinurinn: Bike? I think you say bag. Við héldum áfram. Hjólabúðin var rétt hjá og þangað fórum við. Ég fékk held ég 6 hjálparkokka við að velja mér hjól og þegar ég sá það sem mér leist á hlupu allir til að pumpa betur í dekkin og gera það fínt fyrir mig. Að því loknu fékk ég að prufa hjólið. Þetta var bara ágætis hjól. Við komum okkur saman um ágætis verð og ég bað vinsamlegast um nafn og símanúmer seljandans ef eitthvað þyrfti að laga.

Þá hjólaði ég af stað. Tilfinningin við að hjóla var alveg yndisleg. Ég fékk alveg svona vellíðunartilfinningu niður í tær og fram í fingurgóma. Ég hjólaði og hjólaði og hjólaði. Ég var komin inn í hverfi sem var heldur fátæklegt og allir sem sáu mig fara framhjá hlupu út á götu þegar þau sáu hvítu manneskjuna , veifuðu og kölluðu Jambo (hallo) af lífs og sálar kröftum. Þegar ég ætlaði að hjóla til baka var greinilega búið að kalla til enskumælandi manneskjuna í hverfinu sem hljóp af stað til að spjalla við mig. Það var hinn yndæli Ramadani. Ég sagði honum að ég væri að skoða mig um í Moshi á nýja hjólinu mínu. Hann var ekki lengi að hlaupa til, sækja sitt og bauðst til að sýna mér um.  Það var ég nú heldur betur til í og við enduðum í 2ja eða 3ja tíma hjólaferð vítt og breitt um bæinn og úthverfin. Fyrst sýndi hann mér helstu byggingar bæjarinns (ég hafði séð margar þeirra en vissi ekki hvað þær voru). Svo sýndi hann mér kaffiverksmiðju, brugghús og járnsmiði að vinnu ásamt ýmsu öðru. Þegar ég sagði honum hvað ég væri að gera í Tansaníu fór hann með mig túr um helstu heilbrigðis- og endurhæfingarstofnanir bæjarinns. Við stoppuðum líka við heima hjá honum í miðri ferðinni (vorum svolítið á vappinu fram og aftur). Hann rekur litla búð fyrir utan húsið sitt og við fengum okkur banana í síðdegiskaffi auk þess sem ég hitti myndarlega kökusneið af hverfinu í leiðinni.


Þegar ég kom heim tók ég eftir því að ég var með risastóra blöðru á fætinum og bakið á mér var skaðbrennt. Ég hafði ekkert tekið efir því í hjóla-sælu-vímunni minni.


Við stoppuðum í búðinni hjá Ramadani. Hittum systur hans og nágranna og borðuðum banana.

Wednesday, April 15, 2015

Heimilisathuganir

Í byrjun apríl fóru börnin í skólanum í mánaðarlangt frí (milliannafrí) sem er þrisvar á ári með jöfnu millibili. Gabriella centre er skóli þar sem höfuðáherslan er á endurhæfingu og gera börnin sjálfstæð í samfélaginu en einnig er lagt uppúr hefðbundnari skólaverkefnum eins og skrift og stærðfræði. Foreldrarnir komu að sækja börnin í vikunni fyrir páska þar sem þeir fengu viðtal við kennara og iðjuþjálfa barns síns og flestir dvöldu svo í skólanum eða nágrenni fram yfir einhverfudaginn til að geta tekið þátt í honum. Í foreldraviðtölunum var rætt við foreldra um hvernig gengi heima/hafi gengið í síðasta fríi. Einnig var rætt um hvaða verkefni nemandinn hafi unnið að á síðustu önn og hvað skólinn vildi að unnið væri með heima í fríinu.

Nú eru tíu dagar liðnir af fríinu og í þessari viku var farið í heimilisathuganir til að athuga hvernig gengur, hvort verið sé að vinna að áætluninni sem var gerð og hvort við gætum aðstoðað á einhvern hátt við að framfylgja henni. Einnig er gott að koma í heimsókn á heimilin til að fá raunhæfa mynd af heimilisaðstæðum og hvernig hægt er að vinna með þær bæði heima og í skólanum.

12 börn úr skólanum voru valin að þessu sinni til að heimsækja. Ég og Mde, sem er iðjuþjálfi og eðalpía fengum einn hópinn. Heimsóknunum var skipt niður eftir búsetu og svo skiptust starfsmenn á upplýsingum eftir því hver hafði umsjón með barninu. Í hópnum okkar voru 3 börn en við heimsóttum tvö þar sem eitt var ekki heima.

Að sumu leiti voru heimilisathuganirnar eins og heima á Íslandi. Við fórum af stað með vissa þætti sem við vildum skoða. Í heimsóknunum var heimilið og umhverfið skoðað til að meta möguleika og hindranir. Einnig rætt við nemanda og forráðamenn, nemandinn beðinn um að vinna nokkur verkefni svo hægt væri að sjá hvernig gengi. Allt var svo skráð rækilega niður.

Að öðru leiti voru heimsóknirnar öðruvísi. Á heimilisathugunarblaðinu voru spurningar eins og: x). er heimilið búið til úr steypu/múrsteinum/mold? x).hvernig er aðgengi að rafmagni og vatni? x). Hver eru viðhorf fjölskyldunnar til barnsins? x). Hver eru viðhorf nágranna til barnsins? Þegar umhverfið var skoðað þurfti að skoða hvaða dýr þau ættu og við hvað foreldrarnir störfuðu, útfrá því gátum við ályktað útí hvaða starfsstétt barnið gæti líklega farið í í framtíðinni.

Í fyrri heimsókninni var búið að útbúa veitingar og byrjað var á að setjast niður og spjalla um hvernig gengi. Þau bjuggu í tveggja herbergja múrsteinahúsi. Eftir samtalið var ákveðið að fylgjast með barninu þvo þvott þar sem við komum með tillögur um hvað hún gæti gert til að vinna sér vekið auðveldara. Þar á eftir var gengið um svæðið þeirra til að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni varðandi áherslur á komandi önn (í þessu tilfelli var fjölskyldan t.d. með svín og hænur svo sjálfstæði við meðhöndlun á þeim dýrum eru verkefni sem þarf að vinna með á næstu önn).

Þá var það næsta heimsókn. Ekki hafði náðst í það heimili símleiðis en fjölskyldan sem við heimsóttum fyrst vissi hvar hin stelpan átti heima. Við örkuðum því af stað með fríðu fylgdarliði í gegnum hverfið, sem aðallegu voru maísakrar í mikilli grósku með troðningum á milli garða sem við gengum eftir. Fjölskylda 2 var heima. Þegar við mættum á svæðið var okkur tekið opnum örmum af öllu hverfinu og allir hlupu inn í hús sín til að redda okkur stólum. Sú fjölskylda bjó í moldarhúsi svo við sátum bara fyrir utan og allt hverfið settist með okkur, vorum ábyggilega svona 12.

Ótrúlega áhugaverður dagur, að upplifa fjóra klukkutíma í hefðbundnu Tansanísku sveitalífi, rölta um maísbreiður og fara í heimilisathugun í moldarhús. 



Ég smellti einni mynd úr hverfinu sem við vorum í

Saturday, April 11, 2015

ÍR-ingurinn

Ef þú hefur einhvern tíma sett gömul föt í fatagám, þá koma þau að góðum notum hér. Fötin sem eru seld á mörkuðum út um allt eru annað hvort notuð föt úr fatagámum eða úr fatabúðum sem ekki hafa selst.

Þegar við fórum í safariferðina byrjuðum við á því að keyra í gegnum Arusha, sem er borg sem er u.þ.b. klukkutíma héðan í burtu. Stemmningin var í hámarki, við vorum á leið í safariferð! Þegar við komum inn í borgina var margt fólk á ferli. Þar sem við keyrum eftir einni götuni verður mér litið á strák í bláum íþróttajakka og skyndilega sé ég að á vinstra brjóstinu á jakkanum er ÍR merkið. Ég trúi varla mínum eigin augum, lít betur á jakkann og sé þá að á hægra brjóstinu stendur "Hrefna" Ég varð að sjálfsögðu heldur betur hissa og segi stundarhátt yfir bílinn að strákurinn sé í íslenskum íþróttajakka og bendi á strákinn. Mubarak, safarileiðsögumanninum fannst þetta heldur betur áhugavert, sneri við á miðri götunni, fór frammúr stráknum og lagði svo bílnum neðar í götunni svo ég gæti tekið mynd af honum, og ef hann væri með eitthvað vesen gætum við keyrt strax í burtu.

Drengurinn kom nær og það stóð alveg. ÍR-Skíðadeild-Hrefna María. Ég greip upp myndavélina og smellti einni af honum. Strákurinn tók alveg eftir því en hann var hins vegar hinn almennilegasti og var heldur betur til í að ég tæki aðra mynd af sér í jakkanum og mér með (ég útskýrði fyrst fyrir honum hvernig málið stæði).

Ég spurði strákinn ekki meira útí það hvernig hann eignaðist jakkann en geri ráð fyrir að hann hafa komið í fatagámi með notuðum fötum.

Svo kæra Hrefna María, skíðadrottning úr ÍR, jakkinn þinn er í góðum höndum hins yndæla og myndarlega Alexanders í Arusha í Tansaníu :P

Tuesday, April 7, 2015

Safari

Ég fór í safariferð um páskana. Þetta var mikil skyndiákvörðun. Tanja og Max, sem hafa verið bestu vinir mínir hingað til ætluðu um helgina og spurðu hvort ég hefði áhuga á að slást í för með þeim. Ég ætlaði mér ekki að fara, spara það því mamma, pabbi og Kristín stefna á heimsókn í sumar en ákvað svo að það væri mun betri kostur að fara tvisvar en að fara kannski aldrei, ef Skeiðarvogsgengið hættir við. Ég vissi semsagt ekkert hvað ég var að fara útí nema þriggja daga jeppaferð um þjóðgarða og ég myndi sjá ljón og einhverja fugla.

En jeremías hvað þetta var frábær ferð! Meira en orð fá lýst. Við vorum þrjú í jeppa með bílstjóra/leiðsögumanni og fórum í þrjá þjóðgarða, einn hvern dag.

Leiðsögumaðurinn okkar, Mubarak, var einfaldlega of yndæll og skemmtilegur. Fræddi okkur um allt sem við vildum vita og þó hann væri örugglega að fara þessa ferð í þúsundasta skipti var hann svo áhugasamur að það hefði mátt halda að hann væri að fara þessa ferð sjálfur í fyrsta skipti. Hann var einnig fróður um dýrin og þekkti garðana eins og lófann á sér. Laugardegi, sunnudegi og mánudegi var semsagt varið á rúntinum um þjóðgarða Tansaníu ásamt fríðu föruneyti með myndavél í annarri hendinni og kíki í hinni. 

Þjóðgarðarnir þrír voru hver öðrum fallegri. Fyrsti garðurinn var hálfgerður frumskógur sem var stemmning að keyra í gegnum. Næsti garður var, að mér skildist, gamalt eldfjallaland. Þar var lítið af trjám svo við höfðum útsýni yfir stórt svæði í einu. Þriðji garðurinn var svo nokkuð fjalllendur með trjám á víð og dreif. Í þeim garði fórum við einnig í göngusafari, þar sem við vorum í fylgd með leiðsögumanni og vopnuðum verði.

  • Ég sá sebrahesta, sem eru með svo undurfallegan feld. Þó ég hafi verið rétt hjá þeim og horft mjög nákvæmlega í gegnum kíkinn minn var samt eins og rendurnar hefðu verið gerðar með pennastriki, þær voru svo skýrar.
  • Ég sá vörtusvín, sem borða á hnjánum, sem var frekar skondið. Þannig ná þau matnum sínum betur því efri vörin þeirra er svo miklu stærri en neðri vörin.
  • Ég sá gíraffa. Þeir voru allir svo fallegir og tignarlegir og risastórir. Þeir borðuðu og borðuðu og seinna komst ég að því að þeir borði um 70 kíló á dag.
  • Ég sá ljón, bara nokkrum metrum frá mér. Þau minntu mig pínu á Guðgeir. Þau lágu á bakinu og böðuðu sig í sólinni. Stóðu aðeins upp og hlömmuðu sér svo aftur niður eins og þau hefðu verið á hlaupum í marga tíma. Ljónsungarnir hlupu svo um og léku sér, alveg eins og Simbi og Nala.
  • Ég sá fugla sem beygðu fæturna fram á við (svona eiginlega eins og hnésklelin snéri öfugt).
  • Ég sá skærgula fugla og glansandi bláa fugla.
  • Ég sá fílahjörð sem kom svo nálægt að við slökktum á á bílnum og hvísluðum okkar á milli til að fæla þá ekki frá. Það var enginn annar safaribíll sjánalegur og okkur leið eins og við værum ein í heiminum með fílahjörðinni. Fílarnir gripu í grasið með rananum sínum, slógu því á herðarnar á sér til að ná moldinni burt og stungu því svo upp í munninn. Og héldu svo áfram. Þarna voru líka litlir ungar, fílar með horn og fílar með engin horn. Sumir skýldu sér undi tré en aðrir vöppuðu um í sólinni og fengu sér að borða. Við stóðum og fylgdumst með agndofa, alveg heillengi. Einn fíllinn kom svo nálægt að ef ég hefði teygt út hendina hefði ég snert hann. Þetta var rétt áður en við lögðum af stað heim í gær. 


Það var einfaldlega svo magnað að keyra um, fylgjast með sebrahestum og dádýrum bíta gras saman, keyra svo aðeins lengra og þá voru tveir strútar á vappi, horfa svo í hina áttina og fylgjast með vörtusvínum velta sér uppúr drullu og fallegir fuglar í öllum trjám. Það var líka svo ferskt loft þarna, stundum rigning og pínu gola. Ég meira að segja fór tvisvar í peysu. Það var mjög notalegt. Mig langaði eiginlega mest að hafa einhvern Íslending með mér í ferðinni til að geta notað meira af litskrúðugum lýsingarorðum yfir allri þessari fegurð og upplifun.



Friday, April 3, 2015

Alþjóðlegur dagur einhverfu


Í gær var alþjóððlegur dagur einhverfu. Dagurinn var haldinn hátíðlegur með pompi og prakt hér í Moshi í Tansaníu. Stofnunin mín, Gabriella center var í fararbroddi en fékk með sér fjölda annarra stofnana sem vinna með fötluðum börnum á svæðinu. Meginmarkmið hátíðarinnar var að auka samfélagsvitund á einhverfu og fötluðum einstaklingum yfir höfuð. 

Ég var reyndar búin að minnast á það áður en fordómar fyrir fötluðu fólki eru miklir hér. Margir halda að það sé smitandi eða að það beri með sér bölvun. Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi og hunsun á heimilum og í skólum eru frekar regla en undantekning. Á hegðun barnanna sem ég vinn með velti ég mikið fyrir mér hvað hafi verið haft fyrir þeim, hvað þau hafi fengið að kynnast í uppeldinu. Atferli sem menning eða fötlun getur ekki afsakað. 

Ég mætti snemma í gærmorgun niður í bæ þar sem börn og starfsfólk stofnananna sem tóku þátt söfnuðust saman. Ég man ekki eftir jafn fallegum sólardegi síðustu þrjár vikurnar og tilhlökkun var í loftinu. Allir fengu stuttermaboli. Á mínum bol stóð: Gabbriella center. Betri þekking á einhverfu eikur árangursríka meðhöndlun. Einnig var búið að útbúa fjölda skylta. Þá voru allir mættir. Allir komnir í boli. Allir búnir að stylla sér upp. Þá hóf lúðrasveit að spila, skiltin voru hafin á loft og hersingin marseraði af stað um götur bæarinns. Ég var fengin til að vera ein af svona tíu manns til að halda á risastóru skilti sem var fremst í skrúðgöngunni. Lögreglan stoppaði alla umferð á aðalgötum bæjarinns á meðan göngunni stóð, sem ég sá aldrei fyrir mér gerast í brjáluðu umferðinni sem er hérna. Að göngunni lokinni voru ræður, tónlist, dans og möns.


Ég var svo ofsalega stolt af þessu framtaki fyrir hönd samstarfsfélaga minna og þeirra sem að göngunni stóðu að ég fékk gæsahúð þegar gangan fór af stað. Hér er svo sannarlega mikil þörf á að auka samfélagsvitund um málefnið. Ég gekk þarna með skiltið mitt, í skærgræna bolnum mínum og börnin sem ég vinn með skærbrosandi allt í kring. Við náðum athygli allra bæjarbúa. Að hátíðinni lokinni gekk ég stolt um götur bæjarinns í skærgræna bolnum mínum, margir veittu honum athygli og ég reyndi að útskýra útá hvað dagurinn gengi. Elsku allir sem eruð tilbúin til að virða og lifa í samfélagi með einhverfum og fötluðum einstaklingum, til hamingju með daginn!