Monday, April 20, 2015

Haninn

Þá er það partur 2 síðasta laugardag. Hér er hægt að kaupa lifandi hænur á markaðnum. Það er líka hægt að kaupa tilbúna frysta kjúklinga í súpermarkaðnum og það er yfirleitt gert. Um síðustu helgi ákváðum við, eftir minni bón að kaupa lifandi hænu og elda hana. Mér fannst mikið til þess koma og flestir sem ég umgengst vissu af þessu komandi verkefni mínu. Ég og Sam fórum því í eftirmiðdaginn til bónda í hverfinu, til vinkonu mömmu Rósu sem vissi af komu okkar. Hún var búin að velja handa okkur þennan myndar hana sem við gripum um vængina og röltum með heim.

Þegar heim var komið tók næsta verkefni við. Aflífa hanann (sem Sam gerði) dýfa honum svo í sjóðandi vatn og reita fjaðrirnar af. Ég var vel undirbúin, var búin að kaupa mér hanska. Þegar ég tók þá upp var mikið hlegið en ég sagðist vera með sár á puttanum og VERÐA að nota hanska. Svo var hafist handa við af-fiðrunina. Lyktin af dýrinu var ekki góð.

Næst var að hluta hanann og að sjálfsögðu, eins og sönnum Tansaníubúm sæmir, var allt nýtt (þarmasósusagan um daginn var ekki einsdæmi). Að vísu var tekið innan úr maganum (það sem enn var ómelt). Haninn var svo soðinn vel og lengi, þar á eftir var hann matreiddur með grænmeti og hrísgrjónum. Ég hafði mjög takmarkaða list á kjúklingnum, þar sem blóðlyktin fyllti enn öll mín vit. Ég smakkaði hann þó og hafði mig í að borða magann úr dýrinu líka. Sam sat við hliðina á mér, veifði hausnum á hananum framan í mig, mér til takmarkaðrar ánægju, og borðaði hann með bestu lyst. 

Í gær borðuðum við afganga, þá var matarlystin komin og fannst mér kjúklingurinn mun betri. Hafði mig meira að segja í að naga eina klóna.


                                           Mynd frá hænubúinu (haninn okkar er ekki hér)



                                                                         Bon appétit!
                                           

3 comments:

  1. Já dóttir góð þú sérð þér og fólkinu í kringum þig fyrir uppákomum eins og þú hefur ávallt gert. Dásemdar frásōgn.

    ReplyDelete