Friday, April 3, 2015

Alþjóðlegur dagur einhverfu


Í gær var alþjóððlegur dagur einhverfu. Dagurinn var haldinn hátíðlegur með pompi og prakt hér í Moshi í Tansaníu. Stofnunin mín, Gabriella center var í fararbroddi en fékk með sér fjölda annarra stofnana sem vinna með fötluðum börnum á svæðinu. Meginmarkmið hátíðarinnar var að auka samfélagsvitund á einhverfu og fötluðum einstaklingum yfir höfuð. 

Ég var reyndar búin að minnast á það áður en fordómar fyrir fötluðu fólki eru miklir hér. Margir halda að það sé smitandi eða að það beri með sér bölvun. Líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi og hunsun á heimilum og í skólum eru frekar regla en undantekning. Á hegðun barnanna sem ég vinn með velti ég mikið fyrir mér hvað hafi verið haft fyrir þeim, hvað þau hafi fengið að kynnast í uppeldinu. Atferli sem menning eða fötlun getur ekki afsakað. 

Ég mætti snemma í gærmorgun niður í bæ þar sem börn og starfsfólk stofnananna sem tóku þátt söfnuðust saman. Ég man ekki eftir jafn fallegum sólardegi síðustu þrjár vikurnar og tilhlökkun var í loftinu. Allir fengu stuttermaboli. Á mínum bol stóð: Gabbriella center. Betri þekking á einhverfu eikur árangursríka meðhöndlun. Einnig var búið að útbúa fjölda skylta. Þá voru allir mættir. Allir komnir í boli. Allir búnir að stylla sér upp. Þá hóf lúðrasveit að spila, skiltin voru hafin á loft og hersingin marseraði af stað um götur bæarinns. Ég var fengin til að vera ein af svona tíu manns til að halda á risastóru skilti sem var fremst í skrúðgöngunni. Lögreglan stoppaði alla umferð á aðalgötum bæjarinns á meðan göngunni stóð, sem ég sá aldrei fyrir mér gerast í brjáluðu umferðinni sem er hérna. Að göngunni lokinni voru ræður, tónlist, dans og möns.


Ég var svo ofsalega stolt af þessu framtaki fyrir hönd samstarfsfélaga minna og þeirra sem að göngunni stóðu að ég fékk gæsahúð þegar gangan fór af stað. Hér er svo sannarlega mikil þörf á að auka samfélagsvitund um málefnið. Ég gekk þarna með skiltið mitt, í skærgræna bolnum mínum og börnin sem ég vinn með skærbrosandi allt í kring. Við náðum athygli allra bæjarbúa. Að hátíðinni lokinni gekk ég stolt um götur bæjarinns í skærgræna bolnum mínum, margir veittu honum athygli og ég reyndi að útskýra útá hvað dagurinn gengi. Elsku allir sem eruð tilbúin til að virða og lifa í samfélagi með einhverfum og fötluðum einstaklingum, til hamingju með daginn!   

No comments:

Post a Comment