Ég fór í safariferð um páskana. Þetta var mikil skyndiákvörðun. Tanja og Max, sem hafa verið bestu vinir mínir hingað til ætluðu um helgina og spurðu hvort ég hefði áhuga á að slást í för með þeim. Ég ætlaði mér ekki að fara, spara það því mamma, pabbi og Kristín stefna á heimsókn í sumar en ákvað svo að það væri mun betri kostur að fara tvisvar en að fara kannski aldrei, ef Skeiðarvogsgengið hættir við. Ég vissi semsagt ekkert hvað ég var að fara útí nema þriggja daga jeppaferð um þjóðgarða og ég myndi sjá ljón og einhverja fugla.
En jeremías hvað þetta var frábær ferð! Meira en orð fá lýst. Við vorum þrjú í jeppa með bílstjóra/leiðsögumanni og fórum í þrjá þjóðgarða, einn hvern dag.
Leiðsögumaðurinn okkar, Mubarak, var einfaldlega of yndæll og skemmtilegur. Fræddi okkur um allt sem við vildum vita og þó hann væri örugglega að fara þessa ferð í þúsundasta skipti var hann svo áhugasamur að það hefði mátt halda að hann væri að fara þessa ferð sjálfur í fyrsta skipti. Hann var einnig fróður um dýrin og þekkti garðana eins og lófann á sér. Laugardegi, sunnudegi og mánudegi var semsagt varið á rúntinum um þjóðgarða Tansaníu ásamt fríðu föruneyti með myndavél í annarri hendinni og kíki í hinni.
Þjóðgarðarnir þrír voru hver öðrum fallegri. Fyrsti garðurinn var hálfgerður frumskógur sem var stemmning að keyra í gegnum. Næsti garður var, að mér skildist, gamalt eldfjallaland. Þar var lítið af trjám svo við höfðum útsýni yfir stórt svæði í einu. Þriðji garðurinn var svo nokkuð fjalllendur með trjám á víð og dreif. Í þeim garði fórum við einnig í göngusafari, þar sem við vorum í fylgd með leiðsögumanni og vopnuðum verði.
- Ég sá sebrahesta, sem eru með svo undurfallegan feld. Þó ég hafi verið rétt hjá þeim og horft mjög nákvæmlega í gegnum kíkinn minn var samt eins og rendurnar hefðu verið gerðar með pennastriki, þær voru svo skýrar.
- Ég sá vörtusvín, sem borða á hnjánum, sem var frekar skondið. Þannig ná þau matnum sínum betur því efri vörin þeirra er svo miklu stærri en neðri vörin.
- Ég sá gíraffa. Þeir voru allir svo fallegir og tignarlegir og risastórir. Þeir borðuðu og borðuðu og seinna komst ég að því að þeir borði um 70 kíló á dag.
- Ég sá ljón, bara nokkrum metrum frá mér. Þau minntu mig pínu á Guðgeir. Þau lágu á bakinu og böðuðu sig í sólinni. Stóðu aðeins upp og hlömmuðu sér svo aftur niður eins og þau hefðu verið á hlaupum í marga tíma. Ljónsungarnir hlupu svo um og léku sér, alveg eins og Simbi og Nala.
- Ég sá fugla sem beygðu fæturna fram á við (svona eiginlega eins og hnésklelin snéri öfugt).
- Ég sá skærgula fugla og glansandi bláa fugla.
- Ég sá fílahjörð sem kom svo nálægt að við slökktum á á bílnum og hvísluðum okkar á milli til að fæla þá ekki frá. Það var enginn annar safaribíll sjánalegur og okkur leið eins og við værum ein í heiminum með fílahjörðinni. Fílarnir gripu í grasið með rananum sínum, slógu því á herðarnar á sér til að ná moldinni burt og stungu því svo upp í munninn. Og héldu svo áfram. Þarna voru líka litlir ungar, fílar með horn og fílar með engin horn. Sumir skýldu sér undi tré en aðrir vöppuðu um í sólinni og fengu sér að borða. Við stóðum og fylgdumst með agndofa, alveg heillengi. Einn fíllinn kom svo nálægt að ef ég hefði teygt út hendina hefði ég snert hann. Þetta var rétt áður en við lögðum af stað heim í gær.
Það var einfaldlega svo magnað að keyra um, fylgjast með sebrahestum og dádýrum bíta gras saman, keyra svo aðeins lengra og þá voru tveir strútar á vappi, horfa svo í hina áttina og fylgjast með vörtusvínum velta sér uppúr drullu og fallegir fuglar í öllum trjám. Það var líka svo ferskt loft þarna, stundum rigning og pínu gola. Ég meira að segja fór tvisvar í peysu. Það var mjög notalegt. Mig langaði eiginlega mest að hafa einhvern Íslending með mér í ferðinni til að geta notað meira af litskrúðugum lýsingarorðum yfir allri þessari fegurð og upplifun.
Vá hvað mig langar til Afríku núna! Held ég feli mig bara ofaní töskunni hjá Skvimm-genginu.
ReplyDeletehahaha, meira en velkomin, alltaf velkomin. Váts hvað þetta var mikil upplifun!
ReplyDelete