Í byrjun apríl fóru börnin í skólanum í mánaðarlangt frí (milliannafrí) sem er þrisvar á ári með jöfnu millibili. Gabriella centre er skóli þar sem höfuðáherslan er á endurhæfingu og gera börnin sjálfstæð í samfélaginu en einnig er lagt uppúr hefðbundnari skólaverkefnum eins og skrift og stærðfræði. Foreldrarnir komu að sækja börnin í vikunni fyrir páska þar sem þeir fengu viðtal við kennara og iðjuþjálfa barns síns og flestir dvöldu svo í skólanum eða nágrenni fram yfir einhverfudaginn til að geta tekið þátt í honum. Í foreldraviðtölunum var rætt við foreldra um hvernig gengi heima/hafi gengið í síðasta fríi. Einnig var rætt um hvaða verkefni nemandinn hafi unnið að á síðustu önn og hvað skólinn vildi að unnið væri með heima í fríinu.
Nú eru tíu dagar liðnir af fríinu og í þessari viku var farið í heimilisathuganir til að athuga hvernig gengur, hvort verið sé að vinna að áætluninni sem var gerð og hvort við gætum aðstoðað á einhvern hátt við að framfylgja henni. Einnig er gott að koma í heimsókn á heimilin til að fá raunhæfa mynd af heimilisaðstæðum og hvernig hægt er að vinna með þær bæði heima og í skólanum.
12 börn úr skólanum voru valin að þessu sinni til að heimsækja. Ég og Mde, sem er iðjuþjálfi og eðalpía fengum einn hópinn. Heimsóknunum var skipt niður eftir búsetu og svo skiptust starfsmenn á upplýsingum eftir því hver hafði umsjón með barninu. Í hópnum okkar voru 3 börn en við heimsóttum tvö þar sem eitt var ekki heima.
Að sumu leiti voru heimilisathuganirnar eins og heima á Íslandi. Við fórum af stað með vissa þætti sem við vildum skoða. Í heimsóknunum var heimilið og umhverfið skoðað til að meta möguleika og hindranir. Einnig rætt við nemanda og forráðamenn, nemandinn beðinn um að vinna nokkur verkefni svo hægt væri að sjá hvernig gengi. Allt var svo skráð rækilega niður.
Að öðru leiti voru heimsóknirnar öðruvísi. Á heimilisathugunarblaðinu voru spurningar eins og: x). er heimilið búið til úr steypu/múrsteinum/mold? x).hvernig er aðgengi að rafmagni og vatni? x). Hver eru viðhorf fjölskyldunnar til barnsins? x). Hver eru viðhorf nágranna til barnsins? Þegar umhverfið var skoðað þurfti að skoða hvaða dýr þau ættu og við hvað foreldrarnir störfuðu, útfrá því gátum við ályktað útí hvaða starfsstétt barnið gæti líklega farið í í framtíðinni.
Í fyrri heimsókninni var búið að útbúa veitingar og byrjað var á að setjast niður og spjalla um hvernig gengi. Þau bjuggu í tveggja herbergja múrsteinahúsi. Eftir samtalið var ákveðið að fylgjast með barninu þvo þvott þar sem við komum með tillögur um hvað hún gæti gert til að vinna sér vekið auðveldara. Þar á eftir var gengið um svæðið þeirra til að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni varðandi áherslur á komandi önn (í þessu tilfelli var fjölskyldan t.d. með svín og hænur svo sjálfstæði við meðhöndlun á þeim dýrum eru verkefni sem þarf að vinna með á næstu önn).
Þá var það næsta heimsókn. Ekki hafði náðst í það heimili símleiðis en fjölskyldan sem við heimsóttum fyrst vissi hvar hin stelpan átti heima. Við örkuðum því af stað með fríðu fylgdarliði í gegnum hverfið, sem aðallegu voru maísakrar í mikilli grósku með troðningum á milli garða sem við gengum eftir. Fjölskylda 2 var heima. Þegar við mættum á svæðið var okkur tekið opnum örmum af öllu hverfinu og allir hlupu inn í hús sín til að redda okkur stólum. Sú fjölskylda bjó í moldarhúsi svo við sátum bara fyrir utan og allt hverfið settist með okkur, vorum ábyggilega svona 12.
Ótrúlega áhugaverður dagur, að upplifa fjóra klukkutíma í hefðbundnu Tansanísku sveitalífi, rölta um maísbreiður og fara í heimilisathugun í moldarhús.
Var að frétta af blogginu þínu fyrst í kvöld. Alger unun að lesa í gegn.
ReplyDeleteHafðu það sem allra best Arndís, hlakka til að fylgjast með ævintýrum þínum.
Takk fyrir það Magni. Já, njóttu vel. Ég nýt mín hér í botn og finnst svo gaman að heyra aðra njóta ferðarinnar með mér :)
Delete