Sunday, April 19, 2015

Hjólaferðin

Ég átti mjög skemmtilegan dag í gær. Hér kemur partur eitt.
Ég byrjaði daginn á að fara niður í bæ að hitta Marlou og Evu, hollensku stelpunum sem eru í verknámi á sama stað og ég er. Við þurftum að prenta og plasta nokkur blöð. Þegar því var lokið var ég búin að ákveða að láta verða af langþrárðu ætlunarverki. Að kaupa mér reiðhjól
Eina hjólabúðin sem ég vissi um er í hinum enda bæjarinns. Ég lagði af stað en á leiðinni hitti ég flycatcher sem ég tala stundum við (mann sem selur safariferðir). Ég sagði honum að ég ætlaði mér ekki að kaupa ferð á Kilimanjaro í dag því ég ætlaði mér að kaupa mér hjól. Ekki málið, hann vildi sýna mér hvar ég gæti keypt hjól og selt það aftur þegar ég færi. Við af stað og vinur hans með. Ég hélt að hann væri með búð einhversstaðar rétt hjá í huga en nei, hann var greinilega á leið í búðina sem ég ætlaði í. Svo við röltum saman af stað, þeir voru ágætis félagsskapur á göngunni. 

Þá komum við á markaðinn. Vinurinn staðnæmdist fyrir framan einn básinn og sagði: Þetta er besti staðurinn, skælbrosandi. Ég leit á básinn, eins og eitt spurningamerki. Básinn var fullur af töskum. Ég leit heldur undrandi á þá og sagði: I´m looking for a bike. Vinurinn: Bike? I think you say bag. Við héldum áfram. Hjólabúðin var rétt hjá og þangað fórum við. Ég fékk held ég 6 hjálparkokka við að velja mér hjól og þegar ég sá það sem mér leist á hlupu allir til að pumpa betur í dekkin og gera það fínt fyrir mig. Að því loknu fékk ég að prufa hjólið. Þetta var bara ágætis hjól. Við komum okkur saman um ágætis verð og ég bað vinsamlegast um nafn og símanúmer seljandans ef eitthvað þyrfti að laga.

Þá hjólaði ég af stað. Tilfinningin við að hjóla var alveg yndisleg. Ég fékk alveg svona vellíðunartilfinningu niður í tær og fram í fingurgóma. Ég hjólaði og hjólaði og hjólaði. Ég var komin inn í hverfi sem var heldur fátæklegt og allir sem sáu mig fara framhjá hlupu út á götu þegar þau sáu hvítu manneskjuna , veifuðu og kölluðu Jambo (hallo) af lífs og sálar kröftum. Þegar ég ætlaði að hjóla til baka var greinilega búið að kalla til enskumælandi manneskjuna í hverfinu sem hljóp af stað til að spjalla við mig. Það var hinn yndæli Ramadani. Ég sagði honum að ég væri að skoða mig um í Moshi á nýja hjólinu mínu. Hann var ekki lengi að hlaupa til, sækja sitt og bauðst til að sýna mér um.  Það var ég nú heldur betur til í og við enduðum í 2ja eða 3ja tíma hjólaferð vítt og breitt um bæinn og úthverfin. Fyrst sýndi hann mér helstu byggingar bæjarinns (ég hafði séð margar þeirra en vissi ekki hvað þær voru). Svo sýndi hann mér kaffiverksmiðju, brugghús og járnsmiði að vinnu ásamt ýmsu öðru. Þegar ég sagði honum hvað ég væri að gera í Tansaníu fór hann með mig túr um helstu heilbrigðis- og endurhæfingarstofnanir bæjarinns. Við stoppuðum líka við heima hjá honum í miðri ferðinni (vorum svolítið á vappinu fram og aftur). Hann rekur litla búð fyrir utan húsið sitt og við fengum okkur banana í síðdegiskaffi auk þess sem ég hitti myndarlega kökusneið af hverfinu í leiðinni.


Þegar ég kom heim tók ég eftir því að ég var með risastóra blöðru á fætinum og bakið á mér var skaðbrennt. Ég hafði ekkert tekið efir því í hjóla-sælu-vímunni minni.


Við stoppuðum í búðinni hjá Ramadani. Hittum systur hans og nágranna og borðuðum banana.

4 comments:

  1. Þú ert nú meiri ævintýra-fíkillinn, mín elskulegust. Mér finnst þú kjōrkuð og flott. Haltu áfram að njóta.

    ReplyDelete
  2. Glæsilegt að heyra að þú sért farin að hjóla um þarna úti! Það er nú engin Arndís án hjóls :D

    ReplyDelete
  3. Það var nákvæmlega þannig...

    ReplyDelete