Sunday, May 24, 2015

Spítali í þróunarlandi

Pabbinn hér á heimilinu þurfti að fara á spítala. Ég kom því inná tansanískt sjúkrahús i vikunni og ég verð að segja að það var upplifun, sorgleg upplifun fannst mér.

Hér í Moshi er aðal spítalinn fyrir norður Tansaníu. Þar eru um 450 rúm og spítalinn þjónustar svæði sem um 11 milljónir manns lifa á. Pabbinn hefur verið þar í nokkra daga í rannsóknum og heimilislífið hefur snúist um heimsóknartíma sjúkrahússins síðan. Mama Rose hefur ekki farið í vinnuna síðan hann var lagður inn. Það er meira en að segja það að eiga ættingja á sjúkrahúsi. Hún fer til hans þrisvar á dag með mat og þarf að passa að mæta á heimsóknartímunum. Í heimsóknartímunum þarf hún líka oft að ná á lækninn til þess að hann gefi henni lyfseðil, svo þarf hún að fara sjálf og kaupa lyfin. Þetta tekur allt saman ógnartíma. Fjölskyldan mín er samt heppin að búa hér í bænum og eiga bíl til að geta farið með það sem hann vantar.
Mama Rose leggur einnig mikið uppúr því að Baba George sé heimsóttur. Ég hef farið tvisvar með fjölskyldunni í heimsókn. Það hefur verið upplifun. Lyktin á sjúkrahúsinu var skrýtin og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað spítalinn er pínulítill, minni en borgarspítalinn. Inná stofunni sem Baba George lá voru 9 aðrir karlar. Rúmin lágu hlið við hlið með eitt náttborð á milli. Þar var fólk með alls konar mat og tebrúsann sinn. Það voru allir með teppi en fæstir með lak. Kodda þurfti fólk að útvega sjálft. Á heimsóknartímanum var margt um manninn inni á stofunni. Á leiðinni upp á stofuna greip ég um handriðið á stiganum en mamaRose stoppaði mig strax af. Sagði það ekki vera hreint og ég gæti smitast. Hún sagði líka að hann gæti fengið mat á sjúkrahúsinu en hún treysti ekki matnum. Þegar við komum heim voru allir sendir beinustu leið að vaskinum að þvo á okkur hendurnar. MamaRose er ekki paranoiuð kona. Ég veit ekki hvað af þessari hreinlætishræðslu hennar hefur við rök að styðjast en engu að síður finnst mér viðhorf hennar segja mér hvaða traust hún beri til spítalans.  Í heimsóknunum hef ég séð sárafáa lækna og hjúkrunarfræðinga. Hlutföllin af starfsfólki og sjúklingum var bara gjörsamlega allt annað en heima.


Mér leið hálf óþægilega þarna inni. Ég fann fyrir vonleysi. Ef það kemur eitthvað fyrir Tansaníubúa, eitthvað alvarlegt, þá er þessi staður fólks eina von. Ég var óendanlega fegin fyrir sjúkratrygginguna mína þetta kvöld og sá nú ástæðuna fyrir því að ég var skyldug til að kaupa tryggingu sem inniheldur sjúkraflug beint heim ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir. Síðan ég byrjaði að vinna á endurhæfingarmiðstöðinni hef ég heyrt fullt af átakanlegum sögum en ég var viðbúin því og held ég sé með smá brynju á mér gagnvart þeim. Á þessari stundu fannst mér samt heimurinn hins vegar ósanngjarn. Að fjölskyldan sem ég bý hjá, þessi yndislega fjölskylda (og líka allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst hér) eigi ekki kost á betri læknisþjónustu bara af því að þau eru fædd á öðrum stað á jörðinni en ég.

Sunday, May 17, 2015

Sunnudagar eru kirkjudagar

Tansanía hefur verið þekkt fyrir það að hér búi fólk af margs konar trúarbrögðum sem lifir í sátt og samlyndi við hvort annað. Kristnir, múslimar, hindúar og ýmis önnur trúarbrögð eins og andatrú o.fl. Helmingur íbúanna eru kristnir, sem skiptist í rómverk-kaþólska og lútherska. Fjölskyldan sem ég bý hjá er Lútherk kristin en húshjálpin er múslimi. Á sunnudögum eru guðþjónustur í gangi allan morguninn, byrja eldsnemma á sunnudagsmorgnum go svo eru alltaf nýjar og nýjar þjónustur á uþb. 1 1/2 tíma fresti (ein tekur við af annarri). Mamma Rose fer yfirleitt í margar messur og er í kirkjunni hálfan daginn en pabbinn og sonurinn láta eina athöfn duga.

Sunnudagar eru kirkjudagar, það fer ekki á milli mála. Við Tanja og Max ákváðum að fara saman í einn sunnudaginn. Þau eru kaþólsk svo við ákváðum að fara í kaþólska messu. Þegar ég vaknaði fór það ekki á milli mála að í dag væri sunnudagur. Sam var að strauja skyrtuna sína, mamma Rósa fór í hárgreiðslu kvöldið áður og var komin í kjól. Það var mun minna af fólki á götum úti en á öðrum dögum og þeir sem voru á ferli voru allir uppáklæddir. Það sást langar leiðir hvar væru kirkjur því þangað streymdi fólkið, hver í sína kirkju.

Ég kom svo í kirkjuna sem við ætluðum að hittast í. Þar var margt um manninn. Allir í sínu fínasta pússi og ég líka. Ég hafði aldrei farið í kaþólska messu áður og allt sem mér fannst nýtt og skrýtið eins og að vera alltaf að krjúpa, (það voru spes krjúpubekkir) og svo hafði presturinn alveg fullt af aðstoðarmönnum til að rétta sér hitt og þetta, halda á sálmabokinni o.fl. Það voru allt börn í einhvers konar kuflum/búningum. Tanja og Max sögðu samt að það væri bara alveg eins í Þýskalandi.


Áhugavert að kynnast þessu en 1 1/2 tími af swahili sem ég skildi ekki neitt var dálítið leiðigjarnt. Held ég haldi mig bara við mínar eigin íslensku bænir þó það hafi verið gaman að prufa.

Friday, May 15, 2015

Trúlofunarboð

Ég fór í brúðkaups fyrirpartý síðasta sunnudag, eða túlofunarboð. Brúðkaupin hér eru nú meira vesenið.

Fjölskyldan mín er skyld brúðurinni. 
Fyrstu helgina sem ég var hér fór ég í boð þar sem verið var að "samþykkja trúlofunina". Það var um 50 manna boð sem haldið var í móðurfjölskyldunni, af því að það á alltaf að vera í móðurfjölskyldunni, svo koma nokkrir fulltrúar úr föðurfjölskyldunni til að samþykkja. Leigð voru partýtjöld, fengin veisluþjónusta og svo var borið í fólk mat og drykk svo veglega að venjulegt íslenskt brúðkaup eru smáveislur í samanburði. Þetta boð stóð yfir í um 7 tíma.
Um síðustu helgi var trúlofunarboð. Það var haldið á sama stað en nú þurfti helmingi fleiri veislutjöld fyri gesti. Nú var helmingi fleira fólki boðið og aftur var borið í fólk mat og drykk eins og það gat í sig látið, en nú var einnig boðið upp á kvöldmat um kvöldið. Boðið byrjaði á um 90 mínútna guðsþjónustu og veislan stóð yfir í alls níu tíma.
Í lok júlí verður Send Off veisla. Þá er verið að senda brúðurina formlega til mannsins.  Það er víst enn stærri veisla sem þarf að halda í sal í næsta bæ til að koma öllum fyrir.
Allar ofangreindar veislur eru haldnar útí sveit hér rétt hjá Moshi þó hjónaleysurnar búi í borg sem er í um tíu klst. fjarlægð, af því að það er þannig.
Að lokum er það brúðkaupið, sem er víst enn stærri veisla. Hún verður haldin á eyju útá Viktoríuvatni. Ég hef horft á brúðkaup úr fjölskyldunni á DVD disk og heyrt sögur frá fólki sem hefur farið í tansanísk brúðkaup. Brúðkaupsdagurinn er þaulskipulagður frá A til Ö. Hvenær á að kyssast, hvenær á að borða forrréttinn, hvenær á að borða aðalréttinn, hvenær á að dansa, hver heldur ræður. Ég hef aðeins spurt mama Rose útí þetta og sagt að mér finnist þetta allt of mikið vesen. Hún hristir bara hausinn yfir þessum staðhæfingum mínum, ég fæ alltaf sama svarið: Because it is the tradition. 


Ég hitti hina verðandi brúður aðeins daginn áður. Hún er 26 ára. Ég sagði henni að þetta væri mjög frábrugðið því sem ég ætti að venjast. Hún sagðist eiga þónokkuð af vinum frá Evrópu og hafa heyrt hvernig brúðkaup fara fram þar. Hún hlakkaði til morgundagsins en henni fannst þetta alltof mikil fyrihöfn og alveg ofboðslega dýrt. Engu að síður var þetta flott veisla þar sem fólk var glatt á hjalla, spjallaði, dansaði og söng en ég get svo svarið það, ef ég gifti mig einhvern tíma mun ég ekki halda Tansanískt brúðkaup. 

Gotta love it

Þetta blogg var skrifað í vonleysiskasti síðasta þriðjudag. Ég hef ekki komist á netið síðustu daga svo bloggið verður opinberað núna:

Ef það er eitthvað sem á að taka með sér til Tansaníu þá er það þolinmæði og æðruleysi.

Ég er nýkomin heim úr vinnunni. Þremur og hálfum tíma eftir að ég lagði af stað heim. Ég var á hjóli í fyrsta skiptið og ætlaði að hjóla heim. Keðjan datt af. Ég lagaði það. Keðjan datt aftur af 5 mín seinna. Ég fékk áhorfendahóp af fimm pirrandi krökkum að suða um pening meðan ég lagaði keðjuna. Keðjan datt aftur af og þá var mér bent á að kíkja til einhvers bifvélavirkja rétt hjá. Hann tók fram töngina sína, bisaðist heillengi við verkið. Hjólið varð skárra en hann sagði mér að láta kíkja aftur á það þegar ég rækist á einhvern hjólaviðgerðarmann. Ég hjólaði ofur varlega af stað. Í þetta skiptið lifði keðjan í um 10 mínútur. Ég lagaði keðjuna. Hún datt af. Ég ákvað að reiða hjólið. Ég var stödd langt frá bænum og engir viðgerðarmenn væntanlegir í bráð. 
Eftir dágóða stund hjólaði maður framhjá mér. Hann stoppaði hjólið sitt og vildi fá að aðstoða mig. Maðurinn, sem heitir Laurenz var með alls konar verkfæri hengd á hjólið sitt og hann sagðist alltaf vera með þau á sér ef hjólið bilaði á leiðinni. Bara basic. Hann byrjaði að laga. Komst svo að því að það var annað sem var að sem hann gat ekki lagað. Ég sagði Laurenz hvar ég ætti heima. Það var enn heillangt þangað. Hann vildi fara með mig til viðgerðarmanns. Ég var mjög þakklát fyrir það en sagðist þó alveg geta fundið viðgerðarmann sjálf ef hann vildi komast heim. Við löbbuðum af stað og hann lagði sig fram við að kenna mér meiri Swahili á leiðinni. Ég skildi ekkert hvað hann var að kenna mér. Ég misskildi líka hvar viðgerðarmaðurinn var staðsettur svo ég elti hann bara einhverja ranghala. Við komum að horninu þar sem viðgerðarmaðurinn átti aðsetur. Hann var ekki á svæðinu. Ég leit upp og þekkti hvar ég var. Ég var ekki þar sem ég hélt ég væri heldur svona hálftíma labb þaðan. Frábært.
Laurenz trúði því alls ekki að ég rataði heim frá þessum forláta stað svo hann rölti með mér. Þetta var alveg ofur yndæll maður en núna var ég engan vegin í skapi fyrir kurteisital og málfræðiútskýringar á swahili sem ég skildi ekkert í. 
Eftir um hálftíma göngu skildust leiðir og hann hjólaði til síns heima. Ég labbaði heim með hjólið, sem tók klukkutíma í viðbót.


Ég er að hugsa um að hita te og bjóða Pollýönnu til mín í kvöld. 

Sunday, May 10, 2015

Kleinugerð

Hér notar enginn venjulegar eldavélar. Rafmagnið er of dýrt til þess. Margir eru með gaseldavélar en vinsælast er að vera með kolaeldavélar. Þar af leiðandi eru kökur og brauð ekki algengur matur hér. Fólk steikir eða sýður matinn. Algengasta sætabrauðið hér heitir mandasi og minnir mig mjög á kleinur en er þó bragðdaufara. Þegar ég nefndi það við mömmu Rose að þetta minnti mig á íslenskar kleinur var hún mjög áhugasöm um að prufa þær. Í síðustu viku lærði ég að bara tansanískt chapati (pönnukökubrauð), nú var komið að mér að kenna henni. Ég var nokkuð viss um að geta fengið kardimommukrydd einhversstaðar og vissi að það væri hægt að kaupa bæði lyftiduft og súrmjólk í supermarkaðnum í bænum svo kleinur hlytu að vera raunhæfur möguleiki.

Ég var nú samt pínu með í maganum yfir þessar uppátektarsemi. Ég veit ekki hversu oft ég hef gert kleinur með mömmu og pabba en verkaskiptingin er alltaf sú sama: mamma býr til deigið og sker kleinur, ég flet út og sný, pabbi steikir. Svo ég virkilega kann bara einn hluta kleinugerðarinnar. En jæja, ég hlaut að geta reddað þessu, eftir að hafa séð þetta gert svona oft. Mamma sendi mér uppáhalds uppskriftina sína og góðar ráðleggingar. 

Fyrst var að fara í búðina. Með aðstoð mömmu Rósu fór ég með innkaupalista í súpermarkaðinn sem á stóð: lasiki, mafuta, mayei, baking powder. Lyftiduft reyndist vera flóknara mál en í matvörubúð númer þrjú fannst það. Þegar ég kom heim komst ég að því að ég hafði keypt maísmjöl en ekki hveiti en ég reddaði því 10 mínútum fyrir lokun.

Þá hófst kleinugerðin. Í uppskriftinni minni var allt mælt í grömmum en það eina sem ég hafði til að mæla magn var bolli, teskeið og matskeið. Mamma Rose hafði nokkuð næmt auga fyrir því hvernig við gátum slumpað á það allt saman. Ég vissi vel hvernig áferðin á deiginu átti að vera og nú kom sér líka mjög vel hvað mér finnst kleinudeig gott á bragðið- svo ég gat smakkað það til þar til ég var ánægð með útkomuna.

Mömmu Rósu fannst gaman að fylgjast með deiggerðinni en fannst þetta bara alveg eins og mandazi. Ég hef aldrei smakkað mandazi með kardimommubragði en það er víst til líka. En þá kom að því að skera kleinurnar. Já, þetta var alveg eins og mandazi sagði mama rosa (mandazi er tígullaga) en þegar ég setti gat í miðjuna og fór svo að snúa þeim varð hún aldeilis áhugasöm. Hún alveg uppveðraðist og fannst þetta ofboðslega skemmtilegt útlit. Ég sagði henni að prufa að snúa. Hún prufaði nokkrar en fannst sínar kleinur sko ekki verða jafn fallegar og mínar og gat ómögulega "eyðilagt" íslensku mandazi-in mín. Mér fannst það frekar krúttlegt.


Næst steiktum við kleinurnar og næstum frumraun mín í kleinusteikingum gekk bara ljómandi vel. Kleinurnar heppnuðust því bara yfir höfuð ljómandi vel og eru mera að segja búnar núna. Mér finnst pínu fyndið að hafa þurft að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að læra að búa til kleinur en það tókst. Sem betur fer voru þó nokkur atriði sem ég þarf að betrumbæta, svo ég hef þá bara ástæðu til að baka þær aftur sem mér finnst alls ekki leiðinlegt. Stefni allavega harðlega að því að bjóða uppá kleinur á 17. júní.


Sunday, May 3, 2015

Eiginmaðurinn fundinn


Þá er þessi áhugaverða masaaia helgi að lokum komin. Þetta hófst allt saman hér í Moshi þar sem við byrjuðum á að hitta Laisha, guidinn okkar. Hann er masaai og mætti að sjálfsögðu dressaður upp fyrir ferðina. Við vorum á leið í þorpið sem fjölskyldan hans býr í og þetta var í þriðja skiptið sem hann fór með túrista í þorpið sitt svo þetta var meira að segja nýtt og spennandi fyrir þau líka sem guidinn og þorpsbúar virkilega sýndu með vingjarnlegheitum og gestrisni. 

Við byrjuðum á að taka rútu í næstu borg. Næsta rúta fór í lítinn bæ rétt við þjóðgarðana, fylgdumst m.a. sebrahestum og úlföldum á leiðinni. Alls 5 tíma ferðalag. Frá litla bænum tókum við svo tuctuc leigubíl (þriggja hjóla mótorhjólavagn) í þorpið hans. Notabene þá voru ekki bílahæfir vegir þangað og útsýnið samanstóð af stráhúsum, trjám og breiðum, geitahjörðum og maasai fólki í litríkum frumbyggjaklæðum.

Þegar við komum í þorpið tók myndarlegur hópur fólks á móti okkur. Þau voru öll klædd rauð- og bláklæddum teppum. Konurnar voru með svakalega mikið af skartgripum á sér. Hálsfestarnar voru svakalegar perlufestar sem náðu niður fyrir hné. Eyrnalokkarnir voru svakalegir og svo þungir að þær voru með risa göt í eyrnasneplunum, auðveldlega hægt að toða tveimur puttum í gegnum gatið. Þetta þykir voða fínt og þegar ég spurði hvort þær klæddost þessu sérstaklega í dag fyrir okkur þá sögðu þær ekki svo vera. Þetta væri hversdagsdressið en svo ættu þær líka spariskartgripi.

Í þorpinu bjuggu svona 10-15 manns. Þetta er þorp í minna lagi. Það samanstóð af móður Laisha, mágkonu hans og barninu hennar, þremur öðrum konum og svo svona 8 mönnum sem allir voru warriors (stríðsmenn. Drengir eru stríðsmenn frá uþb 15-30 ára aldri og eftir það mega þeir giftast). Einnig var í þorpinu geitahjörð, kúahjörð, uþb. 5 asnar og einn hundur. Ég er ekki alveg viss um að ég sé að fara með rétt mál. Ég reyndi að fá betri útskýringar á fjölskyldumynstrinu en tungumálaörðugleikar voru nokkrir. Faðir Laisha bjó ekki í þorpinu. Hann á fjórar konur sem allar búa í sitthvoru þorpinu og hann ferðast á milli. Laisha sagði að pabbi hans væri 115 ára. (Laisha er tæplega þrítugur) Þegar við spurðum hann hvenær pabbi hans væri fæddur hafði hann ekki hugmynd um það…

Við fengum mótttökuathöfn með masaaia dansi. Hann er mjög fyndinn. Þeir sungu lag með alls konar fyndnum hálfgerðum hátíðnihljóðum og hoppuðu upp í loftið með miklum tilþrifum. Við stelpurnar fengum alls konar perlufestar og perlukraga um hálsinn. Við áttum svo að hoppa um og hrista brjóstin í leiðinni til að það myndi heyrast meira í perlufestunum.

Næst var geitinni slátrað. Sem betur fer sáu masaaiarrnir um slátrun og verkun. Næst var kveiktur eldur, kjötbitarnir (lærin, síðan, hryggurinn og lifrin) settir á á prik og eldaðir. Þetta var alveg svakalega bragðgott kjöt! Masaaiarnir útbjuggu að vísu súpu úr innyflunum en ég var ekkert að hafa mig frammi í að borða það.

Þá var farið að rökkva og komið að háttatíma. Við sváfum í sama húsi og fjölskyldan en vorum með vegg á milli. Dýnurnar okkar voru tveir skrokkar af kálfskinni en við vorum beðin um að koma með teppi sjálf. Þegar púsla á sex manneskjum á tvö kálfskinn er sofið frekar þröngt. Ég var þó þeirrar gæfu aðnjótandi að sofa á endanum svo ég gat sofið á hliðinni og beigt fæturna örlítið út í dyrakarminn. Við nutum svo nærveru þorpshanans um nóttina og ég get með sanni sagt að ég hafi vaknað við fyrsta hanagal þennan morgunn.

Þá var það morgunverðurinn. Að vísu var splæst í eitt samlokubrauð á liðið. EN. Það var ekki aðal morgunverðurinn….
Kálfablóð. Það er eitthvað sem er nauðsynlegt að drekka fyrir heilsuna, sérstaklega þegar þú ert veikur. Þess vegna var einn hress og sterkbyggður kálfur valinn, hann var skotinn með ör og boga í hálsinn þannig að út lak kröftugur blóðstraumur. Blóðið var sett í bolla. Þetta drukkum við svo í morgunmat. Ég verð að segja að ég meira smakkaði þetta en drakk það. En smakkaði þó. Þetta var mun skárra en ég bjóst við, ekkert sérlega sterkt bragð af því. Blæðingin hjá kálfinum var svo stoppuð með þurrkuðum kúaskít.

Masaaiahelgin endaði svo á ljúfri gönguferð um svæðið þar sem við sáum antilópur, alls kyns fallegar plöntur og tré, týndum saman lækningajurtir við hálsbólgu. Það var svo ljúft að bara loka augunum. Hlusta á fuglahljóð, flugnasuð og stundum heyrðist í kúabjöllum. Mögnuð helgi sem verður lengi í minnum höfð.


                                                    Í góðra vina hópi að gæða okkur á geit

Ég ásamt mannsefninu mínu...