Friday, May 15, 2015

Gotta love it

Þetta blogg var skrifað í vonleysiskasti síðasta þriðjudag. Ég hef ekki komist á netið síðustu daga svo bloggið verður opinberað núna:

Ef það er eitthvað sem á að taka með sér til Tansaníu þá er það þolinmæði og æðruleysi.

Ég er nýkomin heim úr vinnunni. Þremur og hálfum tíma eftir að ég lagði af stað heim. Ég var á hjóli í fyrsta skiptið og ætlaði að hjóla heim. Keðjan datt af. Ég lagaði það. Keðjan datt aftur af 5 mín seinna. Ég fékk áhorfendahóp af fimm pirrandi krökkum að suða um pening meðan ég lagaði keðjuna. Keðjan datt aftur af og þá var mér bent á að kíkja til einhvers bifvélavirkja rétt hjá. Hann tók fram töngina sína, bisaðist heillengi við verkið. Hjólið varð skárra en hann sagði mér að láta kíkja aftur á það þegar ég rækist á einhvern hjólaviðgerðarmann. Ég hjólaði ofur varlega af stað. Í þetta skiptið lifði keðjan í um 10 mínútur. Ég lagaði keðjuna. Hún datt af. Ég ákvað að reiða hjólið. Ég var stödd langt frá bænum og engir viðgerðarmenn væntanlegir í bráð. 
Eftir dágóða stund hjólaði maður framhjá mér. Hann stoppaði hjólið sitt og vildi fá að aðstoða mig. Maðurinn, sem heitir Laurenz var með alls konar verkfæri hengd á hjólið sitt og hann sagðist alltaf vera með þau á sér ef hjólið bilaði á leiðinni. Bara basic. Hann byrjaði að laga. Komst svo að því að það var annað sem var að sem hann gat ekki lagað. Ég sagði Laurenz hvar ég ætti heima. Það var enn heillangt þangað. Hann vildi fara með mig til viðgerðarmanns. Ég var mjög þakklát fyrir það en sagðist þó alveg geta fundið viðgerðarmann sjálf ef hann vildi komast heim. Við löbbuðum af stað og hann lagði sig fram við að kenna mér meiri Swahili á leiðinni. Ég skildi ekkert hvað hann var að kenna mér. Ég misskildi líka hvar viðgerðarmaðurinn var staðsettur svo ég elti hann bara einhverja ranghala. Við komum að horninu þar sem viðgerðarmaðurinn átti aðsetur. Hann var ekki á svæðinu. Ég leit upp og þekkti hvar ég var. Ég var ekki þar sem ég hélt ég væri heldur svona hálftíma labb þaðan. Frábært.
Laurenz trúði því alls ekki að ég rataði heim frá þessum forláta stað svo hann rölti með mér. Þetta var alveg ofur yndæll maður en núna var ég engan vegin í skapi fyrir kurteisital og málfræðiútskýringar á swahili sem ég skildi ekkert í. 
Eftir um hálftíma göngu skildust leiðir og hann hjólaði til síns heima. Ég labbaði heim með hjólið, sem tók klukkutíma í viðbót.


Ég er að hugsa um að hita te og bjóða Pollýönnu til mín í kvöld. 

No comments:

Post a Comment