Pabbinn hér á heimilinu þurfti að fara á spítala. Ég kom því inná tansanískt sjúkrahús i vikunni og ég verð að segja að það var upplifun, sorgleg upplifun fannst mér.
Hér í Moshi er aðal spítalinn fyrir norður Tansaníu. Þar eru um 450 rúm og spítalinn þjónustar svæði sem um 11 milljónir manns lifa á. Pabbinn hefur verið þar í nokkra daga í rannsóknum og heimilislífið hefur snúist um heimsóknartíma sjúkrahússins síðan. Mama Rose hefur ekki farið í vinnuna síðan hann var lagður inn. Það er meira en að segja það að eiga ættingja á sjúkrahúsi. Hún fer til hans þrisvar á dag með mat og þarf að passa að mæta á heimsóknartímunum. Í heimsóknartímunum þarf hún líka oft að ná á lækninn til þess að hann gefi henni lyfseðil, svo þarf hún að fara sjálf og kaupa lyfin. Þetta tekur allt saman ógnartíma. Fjölskyldan mín er samt heppin að búa hér í bænum og eiga bíl til að geta farið með það sem hann vantar.
Mama Rose leggur einnig mikið uppúr því að Baba George sé heimsóttur. Ég hef farið tvisvar með fjölskyldunni í heimsókn. Það hefur verið upplifun. Lyktin á sjúkrahúsinu var skrýtin og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað spítalinn er pínulítill, minni en borgarspítalinn. Inná stofunni sem Baba George lá voru 9 aðrir karlar. Rúmin lágu hlið við hlið með eitt náttborð á milli. Þar var fólk með alls konar mat og tebrúsann sinn. Það voru allir með teppi en fæstir með lak. Kodda þurfti fólk að útvega sjálft. Á heimsóknartímanum var margt um manninn inni á stofunni. Á leiðinni upp á stofuna greip ég um handriðið á stiganum en mamaRose stoppaði mig strax af. Sagði það ekki vera hreint og ég gæti smitast. Hún sagði líka að hann gæti fengið mat á sjúkrahúsinu en hún treysti ekki matnum. Þegar við komum heim voru allir sendir beinustu leið að vaskinum að þvo á okkur hendurnar. MamaRose er ekki paranoiuð kona. Ég veit ekki hvað af þessari hreinlætishræðslu hennar hefur við rök að styðjast en engu að síður finnst mér viðhorf hennar segja mér hvaða traust hún beri til spítalans. Í heimsóknunum hef ég séð sárafáa lækna og hjúkrunarfræðinga. Hlutföllin af starfsfólki og sjúklingum var bara gjörsamlega allt annað en heima.
Mér leið hálf óþægilega þarna inni. Ég fann fyrir vonleysi. Ef það kemur eitthvað fyrir Tansaníubúa, eitthvað alvarlegt, þá er þessi staður fólks eina von. Ég var óendanlega fegin fyrir sjúkratrygginguna mína þetta kvöld og sá nú ástæðuna fyrir því að ég var skyldug til að kaupa tryggingu sem inniheldur sjúkraflug beint heim ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir. Síðan ég byrjaði að vinna á endurhæfingarmiðstöðinni hef ég heyrt fullt af átakanlegum sögum en ég var viðbúin því og held ég sé með smá brynju á mér gagnvart þeim. Á þessari stundu fannst mér samt heimurinn hins vegar ósanngjarn. Að fjölskyldan sem ég bý hjá, þessi yndislega fjölskylda (og líka allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst hér) eigi ekki kost á betri læknisþjónustu bara af því að þau eru fædd á öðrum stað á jörðinni en ég.
No comments:
Post a Comment