Friday, May 15, 2015

Trúlofunarboð

Ég fór í brúðkaups fyrirpartý síðasta sunnudag, eða túlofunarboð. Brúðkaupin hér eru nú meira vesenið.

Fjölskyldan mín er skyld brúðurinni. 
Fyrstu helgina sem ég var hér fór ég í boð þar sem verið var að "samþykkja trúlofunina". Það var um 50 manna boð sem haldið var í móðurfjölskyldunni, af því að það á alltaf að vera í móðurfjölskyldunni, svo koma nokkrir fulltrúar úr föðurfjölskyldunni til að samþykkja. Leigð voru partýtjöld, fengin veisluþjónusta og svo var borið í fólk mat og drykk svo veglega að venjulegt íslenskt brúðkaup eru smáveislur í samanburði. Þetta boð stóð yfir í um 7 tíma.
Um síðustu helgi var trúlofunarboð. Það var haldið á sama stað en nú þurfti helmingi fleiri veislutjöld fyri gesti. Nú var helmingi fleira fólki boðið og aftur var borið í fólk mat og drykk eins og það gat í sig látið, en nú var einnig boðið upp á kvöldmat um kvöldið. Boðið byrjaði á um 90 mínútna guðsþjónustu og veislan stóð yfir í alls níu tíma.
Í lok júlí verður Send Off veisla. Þá er verið að senda brúðurina formlega til mannsins.  Það er víst enn stærri veisla sem þarf að halda í sal í næsta bæ til að koma öllum fyrir.
Allar ofangreindar veislur eru haldnar útí sveit hér rétt hjá Moshi þó hjónaleysurnar búi í borg sem er í um tíu klst. fjarlægð, af því að það er þannig.
Að lokum er það brúðkaupið, sem er víst enn stærri veisla. Hún verður haldin á eyju útá Viktoríuvatni. Ég hef horft á brúðkaup úr fjölskyldunni á DVD disk og heyrt sögur frá fólki sem hefur farið í tansanísk brúðkaup. Brúðkaupsdagurinn er þaulskipulagður frá A til Ö. Hvenær á að kyssast, hvenær á að borða forrréttinn, hvenær á að borða aðalréttinn, hvenær á að dansa, hver heldur ræður. Ég hef aðeins spurt mama Rose útí þetta og sagt að mér finnist þetta allt of mikið vesen. Hún hristir bara hausinn yfir þessum staðhæfingum mínum, ég fæ alltaf sama svarið: Because it is the tradition. 


Ég hitti hina verðandi brúður aðeins daginn áður. Hún er 26 ára. Ég sagði henni að þetta væri mjög frábrugðið því sem ég ætti að venjast. Hún sagðist eiga þónokkuð af vinum frá Evrópu og hafa heyrt hvernig brúðkaup fara fram þar. Hún hlakkaði til morgundagsins en henni fannst þetta alltof mikil fyrihöfn og alveg ofboðslega dýrt. Engu að síður var þetta flott veisla þar sem fólk var glatt á hjalla, spjallaði, dansaði og söng en ég get svo svarið það, ef ég gifti mig einhvern tíma mun ég ekki halda Tansanískt brúðkaup. 

2 comments:

  1. Ég fór í brúðkaup til Póllands þar sem voru 3 dagar í röð af boðum og veislum.
    Það hljómar samt bara eins og upphitun miðað við Tansanískt brúðkaup!

    ReplyDelete
    Replies
    1. já,,, ég man eftir brúðkaupslýsingunum þínum, og mér fannst alveg nóg um fyrirhöfnina. Ef ég man samt rétt þá fannst þér rosa gaman.

      Delete