Þá er þessi áhugaverða masaaia helgi að lokum komin. Þetta hófst allt saman hér í Moshi þar sem við byrjuðum á að hitta Laisha, guidinn okkar. Hann er masaai og mætti að sjálfsögðu dressaður upp fyrir ferðina. Við vorum á leið í þorpið sem fjölskyldan hans býr í og þetta var í þriðja skiptið sem hann fór með túrista í þorpið sitt svo þetta var meira að segja nýtt og spennandi fyrir þau líka sem guidinn og þorpsbúar virkilega sýndu með vingjarnlegheitum og gestrisni.
Við byrjuðum á að taka rútu í næstu borg. Næsta rúta fór í lítinn bæ rétt við þjóðgarðana, fylgdumst m.a. sebrahestum og úlföldum á leiðinni. Alls 5 tíma ferðalag. Frá litla bænum tókum við svo tuctuc leigubíl (þriggja hjóla mótorhjólavagn) í þorpið hans. Notabene þá voru ekki bílahæfir vegir þangað og útsýnið samanstóð af stráhúsum, trjám og breiðum, geitahjörðum og maasai fólki í litríkum frumbyggjaklæðum.
Þegar við komum í þorpið tók myndarlegur hópur fólks á móti okkur. Þau voru öll klædd rauð- og bláklæddum teppum. Konurnar voru með svakalega mikið af skartgripum á sér. Hálsfestarnar voru svakalegar perlufestar sem náðu niður fyrir hné. Eyrnalokkarnir voru svakalegir og svo þungir að þær voru með risa göt í eyrnasneplunum, auðveldlega hægt að toða tveimur puttum í gegnum gatið. Þetta þykir voða fínt og þegar ég spurði hvort þær klæddost þessu sérstaklega í dag fyrir okkur þá sögðu þær ekki svo vera. Þetta væri hversdagsdressið en svo ættu þær líka spariskartgripi.
Í þorpinu bjuggu svona 10-15 manns. Þetta er þorp í minna lagi. Það samanstóð af móður Laisha, mágkonu hans og barninu hennar, þremur öðrum konum og svo svona 8 mönnum sem allir voru warriors (stríðsmenn. Drengir eru stríðsmenn frá uþb 15-30 ára aldri og eftir það mega þeir giftast). Einnig var í þorpinu geitahjörð, kúahjörð, uþb. 5 asnar og einn hundur. Ég er ekki alveg viss um að ég sé að fara með rétt mál. Ég reyndi að fá betri útskýringar á fjölskyldumynstrinu en tungumálaörðugleikar voru nokkrir. Faðir Laisha bjó ekki í þorpinu. Hann á fjórar konur sem allar búa í sitthvoru þorpinu og hann ferðast á milli. Laisha sagði að pabbi hans væri 115 ára. (Laisha er tæplega þrítugur) Þegar við spurðum hann hvenær pabbi hans væri fæddur hafði hann ekki hugmynd um það…
Við fengum mótttökuathöfn með masaaia dansi. Hann er mjög fyndinn. Þeir sungu lag með alls konar fyndnum hálfgerðum hátíðnihljóðum og hoppuðu upp í loftið með miklum tilþrifum. Við stelpurnar fengum alls konar perlufestar og perlukraga um hálsinn. Við áttum svo að hoppa um og hrista brjóstin í leiðinni til að það myndi heyrast meira í perlufestunum.
Næst var geitinni slátrað. Sem betur fer sáu masaaiarrnir um slátrun og verkun. Næst var kveiktur eldur, kjötbitarnir (lærin, síðan, hryggurinn og lifrin) settir á á prik og eldaðir. Þetta var alveg svakalega bragðgott kjöt! Masaaiarnir útbjuggu að vísu súpu úr innyflunum en ég var ekkert að hafa mig frammi í að borða það.
Þá var farið að rökkva og komið að háttatíma. Við sváfum í sama húsi og fjölskyldan en vorum með vegg á milli. Dýnurnar okkar voru tveir skrokkar af kálfskinni en við vorum beðin um að koma með teppi sjálf. Þegar púsla á sex manneskjum á tvö kálfskinn er sofið frekar þröngt. Ég var þó þeirrar gæfu aðnjótandi að sofa á endanum svo ég gat sofið á hliðinni og beigt fæturna örlítið út í dyrakarminn. Við nutum svo nærveru þorpshanans um nóttina og ég get með sanni sagt að ég hafi vaknað við fyrsta hanagal þennan morgunn.
Þá var það morgunverðurinn. Að vísu var splæst í eitt samlokubrauð á liðið. EN. Það var ekki aðal morgunverðurinn….
Kálfablóð. Það er eitthvað sem er nauðsynlegt að drekka fyrir heilsuna, sérstaklega þegar þú ert veikur. Þess vegna var einn hress og sterkbyggður kálfur valinn, hann var skotinn með ör og boga í hálsinn þannig að út lak kröftugur blóðstraumur. Blóðið var sett í bolla. Þetta drukkum við svo í morgunmat. Ég verð að segja að ég meira smakkaði þetta en drakk það. En smakkaði þó. Þetta var mun skárra en ég bjóst við, ekkert sérlega sterkt bragð af því. Blæðingin hjá kálfinum var svo stoppuð með þurrkuðum kúaskít.
Masaaiahelgin endaði svo á ljúfri gönguferð um svæðið þar sem við sáum antilópur, alls kyns fallegar plöntur og tré, týndum saman lækningajurtir við hálsbólgu. Það var svo ljúft að bara loka augunum. Hlusta á fuglahljóð, flugnasuð og stundum heyrðist í kúabjöllum. Mögnuð helgi sem verður lengi í minnum höfð.
Ég ásamt mannsefninu mínu...
Vá! Þetta var dásamleg lesning.... ætli þú komir ekki vampíra heim? farin að drekka blóð eins og enginn sé morgundagurinn. En vá þvílík upplifun hefur þetta verið - og ekki verra að vera komin með eiginmann eftir ferðina ;)
ReplyDeleteGrrr, heitur gaur. Haltu í hann ;)
ReplyDeleteJebbs Hafliði, brúðkaup í Tansaníu 2018 (hann má ekki giftast fyrr því hann þarf að klára stríðsmannaárin sín 15 fyrir giftingu).
ReplyDeleteGeðveikt :) Þetta er sko eitthvað sem maður gerir ekki oft :D
ReplyDeleteúff nei, þetta var svaka áhugavert!
Delete