Hér notar enginn venjulegar eldavélar. Rafmagnið er of dýrt til þess. Margir eru með gaseldavélar en vinsælast er að vera með kolaeldavélar. Þar af leiðandi eru kökur og brauð ekki algengur matur hér. Fólk steikir eða sýður matinn. Algengasta sætabrauðið hér heitir mandasi og minnir mig mjög á kleinur en er þó bragðdaufara. Þegar ég nefndi það við mömmu Rose að þetta minnti mig á íslenskar kleinur var hún mjög áhugasöm um að prufa þær. Í síðustu viku lærði ég að bara tansanískt chapati (pönnukökubrauð), nú var komið að mér að kenna henni. Ég var nokkuð viss um að geta fengið kardimommukrydd einhversstaðar og vissi að það væri hægt að kaupa bæði lyftiduft og súrmjólk í supermarkaðnum í bænum svo kleinur hlytu að vera raunhæfur möguleiki.
Ég var nú samt pínu með í maganum yfir þessar uppátektarsemi. Ég veit ekki hversu oft ég hef gert kleinur með mömmu og pabba en verkaskiptingin er alltaf sú sama: mamma býr til deigið og sker kleinur, ég flet út og sný, pabbi steikir. Svo ég virkilega kann bara einn hluta kleinugerðarinnar. En jæja, ég hlaut að geta reddað þessu, eftir að hafa séð þetta gert svona oft. Mamma sendi mér uppáhalds uppskriftina sína og góðar ráðleggingar.
Fyrst var að fara í búðina. Með aðstoð mömmu Rósu fór ég með innkaupalista í súpermarkaðinn sem á stóð: lasiki, mafuta, mayei, baking powder. Lyftiduft reyndist vera flóknara mál en í matvörubúð númer þrjú fannst það. Þegar ég kom heim komst ég að því að ég hafði keypt maísmjöl en ekki hveiti en ég reddaði því 10 mínútum fyrir lokun.
Þá hófst kleinugerðin. Í uppskriftinni minni var allt mælt í grömmum en það eina sem ég hafði til að mæla magn var bolli, teskeið og matskeið. Mamma Rose hafði nokkuð næmt auga fyrir því hvernig við gátum slumpað á það allt saman. Ég vissi vel hvernig áferðin á deiginu átti að vera og nú kom sér líka mjög vel hvað mér finnst kleinudeig gott á bragðið- svo ég gat smakkað það til þar til ég var ánægð með útkomuna.
Mömmu Rósu fannst gaman að fylgjast með deiggerðinni en fannst þetta bara alveg eins og mandazi. Ég hef aldrei smakkað mandazi með kardimommubragði en það er víst til líka. En þá kom að því að skera kleinurnar. Já, þetta var alveg eins og mandazi sagði mama rosa (mandazi er tígullaga) en þegar ég setti gat í miðjuna og fór svo að snúa þeim varð hún aldeilis áhugasöm. Hún alveg uppveðraðist og fannst þetta ofboðslega skemmtilegt útlit. Ég sagði henni að prufa að snúa. Hún prufaði nokkrar en fannst sínar kleinur sko ekki verða jafn fallegar og mínar og gat ómögulega "eyðilagt" íslensku mandazi-in mín. Mér fannst það frekar krúttlegt.
Næst steiktum við kleinurnar og næstum frumraun mín í kleinusteikingum gekk bara ljómandi vel. Kleinurnar heppnuðust því bara yfir höfuð ljómandi vel og eru mera að segja búnar núna. Mér finnst pínu fyndið að hafa þurft að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að læra að búa til kleinur en það tókst. Sem betur fer voru þó nokkur atriði sem ég þarf að betrumbæta, svo ég hef þá bara ástæðu til að baka þær aftur sem mér finnst alls ekki leiðinlegt. Stefni allavega harðlega að því að bjóða uppá kleinur á 17. júní.
Vá, Mamma Rósa er alveg eins og ég ímyndaði mér hana!
ReplyDeleteHehe :) Hún er svo mikil african mama! Nú fyrr í vikunni fór hún í víðar gallabuxna-kvartbuxur og skræpótta skyrtu og mér fannst hún bara alveg eins og mamma mín :) Ég tala nú ekki um um kvöldið, þegar hún bað mig um að hjálpa sér að búa til enskupróf (hún er grunnskólakennari eins og mamma).
ReplyDelete