Tansanía hefur verið þekkt fyrir það að hér búi fólk af margs konar trúarbrögðum sem lifir í sátt og samlyndi við hvort annað. Kristnir, múslimar, hindúar og ýmis önnur trúarbrögð eins og andatrú o.fl. Helmingur íbúanna eru kristnir, sem skiptist í rómverk-kaþólska og lútherska. Fjölskyldan sem ég bý hjá er Lútherk kristin en húshjálpin er múslimi. Á sunnudögum eru guðþjónustur í gangi allan morguninn, byrja eldsnemma á sunnudagsmorgnum go svo eru alltaf nýjar og nýjar þjónustur á uþb. 1 1/2 tíma fresti (ein tekur við af annarri). Mamma Rose fer yfirleitt í margar messur og er í kirkjunni hálfan daginn en pabbinn og sonurinn láta eina athöfn duga.
Sunnudagar eru kirkjudagar, það fer ekki á milli mála. Við Tanja og Max ákváðum að fara saman í einn sunnudaginn. Þau eru kaþólsk svo við ákváðum að fara í kaþólska messu. Þegar ég vaknaði fór það ekki á milli mála að í dag væri sunnudagur. Sam var að strauja skyrtuna sína, mamma Rósa fór í hárgreiðslu kvöldið áður og var komin í kjól. Það var mun minna af fólki á götum úti en á öðrum dögum og þeir sem voru á ferli voru allir uppáklæddir. Það sást langar leiðir hvar væru kirkjur því þangað streymdi fólkið, hver í sína kirkju.
Ég kom svo í kirkjuna sem við ætluðum að hittast í. Þar var margt um manninn. Allir í sínu fínasta pússi og ég líka. Ég hafði aldrei farið í kaþólska messu áður og allt sem mér fannst nýtt og skrýtið eins og að vera alltaf að krjúpa, (það voru spes krjúpubekkir) og svo hafði presturinn alveg fullt af aðstoðarmönnum til að rétta sér hitt og þetta, halda á sálmabokinni o.fl. Það voru allt börn í einhvers konar kuflum/búningum. Tanja og Max sögðu samt að það væri bara alveg eins í Þýskalandi.
Áhugavert að kynnast þessu en 1 1/2 tími af swahili sem ég skildi ekki neitt var dálítið leiðigjarnt. Held ég haldi mig bara við mínar eigin íslensku bænir þó það hafi verið gaman að prufa.
No comments:
Post a Comment