Thursday, April 23, 2015

Það sem af er viku

Nemendurnir í Gabriella center eru enn í milliannafríi. Fyrstu tvær vikurnar voru notaðar í undirbúning. Þessi vika var hins vera Therapy vika. Við vorum með 10 börn sem komu til að vera í viku í endurhæfingu. Með hverju barni kom móðir, systir eða care taker sem fylgir barninu yfir vikuna, fær fræðslu um fötlun barnsins og fylgir barninu í öllu því prógrammi sem það tekur þátt í til þess að læra hvernig æfingar/meðhöndlun/íhlutun er ráðlögð.

Börnin voru eins misjöfn og þau voru mörg. Í venjulegri viku eru um 80 börn í skólanum en núna voru þau 10. Það varð til þess að starfsfólkið, sérstaklega Brenda, forstöðukonan hefur gefið sér góðan tíma í að útskýra fyrir okkur allt sem er í gangi hjá börnunum, kenna og sýna. Ég er búin að læra heilmikið um alls kyns námsörðugleika, sjónskynjunarerfiðleika, hegðunarvandamál, hreyfingavandamál, lömun eða bara nefndu það. Mér hefur hálf liðið eins og höfuðið á mér væri að springa eftir daginn þegar ég hef komið heim og reynt að lesa krot dagsins yfir og skrifa það samviskusamlega niður til að gleyma því ekki.


Það er átakanlegt að hitta 10 ára barn sem er búið að vera 4 ár í skóla en kann hvorki að skrifa nafnið sitt eða leggja saman tvo og tvo. Hér er einn kennari með 50 börn í venjulegum skólum og ekki hægt að sinna hverju barni fyrir sig. Ég er líka búin að vinna með barn sem lítur út fyrir að vera 4ra ára, hegðar sér eins og 4ra ára en kemst svo að því að barnið er 12 ára. Það hefur aldrei farið í skóla, setið iðjulaust meira og minna alla sína ævi og sáralitla örvun fengið. Fötlunarfordómar koma sterkir þarna inn en þó foreldrar vilji gera meira fyrir börnin sín þá vita þau bara ekki hvernig á að vinna með barnið eða að þau geti leitað sér aðstoðar (Aðstoð er líka alls ekki möguleg fyrir alla). Það er líka gleðilegt að sjá börnin mæta nú með ættingjum sínum í von um breytingar og betri tíma.

No comments:

Post a Comment