Saturday, April 11, 2015

ÍR-ingurinn

Ef þú hefur einhvern tíma sett gömul föt í fatagám, þá koma þau að góðum notum hér. Fötin sem eru seld á mörkuðum út um allt eru annað hvort notuð föt úr fatagámum eða úr fatabúðum sem ekki hafa selst.

Þegar við fórum í safariferðina byrjuðum við á því að keyra í gegnum Arusha, sem er borg sem er u.þ.b. klukkutíma héðan í burtu. Stemmningin var í hámarki, við vorum á leið í safariferð! Þegar við komum inn í borgina var margt fólk á ferli. Þar sem við keyrum eftir einni götuni verður mér litið á strák í bláum íþróttajakka og skyndilega sé ég að á vinstra brjóstinu á jakkanum er ÍR merkið. Ég trúi varla mínum eigin augum, lít betur á jakkann og sé þá að á hægra brjóstinu stendur "Hrefna" Ég varð að sjálfsögðu heldur betur hissa og segi stundarhátt yfir bílinn að strákurinn sé í íslenskum íþróttajakka og bendi á strákinn. Mubarak, safarileiðsögumanninum fannst þetta heldur betur áhugavert, sneri við á miðri götunni, fór frammúr stráknum og lagði svo bílnum neðar í götunni svo ég gæti tekið mynd af honum, og ef hann væri með eitthvað vesen gætum við keyrt strax í burtu.

Drengurinn kom nær og það stóð alveg. ÍR-Skíðadeild-Hrefna María. Ég greip upp myndavélina og smellti einni af honum. Strákurinn tók alveg eftir því en hann var hins vegar hinn almennilegasti og var heldur betur til í að ég tæki aðra mynd af sér í jakkanum og mér með (ég útskýrði fyrst fyrir honum hvernig málið stæði).

Ég spurði strákinn ekki meira útí það hvernig hann eignaðist jakkann en geri ráð fyrir að hann hafa komið í fatagámi með notuðum fötum.

Svo kæra Hrefna María, skíðadrottning úr ÍR, jakkinn þinn er í góðum höndum hins yndæla og myndarlega Alexanders í Arusha í Tansaníu :P

3 comments: