Wednesday, April 29, 2015

Hrísgrjónaakrar go bananaskógur

Ég er búin að hjóla vítt og breitt um nágrennið síðan ég fjárfesti í hjólinu mínu og yfirleitt veitir Sam mér félagsskap. Einn daginn hjóluðum við alla leið að KCMC, aðal spítalanum í norður Tansaníu og það var dágáður hjólatúr. Hjólið mitt virkar. Ég segi ekki meira. Hér eru menn útum allt með poka af verkfærum og varahlutum sem hægt er að fara til ef eitthvað bjátar að hjólinu. Ég er nú þegar búin að fara tvisvar (vegna tvenns konar pedalavanamála) og það er ekkert athugavert við það miðað við 10 daga notkun.

Síðasta laugardag fór ég heldur betur spennandi hjólaferð. Ég var búin að mæla mér mót við Rhamadan aftur, strákinn sem ég fór með í hjólaferð daginn sem ég keypti hjólið mitt. Við hófum ferðina heima hjá honum þar sem ég hitti mömmu hans, systu, systurson og nokkra nágranna. Hann var alveg pott þétt búinn að boða koma mína í heimsókn áður en ég kom. Ég hrósaði tansanískum bönunum í hástert síðast þegar við hittumst og þar af leiðandi var mér réttur diskur kúgfullur af bönunum. Ég sló um mig með orðunum sem ég kann á swahili, sem vakti mikla lukku.

Þá lögðum við af stað. Við hjóluðum í gegnum hverfið hans en svo var hann með fullt af stöðum í huga: við enduðum í allsherjar landbúnaðarferð. Hann sýndi mér hrísgrónaakra. Þeir voru á floti í vatni. Handan hrísgrjónaakurstins var bananaskógur með öpum og þangað var ferðinni heitið. Við lyftum upp hjólunum okkar og byrjuðum að ganga eftir örmjóum, upphækkuðum stígum hrísgrjónaakursins með hjólin okkar. Við fórum líka yfir nokkrar "brýr" sem voru 1 trjádrumbur. En drullan og vatnið jókst bara og jókst  og okkur var ráðlagt af hrísgrjónabóndunum að snúa við, þetta yrði enn verra, svo við snérum við. Næst hjóluðum við milli mangó- og bananatrjáa, sáum ástaraldinstré og fórum að litlu vatni þar sem konur voru að þvo einhvers konar fræ og leggja til þerris. Þwim fannst mikið til myndavélarinnar minnar koma og vildu að ég tæki margar myndir af mér og þeim. 

Að öllu þessu loknu vorum við aftur komin heim til Ramadhans. Mamma hans var búin að elda fyrir okkur og tók ekki annað í mál en að ég borðaði hjá þeim. Ég kom inn til þeirra, þar sem þau buggu í tveggja herbergja húsi (stofa og svefnherbergi). Allir veggir voru þaktir í coca cola veggspjöldum. Mér fannst það pínu spes og spurði Ramadhan útí það. Hann sagði mér að honum hafi áskotnast Coca cola veggspjöld í gegnum gömlu vinnuna sína. Ég sá reyndar að bakvið veggspjöldin var bara einangrunin í húsinu, hrísgrjónapokar. Ég hugsa að þeim hafin fundist stofan snyrtilegri svona.


Ótrúlega áhugaverð hjólaferð númer tvö. Rhamadan og fjölskylda alveg endalaust yndæl eins og Tansaníubúum er lagið.

No comments:

Post a Comment