Aðal rigningartímabilið hérna er í apríl en stendur frá miðjum mars fram í miðjan maí. Fyrstu vikuna mína hér var steikjandi sól og hiti en eftir það fóru skýin að láta sjá sig með stöku skúrum. Það var hins vegar í gærmorgunn sem fyrsta alvöru demban kom. Ég var sofandi en vaknaði við hljóðið og í fyrsta sinn síðan ég kom greip ég í lakið mitt (ekki dýnulakið, heldur hitt), og breiddi yfir mig. Það var samt svo notalegt að hlusta á rigninguna.
Það er orðið aðeins kaldara núna,fer niður í 20 stiga hita á nóttunni og loftið er rakara. Malarvegirnir sem ég labba í vinnuna eru eitt drullusvað á morgnanna en skárri á leiðinni heim því þá hafa þeir þornað nokkuð.
Nú fer í hönd mikill gróður- og uppskerutími. Það er komin gróðurlykt í loftið. Þessa vikuna hefur annar hver maður verið með garðverkfærið með sér í strætó. Mér hefur líka verið sagt að sumir ráði einfaldlega ekki við sig og borði rennblauta moldina af þakklæti og ánægju fyrir rigninguna. Ég labba í gegnum mikið landbúnaðarhérað á leið minni í vinnuna. Það var rétt farið að sjást í eitthvað grænt gægjast uppúr moldinni á föstudaginn. Það var orðið þónokkuð hærra þegar ég mætti á mánudaginn (í gær), búið að vaxa heilmikið þegar ég fór heim og þegar ég fór heim áðan voru maísgrösin orðin svona 10 cm há.
Á rigningartímabilinu er algengara að rafmagnið detti út. Í gærmorgun var einmitt rafmagnslaust og þegar ég kom fram sagði mamma Rósa mér að "dada/systir" (vinnustelpan á heimilinu) væri farin út í búð að kaupa kol til að hita vatn. Ég reyndi að malda í móinn, dagðist ekki þurfa að fá te en það var ekki tekið til greina. Ég YRÐI að fá heitt te áður en ég færi út í þessum kulda. (kuldaskræfan ég var samt enn að stikna í stuttermabolnum). Í strætó á leiðinni í vinnuna voru margir klæddir peysum. Hins vegar var konan sem sat á móti mér í flísgalla með húfu og trefil. Ég þurfti að hafa mig alla við að halda andlitinu á mér alvarlegu.