Samtökin sem ég fór í gegnum buðu uppá tvo búsetumöguleika. Annars vegar að búa með fjölskyldu eða búa í húsi með öðrum sjálfboðaliðum frá sömu samtökum. Eftir þónokkrar vangaveltur ákvað ég að vera hjá fjölskyldu því mér fannst það einstakt tækifæri til að kynnast local líferni. Þessu fylgja kostir og gallar. Mér finnst þetta einstakt tækifæri til að kynnast nýjum hugsunarhætti og fjölskyldulífi. Ég hef þó reyndar alveg fundið fyrir því að ég er ekki jafn involveruð í félagslífinu og þeir sem búa með öðrum sjálfboðaliðum. Hingað til hefur samt verið alveg ótrúlega áhugavert að búa með fjölskyldunni. Hér fáið þið smá lýsingu á þeim og fjölskyldulífinu þeirra.
Mama Rosa er mamman á heimilinu. Pabbinn heitir George. Þau eiga fjögur börn, sá yngsti heitir Sam, hann er 19 ára og er sá eini sem býr enn heima. Svo er líka stelpa hérna (einhver frænka skilst mér) sem heitir Batuli en hún var ekki hérna fyrstu vikuna mína. Í síðustu viku bjó líka hér einn frændi sem er 18 ára en hann er farinn í skólann sinn aftur núna. Mamman og sonurinn tala góða ensku svo ég þekki þau best. Þau eru öll mjög yndæl og opin og það er gaman að spjalla við þau. Mamman kennir mmér líka Swahili. Ég er búin að fara með þeim í boð og heimsóknir og alls kyns spennandi. Ég kann vel við margt hérna, ekki spurning en það er ákaflega margt í heimilislífinu sem ég skil bara hreinlega ekkert í. Þá helst varðandi verkaskiptingu á heimilinu. Ég fæ t.d. eiginlega ekki að lyfta upp hendinni í heimilisstörfunum, sem mér finnst óþægilegt. Líður pínu eins og postulínsdúkku. Pabbinn er aldrei heima og borðar aldrei með okkur, ekki einu sinni þegar hann er heima. Mér finnst eins og frænkan og sonurinn fari hreinlega aldrei úr húsi til að hitta vini eða eitthvað. Alls konar skrítið.
No comments:
Post a Comment