Saturday, March 28, 2015

Þvottavélar og vestrænir spítalar

Ég velti stundum fyrir mér hvaða hugmyndir fólkið hérna hefur um Evrópubúa. Ég var að spjalla við mama Rósu um daginn og þá sagði hún beint út það sem ég hef oft á tilfinningunni: Stundum höldum við að hvítt fólk geti ekki gert neitt.

       Ég á mörg lítil dæmi um þetta, t.d. þegar ég er í vinnunni og ætla að vaska upp (það er vaskað              upp öðruvísi en heima), þá sér einhver að ég er klaufsk við verkið miðað við þau og diskurinn er        bara tekinn af mér og vaskaður upp fyrir mig.

Rétt áður en mama Rósa sagði þetta höfðum við verið að spjalla saman. Ég sagði henni að mér þætti gaman að elda og gerði mikið af því heima. Mama Rósa var alveg hissa á því að ég kynni að elda, spurði mig hvað ég eldaði og ég sagði henni að t.d. eldaði ég hrísgrjón og sósu/pottrétti rétt eins og hér. Þá sagði mama, já þá svona í hrísgrjónapotti/tæki? Nei sagði ég, bara rétt eins og þið hérna, í potti á eldavél. Ég bý líka til alls konar pottrétti með grænmeti og kjöti, bara eins og hér. Hún varð aldeilis hissa.

Fyrstu vikuna mína hér bjó einn frændi á heimilinu. Hann er í heimavistarskóla hér í bænum en af því að hann er var puttabrotinn og í gipsi þá mátti hann ekki vera á heimavistinni því hann gæti ekki unnið nein húsverk og ekki gert neitt. Mér fannst þetta heldur skrítið og sagði að hann gæti nú bara vel gert flest allt annað en kannski þvegið föt. Ég sagði að mamma mín gæti t.d. bara notað aðra hendina en hún gæti samt unnið flestöll húsverk, bara aðeins hægar. Mama Rósa skildi það vel, að einhent fólk í Evrópu gæti unnið öll húsverk því við værum með uppþvottavélar, þvottavélar og eftir því sem samræðurnar héldu áttaði ég mig á því að hennar hugmynd væri sú að hlutirnir gerðust einfaldlega að sjálfu sér í Evrópu. Ég reyndi að segja henni að þó við værum með þvottavélar þá þyrfti samt að hengja upp þvottinn eins og hér, strauja hann eins og hér og við þurfum að skola leirtauið, raða í uppþvottavélina og vaska upp allt það sem ekki má fara í vélina. Mama Rosa var ekki alveg að ná þessu. Húsverkin gerðust bara að sjálfu sér í Evrópu.

En við höfum spjallað meira. Ég hef sagt henni frá vinnunni minni hérna og vinnunni minni heima. Ég sagði henni að heima vinni ég með fólki sem hefði t.d. alzheimer eða fengið heilablóðfall. Ég sagði henni einnig að krabbamein væri ein helsta ástæða dauðsfalla á Íslandi og eitt af megin heilsufarsvandamálum þar. En það var eins og hún áttaði sig ekki á því að krabbamein eða aðrir sjúkdómar væru vandamál í vestrænum ríkjum. Við værum með svo mikið af sjúkrahúsum og læknum að það væri hægt að laga þetta allt saman. Rétt eins og við gengjum bara inn á spítalann og abrakadabra, þú ert læknuð!


Mörg húsverk hér eru tímafrekari en heima, samt ekki öll. Vandamál heilbrigðiskerfisins hér eru rosaleg og hakan á mér dettur niður á bringu þegar fólk segir mér frá stöðunni hérna. Það er samt líka alveg ofsalega áhugavert að heyra hugmyndir Tansaníubúa um lífið heima.

1 comment: