17.3.15
Fyrsta helgin mín hér var nú bara frekar róleg og afslöppuð. Á föstudaginn var ég tekin í kennslustund í afrískum dönsum af strákunum á heimilinu (syninum og frændanum). Það var mikið hlegið. Ég verð kannski búin að ná einhverju af þessu eftir ár…
Á laugardaginn fór ég í fjölskylduboð, fyrir-trúlofunarboð. Fjölskyldan mín er skyld stúlkunni og hér er hefð fyrir því að foreldrar/ættingjar mannsins sé boðið í boð til fjölskyldu konunnnar til að sjá hvernig þeim líst á og hvort eigi að samþykkja trúlofunina. Áður fyrr var einnig rætt um hversu margar kýr fengjust fyrir dótturina en það er sem betur fer ekkert þannig lengur. Bara partý og gaman gaman. Ég fékk alls konar góðan mat, þarna var búið að grilla alls konar fínerí eins og geitakjöt og kjúkling, elda hrísgrjón, bananasúpu og alls konar.
Á sunnudeginum lá leiðin í kirkju. Mér fannst ég nú verða að prufa það líka. Þangað mættu allir í sínu fínasta pússi og ég hafði gaman af því að skoða alla kjólana hjó konunum. Munstrin, litirnir, o þetta er svo flott. Þetta var lúthersk messa og að flestu leiti bara svipuð messunum heima fannst mér (ja ég skildi reyndar ekkert af því sem presturinn sagði svo ég get ekki alveg sagt til um það). Það var svolítið önnur stemmning að vera svona hálf utandyra svo það var ekki jafn mikil þögn og í kirkjum heima, fólk sem vildi syndga kom upp að altarinu með pening og kirkjukórinn söng gospellög og svingaði sér létt með.
No comments:
Post a Comment