7.3.2015
Síðasti heili dagurinn í Berlín var enn einn ljúflingsdagurinn. Við dunduðum okkur heima frameftir og borðuðum morgunmat. Fórum á checkpoint Charlie (múrahliðið) en það var svo mikil rigning að við fórum bara á kaffihúsið fyrir utan og skoðuðum minna af minnisvarðanum. Þar spjölluðum við svo mikið að þegar við litum á klukkuna sáum við að leiðin lá í næstu kaffidrykkju. Var boðið í heldur betur notalegt kaffiboð til Valla og Álfheiðar með alls kyns kræsingum og skemmtilegu spjalli. Þá var stefnan tekinn í næsta mat, asískan smáréttastað sem við vorum búnar að ákveða að fara á og var rosalega góður. Og þar var spjallað meira. Svo fór ég heim á skype. Semsagt. minn síðasti möguleiki á að tala íslensku var nýttur til hins ýtrasta.
Dagurinn runninn upp, farardagur. Kristín var kvödd með rembingskossi og við tóku þrjú flug: 1 klst til Frankfurt, 7 klst næturflug til Eþíópíu og 2klst til Tansaníu. Allt gekk eins og í sögu. Ég fékk fiðrildi í magann þegar ég gekk inn í vél Ethiopian airlines í Frankfurt, flugfreyjur í þjóðbúningum og risastór flugvél, með sætaröð í miðjunni.
Þegar ég lenti í Tansaníu þurfti ég í alvöru að klípa mig til að vita að þetta væri í alvöru að gerast. Vegabréfsáritunin, sem ég var búin að mikla svo fyrir mér gekk eins og í sögu, ég var sótt á flugvöllinn og bara allt gekk upp. Svo var allt spennandi. Gróðurinn, fólkið, klæðnaðurinn, lyktin, hljóðin.
Nú sit ég heima hjá mama Rósu, sem ég kem til með að búa hjá og tveimur börnum hennar sem eru um tvítugt. Hér er rafmagn og rennandi vatn og bara nokkuð nútímalegt að mörgu leiti.
Þennan fyrsta dag svíf ég bara á bleiku skýi. Þó það verði pott þétt ekki þannig allan tímann þá vona ég bara að það haldi sig hér sem lengst
No comments:
Post a Comment