Stasisafnið var á efst á lista yfir staði sem mig langaði að skoða í Berlín. Eftir að hafa verið nýbúin að lesa bók með frásögnum stasimanna um lífið á tímum múrs og persónunjósna var ég harðákveðin í að þetta væri staður sem þyrfti að skoða. Kristín var ekki alveg á því að fara á annað safn, svona sérstaklega af því að ég byrjaði að ræða þetta mál þegar við vorum enn eiginlega andlausar eftir gyðingasafnið. Hún systir mín var þó sannur gestgjafi og við af stað á næsta safn. Ég lofaði öllu fögru og áður en við komum á safnið stoppuðum við í bakaríi til að kaupa okkur kaffi og helst allt sem okkur langaði í þar annað, svona til að halda litlunni góðri um stundarsakir á safninu. Og árangurinn lét ekki standa á sér. Við tókum safnið með trukki, lásum nánast áhvert einasta skilti, spáðum og spekúleruðum. Þremur tímum síðar var það ég sem þurfti að draga Kristínu út af safninu, komin með alveg nóg í bili. Tvímælalaust staður sem ég mæli með að fara á í Berlín.
Klósettferðin. Ég þurfti á klósettið á Stasisafninu. Kvennaklósettið var upptekið svo ég skellti mér á fatlaðra klósettið og Kristín beið fyrir utan. Þegar ég kom inná klósettið fékk ég hins vegar alveg hugljómun. Þetta var flottasta klósettaðgengi fyrir fatlaða sem ég hef séð. Eins og gefur að skilja tók ég mér góðan tíma þarna inni, þurfti m.a. að virða fyrir mér gólfplássið til að athafna sig á með tilliti til hjólastólanotkunar og prufa alla fítusana sem voru í boði, (s.s. framlenging á sturt-takkanum, bakstuðning á salerni og hallastillingu á snyrtispegli). Einnig tók ég myndavélina mína uppúr töskunni og myndaði salernið í hólf og gólf. Þegar ég kom loksins út fékk ég vandræðalegt augnarráð frá Kristínu, hún vildi drífa sig fram. Starfskona á safninu hafði séð mig fara inná klósettið og líkaði ekki að þetta klósett væri notað af þeim sem ekki þurfti sérstaklega á því að halda. Hún hafði víst hellt sig yfir Kristínu og staðið fyrir utan hurðina með hendur á mjöðmum að bíða eftir mér eiginlega alla klósettferðina. Ég var hins vegar svo lengi þarna inni að hún gafst upp á biðinni rétt áður en ég kom út og strunsaði aftur í miðasöluna. Þegar ég kom út sagði Kristín að ef ég hefði litið við hafi beðið mín dráps-augnarráð úr miðasölunni. Ég tók hins vegar ekkert eftir því, allt of einbeitt við að segja Kristínu frá klósettinu.
Þá var dagurinn ekki nema hálfnaður. Við fórum heim og fengum Valla og Álfheiði, vini Kristínar í heimsókn sem var afskaplega notalegt. Um kvöldið var okkur boðið í mat til Klöru, vinkonu Kristínar úr skólanum. Þar var þónokkur hópur vina og kunningja kominn saman og það var ljómandi gaman. Kvöldið var þó ungt enn og við systur yfirgáfum samkvæmið og fórum á pöbbarölt ásamt nokkrum vel völdum BerlínarÍslendingum. Vel heppnaður dagur í Berlín númer fjögur.
No comments:
Post a Comment