10.3.2015
Þá var það fyrsti dagurinn í sjálfboðastarfinu. Strætóferðin úteftir er alveg kapítuli útaf fyrir sig. Nánari útlistingar seinna.
Ég ætla að byrja á því að segja aðeins frá Gabriellas rehabilitation centre, stofnuninni sem ég er sjálfboðaliði hjá svo fólk skilji betur komandi blogg. Þetta er endurhæfingarstöð fyrir börn með þroskafrávik/hegðunarvandamál. Börn sem þurfa líkamlega endurhæfingu eru yfirleitt beint á aðra endurhæfingarstöð í nágrenninu. Mikill meirihluti barnanna hafa einhverfu en það eru líka börn með alls konar s.s. downs-heilkenni og ADHD.
Flest börnin koma í endurhæfingu í 1-3 mánuði. Eftir að mat og viðtöl hafa verið framkvæmd er unnið í atriðum sem þarf að æfa s.s. félagsleg samskipti, sjálfstraust, námslegir þættir, eigin umsjá(klæða siga, matast ofl) og áhugamál/leikur. Fræðsla til foreldra er mikilvægur þáttur. Núna í þessari viku er t.d. therapy week en þá er foreldrum boðið að taka þátt í starfinu, sjá hvernig er unnið með börnunum og þeim ráðlagt hvernig þau geti haldið starfseminni áfram heima fyrir. Fyrir áhugasama bendi ég á heimasíðuna:
Þegar ég mætti í morgun tók Flora á móti mér sem er iðjuþjálfi og ég fylgdi henni fyrst um sinn. Hún byrjaði á að kynna mig fyrir fullt af börnum og láta mig fá fullt af skýrslum um þau. Fyrst fórum við í skynörvun með einu barni, þá voru teyjur með næsta barni og svo áhorfsmat með því þriðja. Allt fyrir hádegi. Ég sagði henni að ég væri orðin alveg rugluð á þessu öllu saman svo hún sagði mér bara að taka því rólega fyrstu dagana og fylgjast með starfseminni. Seinni partinn fékk ég bara að vera “fluga á vegg” þó ég hafi alls ekki verið það því börnin spáðu mikið í mér og spekúleruðu. Það var samt alveg nóg svona fyrsta daginn.
Í centerinu eru tvær hollenskar stelpur-dásemdarpíur í leikskólakennara-verknámi. Mikið var það nú gott og þær vildu glaðar leyfa mér að hanga utaní þeim allan daginn. Þær eru búnar að vera þar í mánuð og eiga fjóra eftir. Það var gott. Ég fór í bekk þar sem börn voru að læra stærðfræði, annan þar sem þau voru að læra litina, bursta-tennurnar kennslu, dans-session og leiktíma. Þegar ég kom heim fór ég bara strax inní herbergi því ég gat ekki meiri félagsleg samskipti í bili. Langaði líka að eiga minningar frá þessum fyrsta degi og skrifaði því þetta blogg sem mætir á veraldarvefinn þegar ég hef fengið nettengingu.
No comments:
Post a Comment