Friday, March 27, 2015

Bóndabrúnkan

Nú eru að verða komnar fjórar vikur síðan pabbi skundaði Reykjanesbrautina á gullvagninum góða, í átt að Keflavíkurflugvelli með mömmu í framsætinu, mig í aftursætinu og ferðatösku í skottinu. Það hafði lítið verið sofið nóttina áður enda frumburðurinn á leið til svörtustu Afríku. Ég held að mamma hafi spurt mig svona fjórum sinnum um morguninn hvort ég væri ekki örugglega með vegabréfið með mér, peningaveskið og bólusetningarskírteinið. Andrúmsloftið í bílnum var spennuþrungið en fullt tilhlökkunar. 
Þegar við vorum í þann mund að fara framhjá álverinur heyrist í mér úr aftursætinu: ,,Jeremías! Ég gleymdi brúnkukreminu mínu! "
Mamma, sem eins og áður sagði var frekar stressuð yfir þessu öllu var fljót til svars og sagði:,,Þú kaupir þér bara nýtt Arndís. Þetta verður bara allt í lagi, ég skal meira að segja láta þig fá pening fyrir því!"
Skömmu seinna heyrist í pabba: ,,Arndís, af hverju þarftu brúnkukrem í Afríku?"
Ég fór að skellihlæja og við öll þrjú.

Hér klæðist fólk fötum sem ná yfir axlirnar og niður fyrir hné. Ég er yfirleitt í munstróttum afríkubuxum, stuttermabol og sandölum. Fyrstu dagana fékk ég svakalegt stuttermabolafar og rosalegt tevufar á ristarnar. Þegar ég ætlaði að fara að jafna tanið út var hins vegar komið rigningartímabil og alltaf þegar ég ætla í sólbað er skýjað (það er eiginlega alltaf skýjað þessa dagana).

Ég er á leiðinni út í kvöld. Á túristastöðum, matsölustöðum og skemmtistöðum eru þessar siðferðisreglur um klæðnað frjálslegri. Ég er búin að hlakka mikið til að fara í eitthvað af sumarkjólunum sem ég kom með og var að máta áðan- þeir koma bara alveg hræðilega út með þessari bóndabrúnku.


Ég bjóst ekki við að segja þetta en: Ég er búin að vera þrjár vikur í Afríku og ég vildi að ég hefði tekið með mér brúnkukrem.

2 comments:

  1. Hahaha ég elska að lesa bloggin þín! Já nú hefði brúnkukrem komið sér vel ;)

    ReplyDelete