Monday, March 23, 2015

Mannréttindi

21.3.15
Það er svo margt skrýtið hérna. Ég vinn á endurhæfingarstofnun. Eitt af helstu markmiðum stofnunarinnar er að auka þekkingu almennings á fötlunum. Þau eru með alls konar verkefni í gangi. Um helgina er fótboltaleikur þar sem krakkar og starfsfólk keppir á móti fyrirtæki í bænum (fyrirtækið stefnir á að styrkja stofnunina). Meginmarkmið fótboltaleiksins er að kynna alla þá færni sem býr í einstaklingum með fötlun og hvað þau geta ef umhverfið og samfélagið styður þau. Dagur einhverfra verður haldinn með pompi og prakt í þarnæstu viku og stofnunin er með einn starfsmann í hálfu starfi við að fara inní skóla og aðrar stofnanir til að auka vitund fólks á fötlunum. Eftir rúma viku verður dagur einhverfu haldinn hátíðlegur í miðbænum. 
Það er sannarlega þörf á þessari vitundarvakningu. Hér er því trúað af mjög mörgum að ef það kemur fatlað barn inn í fjölskylduna þá sé komin bölvun í fjölskylduna. Í síðustu viku lagðist ég yfir skýrslur nokkurra barna sem ég kem til með að vinna með. Ég er næstum hætt að kippa mér upp við að lesa "faðir yfirgaf fjölskylduna þegar fötlun barnsins kom í ljós". Og stundum hafa mæður gert það líka. Bara látið sig hverfa og enginn veit neitt. Mér hefur líka verið sagt af fleira en einum að fatlað fólk sé læst inni á heimilum sínum því fjölskyldan vill ekki að þau sjáist. Fjölskyldan mín er með mann í vinnu sem er þroskaskertur. Hann er farinn heim þegar ég kem heim á daginn en hann er hérna á laugardögum. Ég hef aldrei séð hann koma inn í húsið og þegar ég borða hádegismat hér á laugardögum er alltaf byrjað á því að skammta á disk og fara með út til hans. Mér er sagt að honum finnist betra að borða einn en ég á erfitt með að trúa því.
Samkynhneygð er bönnuð hérna. Strákurinn sem er í fjölskyldunni spurði mig mikið útí hvernig þetta væri á Íslandi um daginn. Spurningarnar hans voru áhugaverðar, t.d. eins og: Ef strákur er hommi, langar hann þá í kærasta sem er strákur? En kærastinn, er hann þá líka samkynhneigður? Kyssast þeir? Alls konar svona spurningar. Hlutir sem mér finnst svo sjálfsagðir en auðvitað, ef þú þekkir þá ekki, ekki svo sjálfsagðir.
Í sjónvarpsfréttunum er rætt um albínóa nánast á hverjum degi og nú er ein algengasta sjónvarpsauglýsingin þannig að albínóar segja að þeir eigi rétt á lífi, öryggi og virðingu. Hér er alveg þónokkuð af albínóum. Í kringum Viktoríuvatn sem er hér rétt vestan við mig er meira af albínóum. Þar tíðkast að taka útlimi þeirra og nota í nornaseyði.


Það er svo margt skrýtið hérna. Eflaust eiga skoðanir mínar á ýmsu eftir að breytast á meðan veru minni stendur en ekki á þessu. Hvað þetta varðar er ég endalaust þakklát fyrir að vera Íslendingur.

No comments:

Post a Comment