Monday, March 23, 2015

Internetið, þvotturinn og harðfiskurinn

11.3.15
Þá kemur annar troðfullur af ævintýrum afríkudagur. Ég fékk að fara fyrr úr vinnunni til að komast í búð að kaupa mér internet fyrir lokun. Á leiðinni lenti ég í gæja sem vildi selja mér eitthvað. Hann elti mig um allt og beið fyrir utan internetbúðina á meðan ég var þar. Fólkið í búðinni varaði mig við honum þegar ég fór út, fannst hann frekar óhugnarlegur og sögðu mér að halda fast um veskið mitt. Ég gerði það og hann hélt áfram að elta mig. Mjög pirrandi og ég var orðin pínu smeyk við hann svo ég ákvað að bíða með að fara í bankann þar til á morgun.
Þegar ég kom heim virkaði internetið að sjálfsögðu ekki. Sama hvað ég reyndi og frændinn sem býr hér, reyndi. Ég var orðin alveg internet þyrst svo frændinn reddaði svona hot-spot interneti í gegnum símann sinn í smá stund. En þá datt rafmagnið út og þar með tölvan mín. Fuuu…
En allt í lagi. Ég fór út. Þar var mama Rosa að elda. (hér er eldað með kolum utandyra). Ég sagði henni eð mig langaði að þvo fötin mín. Hún lét mig fá fötu , bala, þvottaduft og sápu. Ég fór eitthvað að bjástra við að fylla fötuna af vatni og setti smá þvottaduft útí og svo nudda svona helstu “skítastaðina” eins og handarkrikana á bolunum ofl. Þá var heldur betur hlegið að mér. Mama Rosa og frænkan tóku málið í sínar hendur. Frænkan sýndi hvernig hlutirnir eru gerðir en mama Rosa eldaði og sagði til í þvottinum. Það átti að hafa vel af sápufroðu í fötunni og svo voru fötin nudduð og nudduð og nudduð, hver einasti blettur á flíkinni. Þær frænkurnar höfðu líka sterkar skoðanir á í hvaða röð fötin væru þvegin. Í endann voru þær stöllur alveg farnar að gúddera hvernig ég gerði þetta svo ég vonandi redda mér næst. Það var nú kannski alveg þörf á þessari kennslu því fötin voru grútskítug. Hér eru skrjáfaþurrir malarvegir og rykið þyrlast út um allt.
Á meðan ég og frænkan stóðum í þessum þvotti var mama Rosa að elda. Það var kominn alveg dásemdarylmur úr eldhúsinu, kókos- grænmetis-sósu- fínerí. Þegar ég var að ljúka við þvottinn minn kallaði mama Rosa: look Arndís, what we are having for dinner! … og á því augnabliki skellti hún öllum harðfisknum sem ég hafði gefið henni þegar ég kom, útí kókossósuna. Mér fannst það svakalega fyndið, sérstaklega af því að ég hafði sagt henni nokkrum sinnum að við borðuðum þennan fisk sem snakk, eintóman eða með smjöri.. Ég var löngu hætt að vera internetpirruð og harðfiskur í kóskossósu með hrísgrjónum er ljómandi gott.

No comments:

Post a Comment